Öryggismál sjúklinga

Miðvikudaginn 05. nóvember 2003, kl. 19:01:43 (1274)

2003-11-05 19:01:43# 130. lþ. 21.19 fundur 161. mál: #A öryggismál sjúklinga# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur, 130. lþ.

[19:01]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Hv. þm. Margrét Frímannsdóttir hefur beint til mín fyrirspurn um öryggismál sjuklinga, hvort þau hafi verið rannsökuð sérstaklega, sem og hvort ákveðið hafi verið að setja á stofn rannsóknarnefnd slysa eða mistaka innan heilbrigðiskerfisins.

Að mínu mati hefur öryggi sjúklingsins verið efst á baugi hjá öllum heilbrigðisstarfsmönnum og stéttum. Það er nátengt þeirra faglega metnaði, sérhæfðu námi og starfi meðsjúklinga, enda áhersluefni allt frá dögum Hippókratesar. Á seinni árum hefur ráðuneytið, stofnanir þess og einstaka fagfélög sett sér nánari gæðakröfur sem verða að teljast tengjast beint öryggismálum sjúklinga því að allar miðast þær meira og minna við það að sjúklingarnir njóti sem bestrar og öruggastrar þjónustu.

Landlæknisembættið hefur samkvæmt lögum mjög veigamiklu hlutverki að gegna í þessum málum. Þangað berast kvartanir frá sjúklingum. Þangað berast tilkynningar um atvik frá stofnunum og starfsmönnum, en einnig tekur landlæknisembættið sjálft að eigin frumkvæði upp öryggis- og gæðakröfur og framkvæmdir tilhlýðilegar athuganir á stofnunum. Öryggismál sjúklinga hafa því verið rannsökuð bæði á forsendum einstaklinga og stærri stofnana. Tel ég að þau mál hafi verið í farsælum farvegi sem hefur þróast í takt við kröfur tímans. Úr þessu má þó sífellt bæta og mikilvægt er að vera á öllum þessum stigum vel vakandi.

Nýleg umræða um að koma á laggirnar rannsóknarnefnd slysa eða óhappa innan heilbrigðiskerfisins tel ég jákvætt innlegg í þessa umræðu. Ég tel ekkert því til fyrirstöðu að landlæknisembættið komi sér upp slíkri nefnd til að vinna að frekari rannsóknum ákveðinna mála. Fagfélög heilbrigðisstétta hafa einnig sýnt öryggis- og gæðamálum vaxandi áhuga. Rannsóknaferli mistakamála innan heilbrigðisþjónustunnar er í ákveðnum lögbundnum farvegi bæði hjá landlæknisembættinu svo og í vissum tilfellum lögreglu og ég tel ekki forsendur eða þörf á því að leggja til breytingar á þeim vinnuferlum. Auknar kröfur fólks um að allar aðgerðir gangi fylgikvillalaust fyrir sig setja þær kröfur á heilbrigðisstarfsmenn að þeir upplýsi sjúklinga vel um hugsanlegar afleiðingar þess að undirgangast rannsóknir eða aðgerðir af ýmsum toga.

Ég tel að verulegar framfarir hafi átt sér stað á þessum vettvangi að hluta til með tilkomu laga um réttindi sjúklinga og einnig vegna almennra krafna um aukið upplýst samþykki sjúklinga áður en þeir gangast undir sumar aðgerðir.

Í þessu sambandi tel ég mikilvægt að lýsa þeirri skoðun minni að á Íslandi starfar fólk með góða menntun og mikinn metnað til að vinna vel með sína sjúklinga. Fylgikvillar eða óvæntar afleiðingar rannsókna eða meðferðar eru í mörgum tilfellum ófyrirsjáanlegar og óhjákvæmilegar og í mörgum tilfellum er ekki á nokkurn hátt hægt að tengja þær við mistök einstakra starfsmanna.

Tölur sýna að íslensk heilbrigðisþjónusta er örugg í alþjóðlegum samanburði. Þar eru mikil gæði og árangur af meðferð sjúklinga er með því besta sem sést í heiminum. Tel ég það m.a. stafa af því að heilbrigðisstéttir hafi borið öryggismál sjúklinga fyrir brjósti við störf sín.

Herra forseti. Ég hef áður lýst því að ég styð þá hugmynd landlæknis að efla rannsóknarmöguleika á atvikum sem gerast í heilbrigðisþjónustunni. Að sama skapi tel ég mikilvægt að allar stofnanir haldi vel vöku sinni og ég tel engan vafa á að margt megi bæta. En mér er það efst í huga upplýsingaflæðið milli einstakra starfsmanna, starfsstétta og stofnana, t.d. milli heilsugæslu, sérfræðistofu og sjúkrahúsa. Tel ég eitt mikilvægasta öryggismál sjúklinga að þetta sé einn af þeim þáttum sem okkur ber að beina sjónum að í nánustu framtíð.

Á tímum rafrænna samskipta bjóðast fjöldamargir möguleikar til að bæta þennan öryggisþátt og er því áhersla lögð á það í heilbrrn. að efla rafrænar færslur með þetta í huga.

Herra forseti. Ég vona að þetta hafi svarað fyrirspurn hv. þm.