Einkavæðing orkuveitna og orsakir rafmagnsleysis

Miðvikudaginn 05. nóvember 2003, kl. 18:32:01 (1262)

2003-11-05 18:32:01# 130. lþ. 21.14 fundur 122. mál: #A einkavæðing orkuveitna og orsakir rafmagnsleysis# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., Fyrirspyrjandi SJS
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur, 130. lþ.

[18:32]

Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Mér voru að sjálfsögðu kunnug þau gögn sem fylgdu frv. á sínum tíma inn í þingið. En það ber að taka fram að þau eru náttúrlega farin að eldast og mjög margt hefur verið að gerast í þessum efnum á allra síðustu missirum eins og við höfum fengið fréttir af. Hingað hafa komið lærðir menn. Einn af yfirmönnum raforkumála í Kaliforníu var t.d. hér á ferð fyrir ekki löngu síðan og varaði Íslendinga alveg sérstaklega við því að falla ofan í sömu forarpyttina og þeir Kalíforníubúar höfðu gert í sínum raforkumálum.

Ég hef áður nefnt úr þessum ræðustól að ég held að reynsla Nýsjálendinga væri alveg sérstaklega áhugaverð fyrir Ísland því að þar er um einangraðan orkumarkað að ræða sem er um sumt keimlíkur okkar. Þar er vatnsorka mikið nýtt og nokkuð er nýtt af orku til stóriðju. Þessi einangraði orkumarkaður var ,,líberalíseraður`` ef sletta má því og niðurstaðan er alkunn, þ.e. að það hefur orðið mjög á kostnað afhendingaröryggis og fjárfestinga í dreifikerfinu.

Það er akkúrat mergurinn málsins, herra forseti, að þó svo að raforkuverðið hækki ekki beinlínis við einkavæðinguna þá er ekki þar með sagt að allt sé í himnalagi. Það hefur komið á daginn að það sem iðulega gerist er að fyrirtækin vegna arðsemiskröfunnar frá nýjum eigendum sjúga út úr rekstrinum mikla fjármuni á kostnað þess að hætt er að fjárfesta í varanlegri uppbyggingu dreifikerfisins og svo hrynur allt þegar óveður skellur á. Þetta er niðurstaðan frá austurströnd Bandaríkjanna og að hluta til frá Bretlandi og Suður-Svíþjóð og Danmörku, þ.e. að menn fara að spara sér í verulegum fjárfestingum og viðhaldi hvort sem það eru járnbrautarteinar eða dreifikerfi raforku þegar hin þunga arðsemiskrafa er komin á og ef menn hafa ekki tækifæri til þess vegna fákeppni að skella því beint út í verðlagið þá gerist það að þetta hrynur innan frá.