Nám í hjúkrunarfræði

Miðvikudaginn 05. nóvember 2003, kl. 20:21:34 (1305)

2003-11-05 20:21:34# 130. lþ. 21.25 fundur 236. mál: #A nám í hjúkrunarfræði# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi ÁMöl
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur, 130. lþ.

[20:21]

Fyrirspyrjandi (Ásta Möller):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. menntmrh. fyrir svör hans við fyrirspurnum mínum en þar kom m.a. fram að hæstv. ráðherra taldi að það væri ekki á sínu valdsviði að taka slíkar ákvarðanir, að fjölga námsplássum í hjúkrunarfræði. Hins vegar er það mín skoðun að stjórnvöld hljóti að hafa ákveðna skoðun á því hvort þörf er á að fjölga menntuðum hjúkrunarfræðingum til starfa. Ég kom m.a. í fyrri ræðu minni með mjög sterk rök fyrir því að svo sé og stjórnvöld geti þá í framhaldi af því veitt ákveðið fjármagn til þess að fjölga námsplássum í viðkomandi námi. Það sem gera þarf og hæstv. ráðherra getur ráðið við er að endurskoða reiknilíkan sem notað er til grundvallar fjármögnunar hjúkrunarfræðináms. Það reiknilíkan sem nú er notað sækir fyrirmynd sína til Svíþjóðar og samkvæmt þeim heimildum sem ég hef, hafa menntamálayfirvöld reiknað hjúkrunarfræðinám hér á landi einum flokki neðar en reiknilíkan Svía tekur mið af, þrátt fyrir að hjúkrunarfræðimenntun hér á landi sé á hærra stigi en almennt í Svíþjóð. Það munar töluverðu í fjárhæðum og er þess valdandi að það er ekki hægt að taka við fleiri nemendum en nú er, þrátt fyrir brýna þörf í kjölfar átaksins, þegar í fyrsta sinn í mörg ár er mikil ásókn í þetta nám. Það væri mikil synd ef ekki væri hægt að nýta þann aukna áhuga sem er á hjúkrunarfræðinámi og bæta þann mikla skort sem er á hjúkrunarfræðingum til starfa.

Ég vil endurtaka það að hærri viðmiðun í reiknilíkani mundi opna fyrir ákveðna fjölgun. Það kom jafnframt fram í máli hæstv. ráðherra að aðstaða til starfsnáms væri takmarkandi þáttur. Stjórnir hjúkrunarfræðideilda hafa sagt mér að það væri hægt að leysa það með endurskipulagningu á náminu. Stjórnendur á spítölum hafa jafnframt sagt mér að það eigi ekki að vera vandamál þar sem þeir sjálfir gera sér ljósa grein fyrir því hve mikil þörf er á að auka fjölda nemenda í hjúkrunarfræðinámi.