Notkun kannabisefna í lækningaskyni

Miðvikudaginn 05. nóvember 2003, kl. 18:54:46 (1271)

2003-11-05 18:54:46# 130. lþ. 21.18 fundur 131. mál: #A notkun kannabisefna í lækningaskyni# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi MF
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur, 130. lþ.

[18:54]

Fyrirspyrjandi (Margrét Frímannsdóttir):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir svör hans. Það er helst á honum að skilja að það sé í raun og veru tiltölulega auðvelt fyrir lækni sem ákveður að sjúklingi hans henti betur að nota kannabisefni vegna verkjameðferðar, ógleði eða vöðvakrampa eða hvers kyns krankleika, að ef læknirinn metur það svo að kannabisefnin henti betur en þau sem eru á markaði hér þá sé það tiltölulega auðvelt.

Það er alveg nýtt fyrir mér að heyra þessar upplýsingar, ef ég hef skilið hæstv. ráðherra rétt, vegna þess að hingað til hefur verið mjög mikil tregða við að nota kannabisefni í lækningaskyni og sem líknandi meðferð. Ég er þeirrar skoðunar að sjúklingur sem kominn er á það stig að hann þurfi líknandi meðferð --- það sé það eina sem fram undan er --- að þá eigi að beita öllum tiltækum ráðum til þess að finna þau lyf sem honum henta.

Auðvitað er það rétt að vímuvaldandi áhrif lyfs eins og kannabisefna eru þekkt. En líka morfíns. Og e.t.v. þurrka kannabisefni ekki á sama hátt upp líkama einstaklings eins og morfínið gerir. Ég er enginn lyfjasérfræðingur en ég held að það sé nú samt þannig.

Spurning mín er í raun og veru sú hvort heilbrigðisyfirvöld muni beita sér fyrir því, eins og Hollendingar hafa gert, Bretar og Kanadamenn, að það sé tiltölulega auðvelt fyrir lækna að ávísa á kannabisefni ef þeir telja að það sé sjúklingnum fyrir bestu, t.d. í líknandi meðferð. Ég er ekki að spyrja um neitt ,,hér um bil`` og ,,kannski` í þessum efnum, heldur hvort heilbrigðisyfirvöld séu tilbúin til þess að skoða þennan möguleika á sama hátt og yfirvöld þessara landa hafa gert.