Nám í hjúkrunarfræði

Miðvikudaginn 05. nóvember 2003, kl. 20:23:51 (1306)

2003-11-05 20:23:51# 130. lþ. 21.25 fundur 236. mál: #A nám í hjúkrunarfræði# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur, 130. lþ.

[20:23]

Menntamálaráðherra (Tómas Ingi Olrich):

Herra forseti. Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef um þetta mál, þá er flöskuhálsinn í kennsluaðstöðu, þ.e. framboð og þjálfunarrými á sjúkrahúsunum. Það var einmitt á þeim grundvelli sem gripið var til sérstakra ráðstafana sl. vetur til þess að skapa svigrúm þar sem leiddi til þeirrar fjölgunar sem ég gat um í svari mínu. Ef það er hægt að taka á þeim málum með öðrum hætti, þá eru það upplýsingar sem eru gagnlegar og geta orðið til þess að þarna skapist meira svigrúm en nú blasir við. Það er fyrst og fremst þetta sem veldur því að þeir sem hafa innritast á fyrsta ár í Háskólann á Akureyri, sem ég hygg að séu um 60 nemendur, verður að fækka niður í 36 á næstu önn. Það er vegna aðstöðunnar í þjálfunarrýminu. Þannig að ef þetta eru ný viðhorf tel ég að það sé ástæða til að skoða þau en samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef er flöskuhálsinn á þessu sviði.

Það er því ekki beinlínis skortur á námsframboði heldur á aðstöðu á sjúkrahúsunum til þess. Ef upplýsingar koma um það að þessum flöskuhálsi megi breyta með einhverjum hætti er sjálfsagt að skoða það.