Öryggismál sjúklinga

Miðvikudaginn 05. nóvember 2003, kl. 18:59:21 (1273)

2003-11-05 18:59:21# 130. lþ. 21.19 fundur 161. mál: #A öryggismál sjúklinga# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi MF
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur, 130. lþ.

[18:59]

Fyrirspyrjandi (Margrét Frímannsdóttir):

Virðulegi forseti. Á aðalfundi Læknafélagsins, sem haldinn var í ágúst, kom fram að rekja mætti um 100 dauðsföll hér á landi á ári til mistaka í heilbrigðiskerfinu. Þessi tala byggðist þó ekki á rannsóknum eða eftirliti sem framkvæmt er hér heldur á tölum frá þeim löndum sem við berum okkur gjarnan saman við.

Í þessum tölum er ekki einungis átt við læknamistök heldur hvers konar mistök sem verða innan heilbrigðiskerfisins. Tölurnar byggja á rannsóknum sem staðið hafa yfir í 10 ár í Bandaríkjunum, Bretlandi, Ástralíu og Danmörku. Í Danmörku er talið að mistök í heilbrigðiskerfinu kosti um 1 milljarð danskra króna árlega. Þá megi leiða líkur að því, í samræmi við niðurstöður þessarar rannsóknar, að um 100 manns látist hér á ári vegna afleiðinga mistaka innan heilbrigðiskerfisins þó ekkert sé hægt að fullyrða um slíkt því svo víðtæk rannsókn hefur ekki verið framkvæmd hér á landi. Umræðan hefur einskorðast við svokölluð læknamistök og nær eingöngu þegar grunur leikur á að um mjög alvarleg mistök hafi verið að ræða eins og við heyrum oft í fréttum, nú síðast í gærkvöldi.

Virðulegi forseti. Ég tel að við stöndum ekki nægjanlega vel að verki hvað varðar eftirlit og rannsókn á mistökum sem verða innan heilbrigðiskerfisins og að sjúklingar sem og aðstandendur fái ekki þá meðhöndlun sem þeir ættu að eiga rétt á þegar grunur leikur á að mistök hafi orðið við meðhöndlun sjúklings. Þessu þarf að breyta, koma á fót sérstakri rannsóknarnefnd sem ekki er eingöngu skipuð fólki úr heilbrigðisstéttum. Etirlitið verður að vera virkt en réttur sjúklings eða aðstandenda er þó ríkastur, hann ber að virða. Því spyr ég hæstv. ráðherra:

1. Hafa öryggismál sjúklinga hér á landi verið rannsökuð sérstaklega?

2. Hefur verið ákveðið að setja á stofn rannsóknarnefnd slysa og/eða mistaka innan heilbrigðiskerfisins? Ef svo er, hvert er hlutverk hennar? Ef ekki, mun ráðherra beita sér fyrir því að slík rannsóknarnefnd verði skipuð?