Lax- og silungsveiði o.fl.

Fimmtudaginn 06. nóvember 2003, kl. 10:35:13 (1307)

2003-11-06 10:35:13# 130. lþ. 22.6 fundur 111. mál: #A lax- og silungsveiði o.fl.# (staðfesting bráðabirgðalaga) frv. 116/2003, Frsm. meiri hluta DrH
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur, 130. lþ.

[10:35]

Frsm. meiri hluta landbn. (Drífa Hjartardóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti meiri hluta landbn. á þskj. 290. Það er 111. mál, frv. til laga um breytingu á lögum nr. 76/1970, um lax- og silungsveiði, lögum nr. 54/1990, um innflutning dýra, og lögum nr. 25/1993, um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim, með síðari breytingum.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið fjölda gesta á sinn fund á sinn, Guðmund B. Helgason, Sigríði Norðmann og Ólaf Friðriksson frá landbúnaðarráðuneyti, Gunnar Snorra Gunnarsson, Finn Þór Birgisson og Martin Eyjólfsson frá utanríkisráðuneyti, Ragnhildi Helgadóttur frá Háskólanum í Reykjavík, Eirík Tómasson frá Háskóla Íslands, Halldór Runólfsson og Gísla Jónsson frá embætti yfirdýralæknis, Þórólf Antonsson frá Veiðimálastofnun, Jón Gunnar Ottósson frá Náttúrufræðistofnun Íslands, Trausta Baldursson frá Umhverfisstofnun, Þórð Ásgeirsson frá Fiskistofu, Vigfús Jóhannsson frá Stofnfiski, Guðberg Rúnarsson frá Landssambandi fiskeldis- og hafbeitarstöðva, Arnar Jónsson frá Fiskey, Fiskeldi Eyjafjarðar, Þorstein Þorsteinsson og Óðin Sigþórsson frá Landssambandi veiðifélaga, Orra Vigfússon frá NASF, verndarsjóði villtra laxastofna, og Stefán Má Stefánsson frá Háskóla Íslands. Þá hafa nefndinni borist fjöldi umsagna og gagna.

Frumvarpið er lagt fram í þeim tilgangi að staðfesta bráðabirgðalög sem sett voru 1. júlí sl. og breyttu lögum um lax- og silungsveiði, lögum um innflutning dýra og lögum um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim, til samræmis við þjóðréttarlegar skuldbindingar Íslands samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið og til að innleiða tilskipun 91/67/EBE í íslenskan rétt en þeirri tilskipun hefur verið breytt með tilskipunum 93/54/EB, 95/22/EB, 97/79/EB og 98/45/EB og eru allar þessar tilskipanir hluti af EES-samningnum skv. 1. viðauka við hann og ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 69/98 frá 17. júlí 1998.

Tilskipun 91/67/EBE tekur til inn- og útflutnings innan EES og innflutnings frá löndum utan EES á lifandi fiski, krabbadýrum og lindýrum frá eldisstöð að meðtöldum dýrum sem lifa upprunalega villt en eru ætluð fyrir eldisstöð. Tilskipunin kveður á um hvaða skilyrði skuli setja um heilbrigði dýra en þau hafa áhrif á markaðssetningu fiskeldisdýra og -afurða í viðskiptum milli landa og svæða og notkun flutningstækja vegna slíks flutnings. Tilgangurinn er að efla ræktun og markaðssetningu fiskeldisdýra og -afurða á innri markaði bandalagsins og að innleiða samræmdar reglur innan Evrópusambandsins um eftirlit með fisksjúkdómum og varnir gegn þeim og um skilyrði á sviði dýraheilbrigðis vegna inn- og útflutnings eldisdýra, afurða þeirra og flutningstækja.

