Sjálfstæðar rannsóknir í Tækniháskóla Íslands

Miðvikudaginn 05. nóvember 2003, kl. 20:11:02 (1301)

2003-11-05 20:11:02# 130. lþ. 21.24 fundur 231. mál: #A sjálfstæðar rannsóknir í Tækniháskóla Íslands# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi KJúl
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur, 130. lþ.

[20:11]

Fyrirspyrjandi (Katrín Júlíusdóttir):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. menntmrh. fyrir þessi svör en ástæðan fyrir því að ég legg þessa spurningu fram nú er sú að við erum með þennan kornunga háskóla í höndunum þar sem búa fjölmörg tækifæri og hann er einmitt í mótun núna og uppbyggingu á sínu innra starfi. Því tel ég mjög mikilvægt, það er skoðun mín, að nákvæmlega á þessum tímapunkti eigi að setja rannsóknarfé inn til þess að örva kennarana, örva nemendurna og alla þá sem búa í þessu tækniháskólasamfélagi til dáða við þetta uppbyggingarstarf sem þarna á sér stað. Ég sakna þess í fjárlagafrv. að ekki sé ein einasta króna sett til þessara rannsókna.

Það er ekki spurning að við eigum að efla tæknimenntun á Íslandi. Það er búin að vera skoðun ýmissa aðila á vinnumarkaði lengi og við höfum heyrt það t.d. oft hjá Samtökum iðnaðarins að þennan þátt menntakerfisins beri að efla en þá eru líka rannsóknir snar þáttur. Ég tel að við getum ekki beðið með það að setja fjármagn inn til rannsókna á meðan þessi ungi háskóli er í uppbyggingu og mótun. Ég tel að það skipti miklu máli hvað framtíð hans varðar.