Vistferilsgreining

Miðvikudaginn 05. nóvember 2003, kl. 18:01:56 (1252)

2003-11-05 18:01:56# 130. lþ. 21.16 fundur 61. mál: #A vistferilsgreining# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., Fyrirspyrjandi KolH
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur, 130. lþ.

[18:01]

Fyrirspyrjandi (Kolbrún Halldórsdóttir):

Frú forseti. Ég beini hér fsp. til hæstv. umhvrh. um vistferilsgreiningu og vottun íslenskrar matvælaframleiðslu. Í heimi þar sem svokölluð neytendavitund fer stöðugt vaxandi þurfa bæði stjórnvöld, opinberar stofnanir og ekki síður fyrirtæki á markaði að huga að umhverfisáhrifum allra okkar mannlegu gerða. Nú orðið vill fólk vita hvernig fæðan sem það innbyrðir verður til, hvaða efni eru í henni, hvort framleiðslan veldur mengun eða skaðar umhverfið á einhvern hátt. Já, neytendur krefjast þessa í auknum mæli og þeir krefjast þess líka að þeir geti þekkt vörurnar sem slíkar, með öðrum orðum að þær hafi vottun.

Kveikjan að þessari fsp. minni má segja að hafi komið í sumar þegar gerð var grein fyrir nýrri íslenskri rannsókn á umhverfisáhrifum þorskneyslu en þessi rannsókn er fyrsta rannsóknin sinnar tegundar sem farið hefur fram hér á Íslandi og það voru fjórir vísindamenn sem unnu við hana í rúm tvö ár, vísindamennirnir Eva Yngvadóttir hjá Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins, Helga R. Eyjólfsdóttir hjá Umhverfisstofnun og Halla Jónsdóttir og Bryndís Skúladóttir sem starfa hjá Iðntæknistofnun.

Hvernig skyldi maður meta umhverfisáhrif þorskneyslu? Jú, þau eru metin á þann hátt að fiskurinn er veiddur, unninn, fluttur á milli landa, borðaður og úrangi er hent. Markmið vistferilsgreiningar er sem sagt að komast að því hvar mesta mengunin verður í þessu framleiðsluferli öllu saman.

Í þessari tilteknu rannsókn var níu kílóum af þorski fylgt eftir frá því að þau voru veidd --- í þessu tilfelli með fullvinnsluskipi með botntrolli --- og niðurstöðurnar varðandi mengunina af olíunotkuninni við veiðar og flutning leiddu það í ljós að langmest mengun verður til við veiðarnar sjálfar. 70% af olíunotkuninni sem fóru í þessi níu kíló af þorski urðu til við veiðarnar sjálfar enda fer gífurlega mikil orka í það að veiða fisk og eftir því sem veiðarfærin okkar verða stærri, þeim mun meiri orka fer í veiðarnar sjálfar.

Vottun sjávarfangs er kannski ekki langt undan og það er vel til fundið að fá að vita hvort vottunarstofurnar okkar séu farnar að undirbúa sig undir slíkt. Í ljósi þessa sem ég nú hef sagt hef ég lagt eftirfarandi fsp. fyrir hæstv. umhvrh.:

Hefur ráðherra gaumgæft nýlegar niðurstöður íslenskra vísindamanna varðandi vistferilsgreiningu á þorskafurðum og eru líkur á að þessari aðferð verði beitt í auknum mæli hér á landi með það að markmiði að lágmarka umhverfisáhrif matvælaframleiðslu?

Hversu mikið er um vottaða framleiðsluvöru á Íslandi, hver er staða vottunarstofa og hver er stefna stjórnvalda í þessum málum?