Herra forseti. Frumvarpið var fyrst lagt fram á síðustu dögum 128. löggjafarþings og taldi nefndin frumvarpið mjög umdeilt, viðamikið og þarfnast ítarlegrar skoðunar og vandaðrar þinglegrar meðferðar. Eftir að hafa átt fundi með nokkrum hagsmunaaðilum taldi nefndin ekki unnt að ljúka málinu á síðustu dögum þingsins án þess að veita hagsmunaaðilum færi á að vinna ítarlegar umsagnir um málið og senda nefndinni. Fyrir nefndinni liggur nú fjöldi umsagna og gagna frá hagsmunaaðilum og hefur landbn. farið afskaplega ítarlega yfir þetta mál.

Á þessu þingi hefur nefndin tekið til athugunar bæði formlegan þátt málsins, þ.e. setningu bráðabirgðalaganna sl. sumar og efnislega þáttinn sem er þríþættur og varðar sjúkdómavarnir, erfðafræðileg og vistfræðileg málefni.

Varðandi formhliðina telur nefndin að við samningu frumvarpsins hafi ekki verið nægilega gætt að ákvæði 1. mgr. 36. gr. laga um þingsköp Alþingis, nr. 55/1991, með síðari breytingum, þar sem segir að hverju frumvarpi skuli fylgja greinargerð um tilgang þess yfirleitt og skýring á höfuðákvæðum þess.

Þá óskaði nefndin eftir lögfræðilegri álitsgerð frá Ragnhildi Helgadóttur, lektor í Háskólanum í Reykjavík, varðandi það hvort brýna nauðsyn hafi borið til að setja bráðabirgðalögin nr. 103/2003 og er niðurstaða hennar sú að með henni hafi verið gengið nær 28. gr. stjórnarskrárinnar en dæmi eru um frá stjórnarskrárbreytingunni 1991 með hliðsjón af lögskýringargögnum með stjórnarskipunarlögum nr. 56/1991, sem breyttu 28. gr., og grundvallarreglum stjórnskipunarinnar. Hún telur hins vegar ólíklegt að dómstólar kæmust að þeirri niðurstöðu að bráðabirgðalöggjafinn teldist hafa farið út fyrir valdsvið sitt þó að sú niðurstaða sé ekki vafalaus. Þá fékk nefndin Eirík Tómasson prófessor á sinn fund og taldi hann setningu bráðabirgðalaganna takmarkatilvik.

Nefndin fór mjög ítarlega yfir efnislega hlið málsins sem er þríþætt eins og áður sagði og óskaði eftir umsögn umhverfisnefndar Alþingis um umhverfisþátt málsins, sérstaklega til að leita leiða til þess að koma til móts við þau sjónarmið sem komu fram í fjölda umsagna um málið, m.a. um hættu á óafturkræfum vistfræðilegum breytingum og hættu á að staðbundnir stofnar glati líffræðilegri fjölbreytni. Álit umhverfisnefndar er birt sem fylgiskjal I með nefndaráliti þessu og þar kemur fram að nefndin tekur undir það að nauðsynlegt sé að fara varlega í að heimila innflutninginn. Leggur hún einkum áherslu á að líffræðilegur fjölbreytileiki í íslenskum laxfiskum sé verndaður. Þá tekur nefndin einnig fram að í þeim gögnum sem borist hafa komi fram upplýsingar um að ráðherra umhverfismála í framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hafi einnig lagt á það ríka áherslu að líffræðileg fjölbreytni sé varðveitt. Því sé mikilvægt að fyllstu varúðar sé gætt þegar tegundir eru fluttar á milli svæða til að draga úr hættunni á að tegundir með mismunandi erfðaeiginleika blandist hver annarri.

Ég vil geta þess að ekki er getið um erindi frá Náttúruverndarsamtökum Íslands í texta nefndarálitsins, en það verður leiðrétt á milli umræðna.

