Stofnun hönnunarmiðstöðvar

Miðvikudaginn 05. nóvember 2003, kl. 18:14:27 (1257)

2003-11-05 18:14:27# 130. lþ. 21.13 fundur 96. mál: #A stofnun hönnunarmiðstöðvar# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., iðnrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur, 130. lþ.

[18:14]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrir að bera fram þessa fsp. Ég er sammála því sem kom fram í máli hennar og vil geta þess að á umliðnum missirum hefur verið unnið markvisst undirbúningsstarf sem varðar stofnun hönnunarmiðstöðva. Þann 6. desember 2002 var að frumkvæði iðnrn. skipuð nefnd til að meta ávinning af rekstri hönnunarstöðvar fyrir íslenskt atvinnu- og efnahagslíf og koma með tillögur í því sambandi. Nefndinni var falið að leggja mat á hugsanlegar áherslur í starfi hönnunarstöðvar, kostnað, fjármögnun og önnur atriði sem máli skipta. Í störfum sínum skyldi starfshópurinn m.a. hafa hliðsjón af þeirri tilraun sem gerð var fyrir nokkrum árum með starfsemi hönnunarstöðvar hér á landi og kanna rekstur hönnunarstöðva erlendis.

Nefndin stóð m.a. fyrir ráðstefnu um hönnun sl. vor í samráði við Form Ísland og Norræna húsið og sóttu um 200 manns ráðstefnuna. Fyrirlesarar á ráðstefnunni voru bæði innlendir og erlendir og flestir með viðamikla reynslu á sviði hönnunar. Jafnframt kynnti starfshópurinn sér það starf sem fram hefur farið í nágranna- og samkeppnislöndum á sviði hönnunar. Nefndin skilaði síðan skýrslu í apríl 2003.

Í niðurstöðu nefndarinnar segir m.a., með leyfi forseta:

,,Á umliðnum missirum og árum hefur sú ánægjulega þróun átt sér stað að mikil gróska hefur verið á sviði hönnunar hér á landi í einstaka atvinnugreinum. Þetta má sjá m.a. af því að ýmsir frumkvöðlar á sviði hönnunar hafa náð góðum árangri. Þennan árangur virðist ekki síst mega rekja til aukinnar og bættrar kennslu á sviði hönnunar og starfs hönnuða sjálfra í sínum félagasamtökum. Þrátt fyrir þennan árangur má sjá margar vísbendingar sem hníga í þá átt að almennt hafi gildi hönnunar hér á landi verið vanmetið á umliðnum árum. Þetta kemur m.a. fram í því að viðhorf til hönnunar innan atvinnulífsins virðist vera vanmetið og fái ekki þann sess sem æskilegur er þar sem hönnun er afar mikilvægt atriði í ferli vöruþróunar, markaðssetningar og sölu. Þetta er ekki síst mikilvægt þar sem hönnun varðar marga þætti í líftíma vöru, hvort sem um er að ræða vöruna sjálfa eða allt ferlið sem viðkomandi vara fer í gegnum.

Í þekkingarþjóðfélagi nútímans hefur hönnun sívaxandi gildi og á það ekki síst við um margvíslega atvinnustarfsemi á sviði þekkingar og þjónustu, s.s. ferðamennsku, grafíska hönnun á sviði hugbúnaðar, kvikmynda eða í atvinnustarfsemi á sviði þjónustu.``

Í tillögum nefndarinnar segir einnig m.a., með leyfi forseta:

,,Til að stuðla að aukinni samkeppnishæfni fyrirtækja á sviði hönnunar, ekki síst smærri fyrirtækja, leggur nefndin til að sett verði á stofn hönnunarstöð. Starfsemin taki mið af sambærilegri starfsemi í nágranna- og samkeppnislöndum en þó er mikilvægast að starfsemin falli að íslenskum aðstæðum.``

Iðnrn. hefur áhuga á að koma á fót hönnunarstöð í samstarfi við aðra, ekki síst þá sem eiga að njóta þjónustu slíkrar stöðvar. Ráðuneytið hefur kannað nokkra kosti varðandi rekstur hönnunarstöðva og átt í viðræðum við hugsanlega samstarfsaðila. Það mun væntanlega skýrast á næstunni hvort hægt verði að ná samstöðu um fjármögnun og rekstur hönnunarstöðvar.

Að lokum vil ég einnig árétta þá skoðun mína að nú á tímum alþjóðavæðingar, sífellt harðnandi samkeppni og styttri líftíma vöru og þjónustu, skiptir hönnun sífellt meira máli við framleiðslu og markaðssetningu. Á það jafnt við um frumhugmyndir til markaðsfærslu, auglýsingar, vöru og þjónustu. Góð hönnun eykur jafnframt verðmætasköpun og styrkir verulega samkeppnishæfni fyrirtækja. Stærri fyrirtæki eiga þó að öllu jöfnu auðveldara með að sinna hönnun en þau smærri. Þar sem íslensk fyrirtæki eru yfirleitt smá á erlendan mælikvarða er mikilvægt að þau hafi þekkingu sem og gott aðgengi að hönnun og ráðgjöf á því sviði.

Einnig vil ég benda á, eins og kom fram hjá hv. þingmanni, að við umfjöllun um þál. um byggðamál fyrir árin 2002--2005, í maí 2002, mælti meiri hluti iðnn. með því að hafinn yrði undirbúningur að því að koma á fót hönnunarmiðstöð hér á landi, eins og ráðuneytið hefur þegar gert með vinnslu áðurnefndrar skýrslu.

Í nál. segir einnig m.a., með leyfi forseta:

,,Hönnun er eitt fyrsta skref framleiðslu. Íslendingar virðast hafa náð góðum árangri á því sviði. Flestir hönnuðir starfa hins vegar sem einyrkjar. Með samstilltu átaki á vegum hönnunarmiðstöðva mætti efla til muna árangur og verðmætasköpun, tengda hönnun, framleiðslu, kynningu og sölu margvíslegra þátta. Slík miðstöð yrði hvatning fyrir hönnuði og framleiðendur um land allt og gæti vakið alþjóðlega athygli á íslenskri hönnun og framleiðslu.``

Ég tek undir þessi orð sem koma fram í nál. og ítreka að unnið er að þessu í ráðuneytinu. Ég geri mér vonir um að áður en langur tími líði verði tíðinda að vænta af þessu máli.