Jöfnunarsjóður sveitarfélaga

Miðvikudaginn 05. nóvember 2003, kl. 19:35:15 (1287)

2003-11-05 19:35:15# 130. lþ. 21.21 fundur 150. mál: #A Jöfnunarsjóður sveitarfélaga# fsp. (til munnl.) frá félmrh., Fyrirspyrjandi MF
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur, 130. lþ.

[19:35]

Fyrirspyrjandi (Margrét Frímannsdóttir):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin þó mér fyndust þau heldur rýr. Allt er í himnalagi varðandi áætlanir, rekstur og útgreiðslur jöfnunarsjóðsins en svo er ekki. Þingmenn Suðurk. eru búnir að vera á ferðalagi og heimsækja hvert einasta sveitarfélag í Suðurk. fyrir utan Vestmannaeyjar. Og alls staðar hafa komið fram óánægjuraddir með það hvernig staðið var að því að breyta úthlutunarreglum jöfnunarsjóðs og jafnvel að gripið hafi verið til þessara breytinga og menn hafi ekki vitað af þeim fyrr en um mitt ár. Hér er bréf frá Sandgerðisbæ þar sem segir, með leyfi forseta:

,,Fram til þessa hefur verið gengið út frá þeirri forsendu að ráðuneytið hafi leikreglur ársins í heiðri er framlög varðar sem og eftirfylgni á síðari stigum. Bæjarfulltrúar reyna eftir mætti að tryggja að leikreglur sveitarfélagsins er varða framgang mála séu virtar.

Nú hefur hins vegar sá hlutur gerst sem er kjarni þessa máls að forsendum hefur verið breytt og engin viðvörun eða ábending gefin um annað en að sama framlag komi frá sjóðnum á árinu í takt við afgreiðslu sjóðsins árið á undan.`` Og síðar segir:

,,Við greiðslur á framlögum ársins frá sjóðnum til bæjarfélagsins hefur verið stuðst við framlög ársins 2002 og því er nú svo komið að búið er að ofgreiða bæjarfélaginu um 18 millj. kr. þegar þetta er ritað, ...``

Annað bréf er frá Mýrdalshreppi þar sem segir, með leyfi forseta:

,,Kjörna fulltrúa í sveitarstjórn Mýrdalshrepps rekur ekki minni til að ný reglugerð um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga, nr. 113/2003, hafi verið kynnt þannig að gera mætti ráð fyrir þeirri lækkun sem nú virðist vera staðreynd.``

Hún er upp á 34% skerðingu hjá því sveitarfélagi. Ég get, virðulegi forseti, farið yfir lista sem er frá jöfnunarsjóði sem sýnir þennan gífurlega mismun. Hefði ekki verið rétt úr því að þessar athugasemdir koma fram frá sveitarfélögunum að bíða eftir næsta fjárlagaári og vinna þá undirbúningsvinnu betur því það hefur ekki verð gert af hálfu ráðuneytis?