Ef við lítum á erfðafræðina þá kemur fram í fskj. II frá Sigurði Guðjónssyni í Veiðimálastofnun, með leyfi forseta:

,,Íslenskir ferskvatnsfiskar hafa þróast hér í einangrun frá síðustu ísöld. Í 10 árþúsundir hafa stofnar þessara tegunda aðlagast í sínu umhverfi. Rannsóknir hafa sýnt að stofnar laxfiska (lax, urriði, bleikja) hafa myndast og þróast í hverju vatnakerfi. Í stærri vatnakerfum geta verið margir slíkir stofnar. Þessi stofnar eru ólíkir að arfgerð öðrum slíkum stofnum og skyldleiki þeirra dvínar með vaxandi fjarlægð. Þannig eru erlendir laxastofnar ólíkir íslenskum laxastofnum að erfðum. Okkar fáu tegundir nýta búsvæði sem ella væru nýtt af öðrum tegundum og mynda enn fleiri stofna en þar sem margar tegundir eru. Þannig verða til margir stofnar í sama vatni og er þekktasta dæmið margar stofngerðir bleikju í Þingvallavatni. Fleiri dæmi eru til staðar en ekki öll jafnsýnileg. Þannig eru margir erfðafræðilega ólíkir laxastofnar í stærri vatnakerfum.

Rannsóknir sýna að erlendir stofnar fiska eru ólíkir íslenskum fiskstofnum í arfgerð. Innflutningur slíkra framandi stofna, sem síðan geta sloppið eða beinlínis verið sleppt á skilgreint eldissvæði, blandast þeim innlendu stofnum sem fyrir eru. Um þetta eru til mörg dæmi. Verður þar með erfðablöndun og geta erfðaeiginleikar innlendra stofna glatast og þar með stofnar, sem eru aðlagaðir aðstæðum í umhverfi sínu, í gegnum mörg þúsund ára náttúruval. Við þetta tapast líffræðilegur fjölbreytileiki og ef til vill mikilvægir nytjastofnar. Þarna eru gríðarlegir fjárhagslegir hagsmunir í húfi auk ómetanlegs skaða á íslenskri náttúru. Einnig eru í húfi erfðalindir framtíðarinnar fyrir fiskeldi ef fjölbreytileikanum er eytt. Nýlegar rannsóknir í Bretlandi (Oxford) sýna að eldislax á mun auðveldara með að hrygna í náttúrunni og blandast náttúrulegum laxi en haldið var áður. Þar með hefur hættan af eldislaxi sem sleppur úr eldi og leitar í ár verið stórlega vanmetin. Ný rannsókn háskólanema í Færeyjum sýnir einnig að mun meira sleppur af eldislaxi en áður hefur verið talið. Þá er nýbirt ritrýnd vísindagrein margra ára rannsókna á Írlandi sem sýna að erfðablöndun dregur úr hæfni lax til að lifa í umhverfi sínu og getur leitt til útdauða stofnsins. Niðurstöður þessara nýju rannsókna benda til að hættur fyrir náttúrulega stofna samfara laxeldi (fiskeldi) sé mun meiri en áður var talið.``

[10:45]

Eins kemur fram hjá Sigurði Guðjónssyni varðandi sjúkdómavarnirnar, með leyfi forseta:

,,Sjúkdómar lagardýra eru sumir staðbundnir sem og sníkjudýr. Í náttúrunni hafa dýr aðlagast sýklum og sníkjudýrum svæðisins að einhverju leyti. Flutningur dýra býður þeirri hættu heim að framandi sýklar berist í nýtt umhverfi þar sem ekkert mótefni er til hjá dýrastofnum svæðisins. Þekking manna á sýklum og sníkjudýrum lagardýra sem og faraldsfræði þeirra eru takmörkuð. Þessir sýklar og sníkjudýr geta magnast í eldi þar sem mikill lífmassi er á litlu svæði. Meðhöndlun sjúkdóma og mótefnaframleiðslu gegn ákveðnum sjúkdómum hefur hins vegar tekið framförum. Sú þekking nægir hins vegar engan veginn til að tryggja að ekki verði stórslys við flutning lagardýra þannig að smitberar berist í eða á dýrum eða í eldisvökva þeirra. Umrædd tilskipun EB 91/67 leitast við að taka á þeirri hættu en benda verður á að sjúkdómaeftirlit er erfitt viðfangs og er bæði þekking og greiningaraðferðir dýrasjúkdóma ekki á því stigi að öruggt megi telja að ekki leynist sjúkdómar í eldisdýrum eða í eldisvökva. Sama gildir um sníkjudýr. Mörg dæmi væri hægt að nefna um sjúkdóma, t.d. með fiskum, sem borist hafa milli landa í dýrum sem höfðu vottorð um heilbrigði. Þarna er því einnig mikil áhætta tekin bæði fyrir íslenskt fiskeldi og náttúrulega stofna.``

