Lega Sundabrautar

Miðvikudaginn 05. nóvember 2003, kl. 15:35:15 (1244)

2003-11-05 15:35:15# 130. lþ. 21.10 fundur 176. mál: #A lega Sundabrautar# fsp. (til munnl.) frá samgrh., BH
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur, 130. lþ.

[15:35]

Bryndís Hlöðversdóttir:

Frú forseti. Sundabrautin er eitt brýnasta samgöngumannvirkið sem fyrirhugað er að byggja. Brautin mun auðvitað nýtast jafnt landsbyggð sem höfuðborg því hún snýst um að gera aðkomu landsmanna að höfuðborginni og leiðina úr borginni betri. Það er ekki vanþörf á að bæta þar úr.

Það er gríðarlega mikilvægt að fyrsti áfangi brautarinnar komist til framkvæmda og að þessi mikilvæga samgöngubót tefjist ekki árum saman vegna ósamkomulags og þrætu á milli ríkis og borgar um þetta mikilvæga mál.

Hæstv. samgrh. nefndi hér arðsemina, að hún væri meiri varðandi innri leiðina. Ég held að það muni ekki svo gríðarlega miklu. En það sem spurt er um hér er umhverfismatið. Hvers vegna í ósköpunum má ekki láta fara fram umhverfismat á báðum þessum leiðum? Þetta er stórt og mikið mannvirki. Þetta hefur mikið að segja fyrir þá sem búa í byggðum Grafarvogs, sérstaklega þá í Hamrahverfinu. Er ekki eðlilegt að fara fram á að farið verði í umhverfismat varðandi báðar leiðirnar? Umhverfið mun vissulega finna fyrir þessari framkvæmd.