Úttekt á umfangi skattsvika

Miðvikudaginn 05. nóvember 2003, kl. 15:10:47 (1236)

2003-11-05 15:10:47# 130. lþ. 21.8 fundur 130. mál: #A úttekt á umfangi skattsvika# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., Fyrirspyrjandi JóhS
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur, 130. lþ.

[15:10]

Fyrirspyrjandi (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. fjmrh. fyrir þau svör sem hann gaf hér við fsp. minni. Ég tel af því sem fram kom í máli hæstv. fjmrh. að vel hafi verið haldið á málinu af hálfu hæstv. ráðherra, en auðvitað harma ég það ef ekki tekst að afla gagna um umfang skattsvika fyrir árið 1998--2000. En af orðum hæstv. fjmrh. má marka að það er verið að gera það sem hægt er í ráðuneytinu til þess að afla þeirra gagna, og ég legg áherslu á að menn taki sér frekar lengri tíma til þess en hitt þannig að það geti þá legið fyrir til þess að við fáum heildstæða mynd af þeim breytingum sem hafa orðið á þessu tíu ára tímabili.

Það er alveg ljóst að umfang þessa verks var töluvert mikið og því má segja að það sé eðlileg skýring á því að þetta hafi dregist nokkuð, en nefndin átti að skila 1. júlí 2003. Af þeirri verkefnalýsingu sem hæstv. ráðherra gaf hér er hún fullkomlega í samræmi við þál. sem var samþykkt í maí 2002 þannig að það er unnið nákvæmlega eftir þeirri forskrift sem var gefin í þessari þáltill. og ég fagna því. Það eina sem ég heyrði að ráðherrann sleppti, sem fram kemur í tillögunni, var að það á að leggja fram tillögu til úrbóta og meta hvort og á hvaða sviðum efla þurfi skatteftirlit og skattrannsóknir og hvaða ávinningi það geti skilað í auknum skatttekjum. Ég geri ráð fyrir að nefndin hafi það verkefni líka og væri kannski ágætt að fá það fram í síðara svari hæstv. ráðherra ef hann telur ástæðu til þess að koma hér aftur í ræðustól.

En ég legg áherslu á það og hvet hæstv. ráðherra til þess að reyna að hraða þessu starfi þannig að við höfum tækifæri til þess að fjalla um niðurstöðu starfshópsins á þessu þingi.