Lega Sundabrautar

Miðvikudaginn 05. nóvember 2003, kl. 15:36:33 (1245)

2003-11-05 15:36:33# 130. lþ. 21.10 fundur 176. mál: #A lega Sundabrautar# fsp. (til munnl.) frá samgrh., HHj
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur, 130. lþ.

[15:36]

Helgi Hjörvar:

Virðulegur forseti. Það er einkennilegt að heyra hæstv. samgrh. vitna til þess að ekki verði farið í þessa mikilvægu og brýnu framkvæmd hér innan Reykjavíkur öðruvísi en gripið verði til sérstakrar fjármögnunar á tengingunni yfir Kleppsvík. Ég hefði haldið að við Reykvíkingar hefðum í gjöldum okkar til hins opinbera og í gjöldum okkar í ríkissjóð skilað nægilegu fjármagni til að hér megi a.m.k. sjá til að lágmarksvegabætur séu framkvæmdar á kostnað ríkissjóðs en ekki sérstaklega fjármagnaðar með veggjöldum eða slíku.

Virðulegur forseti. Ég vil fyrst og fremst ítreka að hæstv. ráðherra þarf að svara því sem spurt er um. Það er rétt hjá hæstv. ráðherra að það er venja hjá Umhverfisstofnun að einn kostur sé aðalvalkostur en aðrir séu aukavalkostir. En um það er ekki neinn áskilnaður. Ég hefði talið mikilvægt að þessar tvær leiðir færu í mat sem jafngildar á jafnræðisgrunni og menn tækju afstöðu til þess hvor leiðin yrði farin að matinu loknu. Spurt er hvort ráðherrann telji eitthvað í vegi fyrir því.