Nám í hjúkrunarfræði

Miðvikudaginn 05. nóvember 2003, kl. 20:18:10 (1304)

2003-11-05 20:18:10# 130. lþ. 21.25 fundur 236. mál: #A nám í hjúkrunarfræði# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur, 130. lþ.

[20:18]

Menntamálaráðherra (Tómas Ingi Olrich):

Herra forseti. Það er spurt:

1. Hvaða ráðstafanir hyggst ráðherra gera til að auka námsframboð í hjúkrunarfræði í ljósi viðvarandi skorts á hjúkrunarfræðingum til starfa?

2. Hyggst ráðherra beita sér fyrir afnámi fjöldatakmarkana í hjúkrunarfræðinámi með hliðsjón af góðum árangri herferðar stjórnvalda, heilbrigðisstofnana og Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga þar sem ungt fólk var hvatt til að stunda hjúkrunarfræðinám?

Það er ekki á valdsviði menntmrh. heldur háskólastofnana að taka ákvarðanir um takmarkanir á innritun stúdenta í deildir skólanna. Lög um stofnanirnar eru mjög skýr hvað þetta varðar og ekki hafa farið fram umræður um að breyta þeim. Ef tekin eru t.d. lög um Háskóla Íslands, nr. 41 frá 22. mars 1999, segir í 2. mgr. 13. gr., með leyfi hæstv. forseta:

,,Háskólaráð setur, að fenginni tillögu deildar, nánari reglur um inntöku stúdenta í einstakar námsgreinar í grunn- og framhaldsnámi. Í reglum þessum skal m.a. heimilt að binda aðgang að námsgreinum frekari skilyrðum um undirbúning en fram koma í 1. mgr.``

Hliðstæð ákvæði eru í 4. gr. laga um Háskólann á Akureyri, nr. 40/1999, en þar segir m.a., með leyfi hæstv. forseta:

,,Háskólaráð skal, að fengnum tillögum deilda, staðfesta reglur um skráningu stúdenta í einstakar deildir þar sem kveðið er nánar á um inntökuskilyrði í viðkomandi deild.``

Um takmörkun aðgangs að námi í hjúkrunarfræði við Háskóla Íslands gilda reglur nr. 322/2003, með breytingum nr. 494/2003. Reglurnar eru settar af háskólaráði en þar er ákveðið að tillögu hjúkrunarfræðideildar að fjöldi nemenda í hjúkrunarfræði takmarkist við töluna 75 eins og kom fram hér áðan hjá hv. fyrirspyrjanda. Reglurnar voru settar nú í haust og samkvæmt þeim fjölgar nemendum sem teknir eru inn í hjúkrunarfræði um 10 frá sl. skólaári. Hliðstæðar reglur eru fyrir val á nemendum til náms í hjúkrunarfræði við heilbrigðisdeild Háskólans á Akureyri. Samkvæmt þeim miðast fjöldi nemenda sem öðlast rétt til náms á vormissiri fyrsta námsárs við grunntöluna 36 en var áður miðað við 32.

Tilkoma kennslu í hjúkrunarfræði í Háskólanum á Akureyri hefur stuðlað að fjölgun hjúkrunarfræðinga og mætt brýnustu þörfinni, sérstaklega á landsbyggðinni. Einnig ber að geta sérstaklega nemenda sem stunda fjarnám í hjúkrunarfræði. Ástæða þess að deildir gera tillögur um fjöldatakmarkanir þegar um nám er að ræða sem byggir að hluta til á verklegri þjálfun er sú að aðstaða til slíks náms er ekki fyrir hendi nema fyrir takmarkaðan fjölda nemenda.

Herra forseti. Sem fyrr segir er það á valdi háskólanna að taka ákvarðanir um takmörkun á innritun stúdenta í hjúkrunarfræði eins og öðrum greinum og er það gert á grundvelli faglegs mats og kennsluaðstöðu. Þá er ljóst að framboð á þjálfunarrými, þ.e. á sjúkrahúsunum, er takmarkandi þáttur þegar kemur að því að taka við nemendum í hjúkrunarfræðinám.