Einkavæðing orkuveitna og orsakir rafmagnsleysis

Miðvikudaginn 05. nóvember 2003, kl. 18:23:33 (1260)

2003-11-05 18:23:33# 130. lþ. 21.14 fundur 122. mál: #A einkavæðing orkuveitna og orsakir rafmagnsleysis# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., Fyrirspyrjandi SJS
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur, 130. lþ.

[18:23]

Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Það er kunnara en frá þurfi að segja að það er umtalsverður hugmyndafræðilegur og pólitískur ágreiningur um ágæti þess að einkavæða eða færa yfir á markað, markaðsvæða, eins og stundum er kallað, ýmsa starfsemi eða þjónustu sem áður hefur verið á höndum opinberra aðila. Einkum og sér í lagi hefur þetta orðið umdeilt, og kannski í ljósi reynslunnar þar sem þetta hefur verið reynt, þegar í hlut á almannaþjónusta, grunnþjónusta, sem jafnvel ofan í kaupið lýtur lögmálum náttúrulegrar einokunar. Þetta á við um ýmiss konar veitustarfsemi. Við getum tekið rafveitur, vatnsveitur eða í okkar tilviki hitaveitur, fjarskiptaþjónustu, lestarsamgöngur eða annað því um líkt þar sem aðeins einn aðili á eða hefur yfir að ráða dreifikerfi fyrir þjónustuna eða vöruna eða hvað það nú er sem þar er afhent og meiri háttar umbyltingu þarf til að breyta þeim efnislegu staðreyndum. Þá hefur reynslan vægast sagt orðið blendin víða og um það geisa miklar umræður, bæði austan hafs og vestan. Ég ætla ekki að fara dýpra inn í þau mál af því að hér er sérstaklega verið að spyrja um raforkugeirann að gefnu tilefni en þar hafa menn verið í ýmsum æfingum, bæði í Ameríku, á meginlandi Evrópu, Bretlandi, Nýja-Sjálandi og víðar, við að einkavæða raforkugeirann, bæði framleiðslu og dreifingu.

Reynslan af þessu held ég að óhætt sé að segja, að ekki sé of djúpt í árinni tekið, er ákaflega blendin. Þetta hefur komist í kastljósið núna vegna bilana og rafmagnsleysis, vegna gríðarlegra verðhækkana, þegar raforkuskortur hefur skollið á, t.d. í Skandinavíu o.s.frv. Burt séð frá pólitískum hugmyndafræðilegum ágreiningi ætti að geta verið samstaða um að það væri fróðlegt í öllu falli fyrir menn að reyna að læra af reynslu annarra.

Af þessu tilefni og af því að ýmsar breytingar kunna að vera í vændum í þessum efnum hjá okkur sérstaklega hef ég spurt hæstv. iðn.- og viðskrh.:

1. Hefur ráðherra kynnt sér sérstaklega reynsluna af markaðs- og einkavæðingu orkuveitna erlendis, svo sem í Kaliforníu, á austurströnd Bandaríkjanna, í Bretlandi, á Nýja-Sjálandi og á hinum Norðurlöndunum, með tilliti til verðþróunar, afhendingaröryggis og annarra helstu þátta?

2. Hyggst ráðherra láta afla upplýsinga um orsakir rafmagnsleysis og tíðra og alvarlegra bilana sem orðið hafa að undanförnu á einkavæddum orkumörkuðum, bæði austan hafs og vestan, og síðan meta hvaða lærdóm megi draga af því sem þar hefur gerst?