Kynfræðsla í framhaldsskólum

Miðvikudaginn 05. nóvember 2003, kl. 19:20:37 (1280)

2003-11-05 19:20:37# 130. lþ. 21.20 fundur 188. mál: #A kynfræðsla í framhaldsskólum# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., MF
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur, 130. lþ.

[19:20]

Margrét Frímannsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Brynju Magnúsdóttur fyrir þessa fyrirspurn, ekki síst í ljósi þess, eins og kom fram í máli hæstv. ráðherra, að hér er tíðni kynsjúkdóma meðal ungs fólks mjög há. Hið sama gildir um fóstureyðingar. Þó að eitthvað hafi dregið úr þeim eru þær allt of margar á ári hverju.

Hæstv. ráðherra sagði að sóttvarnalæknir væri að skoða með hvaða hætti mætti auka notkun smokksins. Kannski er ekki úr vegi að leita til þeirra sem eru kannski rétt nýskriðnir úr framhaldsskólunum og vita af eigin reynslu hvernig best væri að haga þeim málum. Vafalaust er það svo að það gildir ekki sama um framhaldsskóla í dreifbýlinu og þéttbýlinu hvað varðar hjúkrunarþjónustu, fræðslu og annað. En eitt er þó alla vega víst, að smokkurinn virkar alveg eins í dreifbýlinu og þéttbýlinu.