Úrbætur í fjarskiptamálum í Norður-Þingeyjarsýslu

Miðvikudaginn 05. nóvember 2003, kl. 15:25:27 (1241)

2003-11-05 15:25:27# 130. lþ. 21.9 fundur 69. mál: #A úrbætur í fjarskiptamálum í Norður-Þingeyjarsýslu# fsp. (til munnl.) frá samgrh., samgrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur, 130. lþ.

[15:25]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Herra forseti. Það vantaði ekki stóryrðin hjá hv. þm. En ég held að afar mikilvægt í þessu sem öðru sé að tala af yfirvegun og í ljósi staðreynda. Það liggur fyrir að afkastageta kerfisins eins og er í dag er fullnægjandi. Ef hins vegar lægi fyrir mikil þörf um gagnaflutninga á þessu svæði, mundu símafyrirtæki að sjálfsögðu bregðast við eins og eðlilegt getur talist.

Ég gat þess sérstaklega að svokallað FS-net bauð út gagnaflutningaþjónustu inn á þetta svæði fyrir skólastofnanir og ríkisstofnanir. Þar er um að ræða afkastagetu sem er fullnægjandi og er fjarri því að vera fullnýtt samkvæmt upplýsingum sem ég hef frá í dag. Þannig að þetta er allt saman ofsögum sagt hjá hv. þm. þegar hann er að reyna að koma höggi á Landssímann, að hann standi sig ekki. Við verðum auðvitað í þessu tilviki eins og öllum öðrum að byggja upp þjónustuna miðað við þarfir og áætlanir og þær kröfur sem við gerum í lögum.

Ég vil vekja athygli á því sérstaklega í þessu sambandi að Landssíminn er í þessu tilviki til umræðu, en það eru fleiri símafyrirtæki, hins vegar er það réttilega Síminn sem er þarna með þjónustu, og við gerum miklar kröfur til Landssímans, miklu meiri kröfur en á þeim tíma þegar hv. þm. var samgrh. og hafði með þessi mál að gera.

Nýlega er búið að gera samning við Símann á grundvelli laga um fjarskipti og alþjónustu, þar sem honum er gert að veita þjónustu, ISDN-plús þjónustu sem nánast jafngildir ADSL-þjónustunni hér í þéttbýlinu. Þannig að inn á hvert einasta sveitabýli er hægt að fá þessar tengingar sem skipta miklu máli. Og ég held að við eigum miklu fremur að sameinast um það að þessi þjónusta verði bætt í takti við kröfurnar, í takt við þörfina, en að reyna að koma höggi á pólitíska andstæðinga eða símafyrirtæki sem gegna svo miklu hlutverki við uppbyggingu fjarskiptakerfisins á Íslandi.