Notkun kannabisefna í lækningaskyni

Miðvikudaginn 05. nóvember 2003, kl. 18:50:38 (1269)

2003-11-05 18:50:38# 130. lþ. 21.18 fundur 131. mál: #A notkun kannabisefna í lækningaskyni# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur, 130. lþ.

[18:50]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Hv. þm. Margrét Frímannsdóttir hefur beint til mín fsp. um hvort heilbrigðisyfirvöld hafi tekið afstöðu til þess hvort leyfa eigi ávísun og notkun kannabisefna í lækningaskyni.

Lyf af flokki kannabisefna, þ.e. tetrahydrocannabiol, hafa verið á lyfjamarkaði yfir 20 ár. Engar formlegar hindranir eru í vegi fyrir því að slík efni séu notuð í lækningaskyni á Íslandi.

Ég get upplýst um að leyfi til notkunar lyfja eða annarra efna í lækningaskyni hér á landi eru veitt eftir tveimur leiðum. Sú sem algengust er er að lyfjafyrirtæki sæki um markaðsleyfi til Lyfjastofnunar. Að fengnu þessu leyfi geta læknar ávísað á lyfið á hefðbundinn hátt.

Hin leiðin á við ef læknir telur sjúkling þurfa lyf sem ekki er á skrá hér á landi. Þá sækir læknirinn til Lyfjastofnunar um undanþágu frá markaðsleyfi til að mega nota tiltekið lyf fyrir sjúkling.

Í báðum þessum tilvikum meta sérfræðingar Lyfjastofnunar umsóknir á grundvelli virkni, öryggis og gæða hvort veita eigi leyfi. Ekkert lyfjafyrirtæki hefur sótt um markaðsleyfi fyrir kannabislyf eða kannabisefni til Lyfjastofnunar en hins vegar var fyrir nokkrum árum sótt um undanþágu til notkunar á kannabislyfi á Landspítala -- háskólasjúkrahúsi til meðhöndlunar í sérstökum og erfiðum tilfellum og var hún veitt.

Þessi leið til notkunar lyfja af þessum flokki er opin líkt og áður en önnur betri lyf eru talin hafa komið við ógleði og er það væntanlega skýring þess að seinni ár hefur ekki verið sótt um innflutning á kannabistengdum lyfjum.

Ráðuneytið hefur fylgst vel með umræðu í nágrannalöndum okkar, bæði austan hafs og vestan, um gagnsemi og skaðsemi þessara lyfja sem hafa átt erfitt með að uppfylla kröfur sem teljast eðlilegar um gæði, hreinleika og virkni lyfja. Vímuvaldandi áhrif lyfsins eru vel þekkt en ég ætla ekki að fara nánar út í þá umræðu hér.

Hv. þm. spurði einnig hvort ég mundi beita mér sérstaklega fyrir að skoða hugsanlega leyfisveitingu. Ég vil eins og áður geta þess að það er hlutverk Lyfjastofnunar að meta lyf og veita leyfi til notkunar þeirra hér á landi. Við mat sitt á lyfjunum er Lyfjastofnun háð reglum sem gilda á Evrópska efnahagssvæðinu þannig að ef slík lyf verða almennt viðurkennd og fá markaðsleyfi í öðrum aðildarlöndum EES eru allar líkur á að slíkt mundi einnig gerast hér yrði eftir því leitað.

Íslenskir sjúklingar þurfa iðulega á lyfjum að halda sem eru ekki á markaði hér á landi. Kannabislyf teljast í þeim flokki. Að mínu mati er ekki ástæða til að meðhöndla kannabislyf á annan hátt en nú er gert við önnur lyf án markaðsleyfis þegar sótt er um að flytja þau inn handa einstaka sjúklingum.

Herra forseti. Ég vona að með þessu hafi ég svarað hv. þm.