Vistferilsgreining

Miðvikudaginn 05. nóvember 2003, kl. 18:05:16 (1253)

2003-11-05 18:05:16# 130. lþ. 21.16 fundur 61. mál: #A vistferilsgreining# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., umhvrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur, 130. lþ.

[18:05]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir):

Virðulegur forseti. Hér er spurt hvort ráðherra hafi gaumgæft nýlegar niðurstöður íslenskra vísindamanna varðandi vistferilsgreiningu á þorskafurðum og hvort líkur séu á að þessari aðferð verði beitt í auknum mæli hér á landi með það að markmiði að lágmarka umhverfisáhrif matvælaframleiðslu.

Því er til að svara að vistferilsgreining er verkfæri fyrirtækja til að ná markmiðum sínum í umhverfismálum samhliða því að svara kröfum neytenda um umhverfisvænar framleiðsluvörur. Vistferilsgreiningin er hugsuð út frá sjónarmiði fyrirtækjanna og hagsmunum þeirra, fremur en að hér sé um að ræða tæki stjórnvalda til að knýja á um sérstakt framleiðsluferli.

Aðgerðir stjórnvalda með setningu laga og reglugerða á sviði matvælaframleiðslu og opinbert eftirlit með því að þeim sé framfylgt stuðlar hins vegar að því að draga úr óæskilegum umhverfisáhrifum í matvælaframleiðslu þannig að vissulega er um tengingu að ræða.

Neytendur gera sífellt meiri kröfur um að fá upplýsingar um neysluvörur á markaði og þau áhrif sem framleiðsla þeirra kann að hafa á umhverfið og veita þar með fyrirtækjunum aðhald sem kemur fram í aukinni eftirspurn eftir vistvænum matvælum. Því er líklegt að fyrirtækin muni nýta sér vistferilsgreiningu framleiðslu sinnar í auknum mæli. Það er einmitt vegna þess, eins og fram kom hér í ræðu hv. fyrirspyrjanda, að neytendavitund fer mjög vaxandi.

Í öðru lagi er spurt hversu mikið sé um vottaða framleiðsluvöru á Íslandi, hver staða vottunarstofa sé og hver sé stefna stjórnvalda í þessum málum.

Því er til að svara að á Íslandi eru framleiðsluvörur vottaðar í matvælaframleiðslu með lífrænni vottun, vistvænni vottun og gæðastýringu í sauðfjárrækt. Hér er um að ræða matvælaframleiðslu sem heyrir undir landbrn.

Eftirtaldar reglugerðir gilda hér um:

Reglugerð um lífræna framleiðslu landbúnaðarafurða og merkingar, nr. 74/2002, reglugerð um gæðastýrða sauðfjárframleiðslu, nr. 175/2003 og reglugerð um vistvæna landbúnaðarframleiðslu, nr. 504/1998. Það má einnig taka fram að hér eru ýmsar umhverfismerkingar eins og norræni svanurinn.

Hér á landi er starfrækt ein vottunarstofa, Vottunarstofan Tún ehf., sem hefur heimild til að fullgilda leyfi til bænda og vinnslufyrirtækja til vottunar á lífrænni framleiðslu. Íslensk stjórnvöld hafa því stefnt og stuðlað að gæðastýringu í matvælaframleiðslu eins og að ofan greinir.