Notkun kannabisefna í lækningaskyni

Miðvikudaginn 05. nóvember 2003, kl. 18:48:06 (1268)

2003-11-05 18:48:06# 130. lþ. 21.18 fundur 131. mál: #A notkun kannabisefna í lækningaskyni# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi MF
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur, 130. lþ.

[18:48]

Fyrirspyrjandi (Margrét Frímannsdóttir):

Virðulegi forseti. Frá og með mánaðamótunum ágúst/september máttu hollenskir læknar gefa út lyfseðla fyrir kannabisefnum. Þetta leyfi var veitt eftir að sérstök rannsóknarnefnd lyfjamála í Hollandi hafði rannsakað áhrif kannabisefna á sjúklinga og komist að þeirri niðurstöðu að efnið gagnist vel sem verkjalyf, m.a. fyrir krabbameinssjúklinga sem þjást af miklum verkjum, HIV-smitaða og MS-sjúklinga. Í Bretlandi og Kanada er einnig heimilt að nota kannabisefni eftir ávísun lækna. Læknar og vísindamenn í nokkrum löndum hafa stundað rannsóknir hliðstæðar þeim sem gerðar voru í Hollandi þótt notkun hafi ekki verið heimiluð.

Það kom fram í viðtali við Matthías Halldórsson aðstoðarlandlækni að heilbrigðisyfirvöld hér á landi fylgdust með þessum rannsóknum og vitað væri að kannabisefni væru notuð sem verkjalyf og við krampakenndum samdrætti sem fylgir sumum langvarandi sjúkdómum eins og MS. Það kom einnig fram að kannabisefni hafa í einstaka tilvikum verið notuð hér í heilbrigðisstofnunum þegar um er að ræða sjúklinga með erfiða langvinna sjúkdóma eins og krabbamein eða alnæmi á háu stigi. Það hlýtur þó að vera umdeilt hvort slíkt er löglegt þar sem notkun kannabisefna í líknandi tilgangi er ekki heimil án undanþágu.

Virðulegi forseti. Í júní árið 2000 féll dómur í máli 45 ára gamals manns sem tekinn hafði verið í tvígang fyrir að hafa hass í fórum sínum. Viðkomandi játaði brot sín en var dæmdur til að greiða 70 þús. kr. sekt eða í 16 daga fangelsi og til að greiða allan málskostnað upp á 50 þús. kr. Hér var þó um krabbameinssjúkling að ræða sem taldi sig þurfa efnið til að lina þrautir sínar. Að mati dómara breytti það engu um refsiverða háttsemi. Umræðan um það hvort leyfa eigi kannabisefni hér á landi hefur nær eingöngu snúist um misnotkun þessara efna, ekki um notagildi þeirra til að lina kvalir sjúklinga eða í líknandi meðferð.

Því spyr ég hæstv. ráðherra:

Hafa heilbrigðisyfirvöld tekið afstöðu til þess hvort leyfa eigi ávísun og notkun kannabisefna í lækningaskyni? Ef ekki, mun ráðherra beita sér fyrir því að það verði skoðað sérstaklega?