Eins og áður er getið varðar frv. sjúkdómavarnir á Evrópska efnahagssvæðinu en samningurinn sjálfur er viðskiptalegs eðlis og tekur ekki til auðlindastjórnunar og náttúruverndar. Umrædd tilskipun varðar frjálst flæði vöru milli landa á Evrópska efnahagssvæðinu og er ætlað skv. 1. gr. að taka á heilbrigði eldisdýra í sambandi við markaðssetningu fiskeldisdýra og -afurða. Þó er tekið fram í 2. mgr. sömu greinar að tilskipunin gildi með fyrirvara um ákvæði bandalagsins eða innlend ákvæði um verndun tegunda. Hagsmunirnir sem í húfi eru og snúast um verndun tegunda, staðbundinna stofna og líffræðilegrar fjölbreytni eru sameiginlegir hagsmunir allra ríkja og eru alþjóðasamningar til marks um það, svo sem Ríó-samningurinn um líffræðilega fjölbreytni og Bernarsamningurinn um verndun villtra plantna, dýra og lífsvæða í Evrópu.

Þá ber enn fremur að gæta að 13. gr. EES-samningsins sem tekur til viðskiptahindrana á sviði frjálsra vöruflutninga og heimilar að leggja megi bönn eða höft á innflutning, útflutning eða umflutning vara sem m.a. réttlætast af vernd lífs og heilsu manna eða dýra, gróðurvernd eða vernd þjóðarverðmæta. Enn fremur er tekið fram að slík bönn eða höft megi ekki leiða til gerræðislegrar mismununar eða til þess að duldar hömlur séu lagðar á viðskipti milli samningsaðila.

Á fundum nefndarinnar og í fjölmörgum umsögnum um frumvarpið hafa hagsmunaaðilar varað mjög eindregið við því að heimila innflutning á eldisdýrum, sérstaklega laxfiski, þar sem sjúkdómaeftirlit sé mjög erfitt viðfangs og þekking á sjúkdómum ekki slík að öruggt megi telja að ekki leynist sjúkdómar eða sníkjudýr í eldisdýrum og vökva sem þau eru flutt í. Þá hefur verið bent á að eldisdýrin geta sloppið og blandast staðbundnum stofnum og að framandi lífverur geti einnig sett einangruð og staðbundin vistkerfi í uppnám. Þá verður erfðablöndun þannig að erfðaeiginleikar staðbundinna stofna geta glatast og við það glatast stofnar sem aðlagast hafa aðstæðum í umhverfi sínu við náttúruval í mörg hundruð ár. Þar með tapast líffræðilegur fjölbreytileiki og ef til vill mikilvæg þjóðarverðmæti.

