Starfsmenntun leiðsögumanna

Miðvikudaginn 05. nóvember 2003, kl. 20:01:51 (1297)

2003-11-05 20:01:51# 130. lþ. 21.23 fundur 175. mál: #A starfsmenntun leiðsögumanna# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur, 130. lþ.

[20:01]

Menntamálaráðherra (Tómas Ingi Olrich):

Herra forseti. Það er misskilningur hv. fyrirspyrjanda að hér sé verið að gengisfella námið. Það var tekið fram í svari mínu við fyrirspurninni að það er ekki verið að breyta inntaki námsins né inntökuskilyrðum að öðru leyti en því að verið er að víkka inntökuskilyrðin. Er það ekki fullkomlega í samræmi (ÁRJ: Ekki ...) við þær breytingar sem eru að verða núna á námi yfirleitt þegar menn eru farnir að gæta þess að víkka innganginn að náminu, taka tillit til reynslu fólks og óformlegs náms? Þetta er í fullkomnu samræmi við þær hræringar sem eru að verða í námi í Evrópu og hv. fyrirspyrjanda hlýtur að vera kunnugt um.

Það er einnig rangt hjá hv. fyrirspyrjanda að vilji Alþingis hafi verið hundsaður með þessu. Því fer víðs fjarri. Ef það hefði verið eindreginn vilji Alþingis að námið yrði flutt á háskólastig hefði það verið sagt skýrum orðum. Það kemur hvergi fyrir í þessu nál. þannig að hv. þm. getur ekki haldið því fram að þegar málið var hér til umfjöllunar hafi skilaboðin frá menntmn. Alþingis verið þau að það ætti að flytja þetta nám yfir á háskólastig. (ÁRJ: Ráðherrann ætti að lesa nál.)