Stofnun hönnunarmiðstöðvar

Miðvikudaginn 05. nóvember 2003, kl. 18:11:16 (1256)

2003-11-05 18:11:16# 130. lþ. 21.13 fundur 96. mál: #A stofnun hönnunarmiðstöðvar# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., Fyrirspyrjandi ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur, 130. lþ.

[18:11]

Fyrirspyrjandi (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Virðulegi forseti. Stofnun hönnunarmiðstöðvar á Íslandi hefur alloft verið til umræðu á Alþingi. Ekki ætla ég að rekja hana hér nema að litlu leyti en ég minnist þess að hæstv. iðnrh., þá sem almennur þingmaður, var eitt sinn einn af flm. þingmáls um stofnun hönnunarmiðstöðvar. Nú síðast átti að koma á hönnunarmiðstöð samkvæmt stefnu ríkisstjórnarinnar í byggðamálum frá 2002--2005. Í ráðuneyti hæstv. ráðherra á málið sér líka nokkra sögu. Árið 1991 skipaði þáv. iðnrh., Jón Sigurðsson, vinnuhóp til að finna leiðir til eflingar íslenskum húsgagna- og innréttingaiðnaði og lagði hann til að komið yrði á fót miðstöð íslenskrar hönnunar en slíkar hönnunarstöðvar, design centers, eru starfræktar í öllum vestrænum iðnríkjum. Slík starfsemi mundi ekki aðeins gagnast húsgagnaiðnaðinum heldur einnig allri annarri íslenskri framleiðslu.

Haustið 1993 skilaði starfshópurinn greinargerð til þáv. hæstv. iðnrh., Sighvats Björgvinssonar, og var í kjölfarið farið í tveggja ára tilraunarekstur hönnunarstöðvar með Samtökum iðnaðarins. Að þeirri tilraun lokinni var nýr iðnrh., Finnur Ingólfsson, kominn til sögunnar og var hann ekki tilbúinn til að leggja fé í hönnunarmiðstöð og stoppaði málið þar með.

Árið 2002 skilaði nýr vinnuhópur á vegum iðnrh. áliti um hönnunarstöð og er nú beðið eftir svari frá hæstv. iðnrh. um hvort starfrækt verði hönnunarmiðstöð á Íslandi eins og í nágrannalöndum okkar.

Hönnun, verð og gæði eru þau atriði sem liggja til grundvallar þegar vara er valin. Hönnun vörunnar, þ.e. útlit, eiginleikar og fjölbreytni, ræður oft úrslitum um hvort hægt sé að nota íslenska framleiðslu. Hönnun er hugvit sem við verðum að nýta. Hönnun er uppspretta framleiðsluvara og í raun ein af forsendum fyrir nýsköpun í atvinnumálum landsmanna. Tækifæri íslensks iðnaðar liggja í hönnun og vöruvöndun. Því ber stjórnvöldum skylda til að styðja duglega við bakið á þeirri hönnunarstarfsemi sem fyrir er í landinu.

Vestræn iðnríki hafa fyrir löngu gert sér grein fyrir því að hönnun er sterkasta vopnið í síharðnandi samkeppni og styðja því vel við bakið á allri hönnunarstarfsemi. Það gera þau m.a. með því að reka hönnunarstöðvar og á Norðurlöndum og á Bretlandseyjum hafa þær allar það meginmarkmið að örva og styðja hönnunarstarfsemi hjá framleiðslufyrirtækjum. Starfsemi stöðvanna hefur verið að aukast á seinni árum í nágrannalöndum okkar sem er sönnun þess að stjórnvöld í þessum löndum skilja mikilvægi hönnunar til að auka verðmætasköpun og styrkja samkeppnishæfni lítilla og meðalstórra fyrirtækja.

Í kjölfar nefndar um eflingu heimilisiðnaðar hefur íslenskt handverksfólk fengið góðan vettvang sem er Handverk og hönnun og svo Heimilisiðnaðarfélagið en íslenskir hönnuðir eru algjörlega afskiptir. Við höfum hönnunarsafn en enga hönnunarmiðstöð.

Því spyr ég hæstv. ráðherra: Hvað líður stofnun hönnunarmiðstöðvar hér á landi? Hvenær er ráðgert að koma henni á laggirnar og undir hvaða formerkjum?