Bent hefur verið á að hér á landi eru einungis sex tegundir ferskvatnsfiska en í Noregi eru þær t.d. 42 og enn fleiri á meginlandi Evrópu. Sama gildir um aðrar tegundir lagardýra, svo sem skordýr, krabbadýr og lindýr. Vegna þessa er lífríki Íslands viðkvæmt fyrir breytingum og getur innflutningur nýrra lífvera verið mjög varasamur. Þetta á við um fisktegundir, krabbadýr eða lindýr sem geta sloppið úr eldi eða verið sleppt út í íslenska náttúru og hugsanlega valdið ómetanlegum og óafturkræfum vistfræðilegum breytingum og skaða. Gríðarlegir fjárhagslegir hagsmunir eru í húfi og hætta á ómetanlegum skaða í íslenskri náttúru. Einnig geta verið í húfi erfðaauðlindir framtíðarinnar fyrir fiskeldi ef líffræðilegi fjölbreytileikinn glatast.

Í umsögn erfðanefndar kemur þetta mjög skýrt fram og hefur meiri hluti landbn. tekið tillit til þeirrar umsagnar. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Minnt er á nýlegar breytingar á 16. gr. búnaðarlaga, nr. 70/1998, um erfðanefnd landbúnaðarins þar sem henni er ætlað að fjalla um hvernig tryggja megi varðveislu og sjálfbæra nýtingu erfðaauðlinda í íslenskum landbúnaði. Íslenskur landbúnaður byggist að stórum hluta á innfluttu erfðaefni, sem hefur aðlagast hér á löngum tíma, og felast í því mikil verðmæti. Innflutningur á nýju erfðaefni getur því ekki einungis valdið tjóni fyrir hina villtu náttúru landsins heldur geta þau verðmæti, sem felast í erfðabreytileika lífvera sem hér eru fyrir og sú fjölbreytni í ásýnd og sérstökum eiginleikum sem erfðaeiginleikarnir skapa, verið í hættu.

Til þess að gæta hagsmuna landbúnaðarins í þessu sambandi leggur erfðanefnd landbúnaðarins áherslu á að sett sé inn ákvæði í lög um innflutning dýra, nr. 54/1990, þar sem leita skuli umsagnar erfðanefndarinnar áður en leyfi sé veitt fyrir innflutningi nýrra dýrategunda eða stofna tegunda sem hér eru fyrir og falla undir starfssvið nefndarinnar. Þar sem ferskvatnsfiskar falla undir starfssvið erfðanefndar landbúnaðarins er mikilvægt að þessi breyting verði tekin upp í frumvarpið.``

Þetta hefur meiri hluti landbn. gert og er ein af breytingartillögunum sem hér liggja fyrir.

Til grundvallar ákvörðun ráðherra þarf að liggja vísindalegt álit Veiðimálastofnunar um nauðsyn aðgerða til verndar lífi og heilsu manna eða dýra og rök fyrir því að markmiðinu verði einungis náð með takmörkun eða banni við innflutningi, þ.e. að ekki sé hægt að koma í veg fyrir yfirvofandi hættu með vægari aðgerðum og að þær feli ekki í sér gerræðislega mismunun og dulin höft á viðskiptum milli aðildarríkja EES-samningsins. Fyrir takmörkun eða banni þurfa að liggja vísindaleg rök, eins og áður hefur verið getið.

Meiri hluti mælir með samþykkt frumvarpsins með breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali og eru eftirfarandi. Allar þessar brtt. hafa verið gerðar í fullu samráði bæði við landbrn. og utanrrn. vegna þess að við erum hér með að innleiða tilskipun frá Evrópusambandinu þannig að þetta er EES-mál.

Breytingarnar eru eftirfarandi:

1. Meiri hlutinn leggur til að 62. gr. laga um lax- og silungsveiði verði breytt þannig að varðandi skilyrði til rekstrarleyfis fiskeldis og hafbeitar og umsagnarferil þurfi veiðimálastjóri ekki eingöngu að leita umsagnar Veiðimálastofnunar um hvort náttúrulegar aðstæður á fyrirhuguðu starfssvæði fiskeldis- og hafbeitarstöðvar gefi tilefni til hættu á erfðablöndun og/eða neikvæðum vistfræðilegum áhrifum heldur þurfi einnig að líta til þess hvort fyrirhugaðar eldistegundir eða eldisaðferðir gefi tilefni til þessarar hættu.

