Jöfnunarsjóður sveitarfélaga

Miðvikudaginn 05. nóvember 2003, kl. 19:27:23 (1284)

2003-11-05 19:27:23# 130. lþ. 21.21 fundur 150. mál: #A Jöfnunarsjóður sveitarfélaga# fsp. (til munnl.) frá félmrh., félmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur, 130. lþ.

[19:27]

Félagsmálaráðherra (Árni Magnússon):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að taka það skýrt fram að ekkert sveitarfélag hefur fengið greiðslur úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga á þessu ári á grundvelli eldri reglna sjóðsins.

Breytingar á lögum um tekjustofna sveitarfélaga sem samþykktar voru á haustþingi 2002 tóku gildi 1. janúar 2003 og hafa öll framlög á yfirstandandi ári verið greidd á grundvelli þeirra laga.

Varðandi fsp. hv. þm. Margrétar Frímannsdóttur um ofgreiðslur úr jöfnunarsjóði ber að hafa eftirfarandi í huga: Ný reglugerð um jöfnunarsjóðinn tók ekki gildi fyrr en á þessu ári. Þrátt fyrir að reglugerðin hafi ekki verið sett fyrr en 12. febrúar var ákveðið að greiða sveitarfélögunum útgjaldajöfnunarframlög á grundvelli áætlunar í janúar og febrúar.

Þegar útreikningur útgjaldajöfnunarframlaga lá fyrir í mars, samkvæmt reiknilíkani er byggir á reglugerðinni, kom í ljós að nokkur sveitarfélög höfðu fengið greidd útgjaldajöfnunarframlög samkvæmt áætlun þrátt fyrir að vera svo tekjuhá að framlög til þeirra áttu að skerðast nánast að fullu samkvæmt ákvæðum reglugerðarinnar.

Herra forseti. Ég tel óljóst hvað hv. fyrirspyrjandi, Margrét Frímannsdóttir, á við með því að spyrja hvort greiðslur til einhverra sveitarfélaga hafi verið stöðvaðar. Í reglugerð um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga er ekki gert ráð fyrir slíkri stöðvun en skv. 3. mgr. 102. gr. sveitarstjórnarlaga er ráðuneytinu heimilt að stöðva greiðslur ef sveitarstjórn verður uppvís að því að vanrækja lögboðnar skyldur sínar. Þessu úrræði hefur eingöngu verið beitt þegar sveitarfélag skilar ekki ársreikningum innan eðlilegs frests, sbr. 72. gr. sveitarstjórnarlaga.

Engar greiðslur hafa verið stöðvaðar á þessu ári til sveitarfélaga sem rétt eiga á greiðslum samkvæmt útreikningum útgjaldajöfnunarframlaga. Á hinn bóginn er ljóst að fimm sveitarfélög, sem fengu greitt samkvæmt áætlun fyrstu tvo mánuði ársins, reyndust ekki eiga rétt á framlagi vegna of hárra tekna og hafa þau af þeirri ástæðu ekki fengið greidd frekari útgjaldajöfnunarframlög. Jöfnunarsjóður átti inneign hjá þessum fimm sveitarfélögum þegar útreiknað jöfnunarframlag lá fyrir í mars á grundvelli reiknilíkans. Samtals nam þessi inneign rúmlega 6 millj. kr. og hafa leiðréttingar á ofgreiddu framlagi þegar átt sér stað í fullu samráði og í sátt við hlutaðeigandi sveitarfélög.

Til samanburðar er rétt að hafa í huga að heildarúthlutun útgjaldajöfnunarframlaga í ár mun nema um 1,9 milljörðum kr. Skekkjan nemur því um 0,3%.

Herra forseti. Ég tel að ekkert sé athugavert við vinnubrögð jöfnunarsjóðs í þessu sambandi. Þegar gripið er til þess ráðs að greiða samkvæmt áætlunum eins og gert var í byrjun ársins þarf engan að undra að skekkja geti myndast milli áætlunar og útreiknings sem byggður er á reiknilíkani. Velta sjóðsins er tæpir 10 milljarðar á ári og hér er því ekki um hátt hlutfall að ræða.

Hæstv. forseti. Ég vil minna á í þessu sambandi að við utandagskrárumræðu á hinu háa Alþingi 8. október sl. var rætt um ástæður skerðinga á útgjaldajöfnunarframlögum til tekjuhárra sveitarfélaga. Mér virðist að sumt af því sem fram hefur komið hjá hv. fyrirspyrjanda Margréti Frímannsdóttur sé ekki annað en endurtekning á þeirri umræðu. Mikið og gott samráð var haft við sveitarfélögin um endurskoðun á reglum jöfnunarsjóðs. Samband ísl. sveitarfélaga átti þrjá fulltrúa í nefnd sem endurskoðaði reglur sjóðsins og sérfræðingar sambandsins unnu náið að málinu með nefndinni og félmrn. Málið var síðan rækilega kynnt fyrir sveitarstjórnarmönnum auk þess sem samráð var haft við stjórn sambandsins og ráðgjafarnefnd jöfnunarsjóðs áður en breytingarnar tóku gildi.

Breytingar á framlögum jöfnunarsjóðs eru í fullu samræmi við tillögur endurskoðunarnefndarinnar. Í skýrslu nefndarinnar kemur t.d. fram að einn helsti ávinningur og fjárhagsleg áhrif breytinganna séu að framlög til meðalstórra sveitarfélaga eða sveitarfélaga með á bilinu 2.000--21.000 íbúa séu aukin og að dregið sé úr framlögum til mjög tekjuhárra sveitarfélaga.

Ég vil taka fram að tillögur endurskoðunarnefndarinnar fólu alls ekki í sér róttækar breytingar á uppbyggingu og gerð framlaga Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga.

Varðandi einstök sveitarfélög geta margir þættir haft áhrif á samanburð. Nefna mætti að mannfjöldabreytingar geta haft áhrif á niðurstöður milli ára, t.d. lækka framlög til sveitarfélaga þar sem börnum á skólaskyldualdri hefur fækkað. Þetta hefur leitt til þess að samanburður við fyrri ár verði óhagstæður.

Hæstv. forseti. Ég vil aðeins minna á það sem ég hef þegar sagt á Alþingi, að þegar rætt er um skerðingu útgjaldajöfnunarframlaga á þessu ári verður að hafa í huga að þjónustuframlög úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga voru óvenjuhá á síðasta ári. Safnast hafði fyrir eigið fé í sjóðnum og var tekin sú ákvörðun, að tillögu ráðgjafanefndar jöfnunarsjóðs, að auka úthlutun þjónustuframlaga á árinu 2002 um 500 millj. kr. Því verður að fara gætilega í öllum samanburði á framlögum milli ára.

Að auki hafði ríkissjóður lagt jöfnunarsjóði til sérstakt framlag þrjú næstu ár á undan, eða 700 millj. kr. ár hvert. Það fé sem sjóðurinn hefur úr að spila á þessu ári er þannig umtalsvert minna en heilt kjörtímabil sveitarstjórna þar á undan.