2. Meiri hlutinn telur þarflaust að nefna dæmi um einstök flutningstæki í frumvarpinu og leggur til að orðalagi 2. gr. verði breytt.

3. Meiri hlutinn leggur til að skilgreining frumvarpsins á eldisdýrum verði tekin upp í lög um innflutning dýra eins og í lögin um lax- og silungsveiði.

4. Meiri hlutinn telur það til einföldunar að sama regla gildi um innflutning lifandi laxfiska og annarra fiska er lifa í ósöltu vatni, óháð þroskastigi, þar með talinna hrogna og svilja, og um innflutning annarra eldisdýra. Þá þykir meiri hlutanum rétt að taka fram til skýringar í greininni að um notkun slíkra innfluttra fiska til fiskeldis, fiskræktar eða hafbeitar gildi ákvæði IV. kafla laganna, um veiðistjórn lax- og göngusilungs og fiskrækt, og ákvæði IX. kafla um fiskeldi og hafbeit, þar sem m.a. er fjallað um skilyrði fyrir útgáfu rekstrarleyfis o.fl. en ákvæði annarra kafla laganna gilda engu að síður um innflutninginn.

5. Þá leggur meiri hlutinn til að sett verði sérstakt öryggisákvæði þar sem landbúnaðarráðherra er heimilað að takmarka eða banna innflutning á laxfiskum til að koma í veg fyrir blöndun á staðbundnum stofnum og vistfræðilega og erfðafræðilega hættu, að fengnu vísindalegu áliti Veiðimálastofnunar.

6. Þá telur meiri hlutinn mikilvægt að leitað verði umsagnar erfðanefndar landbúnaðarins áður en veitt er leyfi til innflutnings á nýjum dýrategundum eða erlendum stofnum tegunda sem hér eru fyrir. Erfðanefnd landbúnaðarins hefur það hlutverk, sbr. 16. gr. búnaðarlaga, nr. 70/1998, með síðari breytingum, að annast samráð innan lands um varðveislu erfðaauðlinda í landbúnaði á breiðum grunni og veita hagsmunaaðilum og stjórnvöldum ráðgjöf um nýtingu þeirra. Nefndin fjallar ekki einungis um búfjárstofna og ferskvatnsfiska heldur einnig um húsdýr, nytjajurtir og tré.

7. Loks leggur meiri hlutinn til að fyrirvari um reglugerðir í gildistökuákvæðinu verði felldur brott þar sem reglugerðirnar hafa þegar verið settar og þeim verður breytt til samræmis við frumvarpið verði það að lögum.``

Undir þetta rita Drífa Hjartardóttir, formaður, Magnús Stefánsson, Einar Oddur Kristjánsson, Guðmundur Hallvarðsson og Birkir J. Jónsson.

Herra forseti. Ég hef hér farið yfir þær brtt. og varnaraðgerðir sem við erum að byggja undir þetta frv. Hvað varðar hagsmuni fiskeldisfyrirtækja finnst mér rétt að það komi hérna fram líka og mun fara yfir minnisblað sem liggur hjá hv. landbn. og kemur frá landbrn. í umræðuna sem hefur farið fram í nefndinni.

Þar er getið um það að:

,,Stofnfiskur hefur sérhæft sig í ráðgjöf og framleiðslu á hrognum og seiðum sem byggir á mjög fullkomnum kynbótaverkefnum fyrir fiskeldi. Fiskeldi Eyjafjarðar (Fiskey) hefur sérhæft sig í framleiðslu á lúðuseiðum fyrir áframeldi. Uppbygging þessara fyrirtækja hefur verið hröð, sem og þróun fiskeldis sem atvinnugreinar á Íslandi. Samkvæmt upplýsingum ráðuneytisins er ráðgert að hluthafar ofangreindra fyrirtækja muni á þessu ári leggja a.m.k. 600 millj. kr. í frekari uppbyggingu þeirra. Starfsemin fer að mestu leyti fram á Íslandi og nánast eingöngu utan höfuðborgarsvæðisins. Bæði þessi fyrirtæki eru algjörlega háð erlendum mörkuðum fyrir vörur sínar, en sterk staða þeirra í þeim efnum hefur einnig skilað sér á heimamarkaði. Í raun má fullyrða að þessi tvö fyrirtæki myndi grundvöll fyrir þá miklu uppbyggingu á fiskeldi sem nú á sér stað á Íslandi. Fyrirtækin leggja m.a. til nánast allan efnivið (eldisdýr) í laxeldi, bleikjueldi, lúðueldi og þorskeldi á Íslandi. Saman reka Stofnfiskur og Fiskey fyrirtækið Icecod á Íslandi og gegna því lykilhlutverki í uppbyggingu þorskeldis. Sé rekstrarstoðum kippt undan fyrirtækjum á borð við Stofnfisk eða Fiskey hverfur rekstrargrundvöllur fyrir fiskeldi á Íslandi.

Fiskey hefur náð mjög sterkri stöðu á mörkuðum fyrir lúðuseiði og er í dag stærsti einstaki framleiðandi þeirra á heimsvísu. Áætlanir félagsins fyrir 2002--2004 gera ráð fyrir að sölutekjur verði á bilinu 400--500 millj. kr. Frekari útrás er að verulegu leyti háð aðgengi að mörkuðum í Evrópu, en þar sem Evrópureglur í heilbrigðismálum fiskeldis``, sem við erum að ræða um hér núna, ,,eru notaðar til viðmiðunar um allan heim má fullyrða að sókn á aðra markaði torveldist mjög ef íslensk stjórnvöld uppfylli ekki nauðsynleg skilyrði með innleiðingu tilskipunar 91/67/EBE.

Stofnfiskur hefur náð mjög sterkri stöðu á heimsvísu í framleiðslu á kynbættum laxahrognum fyrir áframeldi auk sölu á ráðgjafarþjónustu í tengslum við kynbótaverkefni félagsins. Í dag er Evrópa mikilvægasti markaður Stofnfisks. Samkvæmt áætlunum fyrirtækisins er gert ráð fyrir að rekstrartekjur fyrir 2003--2007 verði á bilinu 400--700 millj. kr. Um 2/3 hluti tekna fyrirtækisins felast í útflutningi.

Samkæmt upplýsingum frá Hagstofu nam útflutningur seiða og hrogna 261 millj. kr. á árinu 2001 og 245 millj. kr. árið 2002. Fyrstu átta mánuði yfirstandandi árs nam þessi útflutningur um 160 millj. kr.

Samkvæmt upplýsingum sem ráðuneytið hefur aflað frá Stofnfiski nemur það tjón sem hlaust af markaðslokuninni í sumar a.m.k. 50 millj. kr. Í samhengi setningar bráðabirgðalaga verður einnig að horfa til þess að viðskiptasamningar og langtímaáætlanir á grundvelli þeirra lentu í uppnámi vegna lokunarinnar, sem til var komin sökum vanefnda íslenskra stjórnvalda á þjóðréttarlegri skuldbindingu. Áætluð velta Stofnfisks og Fiskeldis Eyjafjarðar á næstu þremur árum er um 700--1.000 millj. kr. á ári.``

Hér mun ég líka fara yfir blað sem kom frá Landssambandi fiskeldisstöðva. Þar kemur fram að:

,,Söluverðmæti afurða árið 2003 er áætlað 2,4 milljarðar. Á næsta ári er reiknað með að söluverðmæti fari yfir 3 milljarða. Árið 2006 er áætlað að söluverðmæti afurða fari yfir 6 milljarða. Til samanburðar var aflaverðmæti allra skipa og báta á Vestfjörðum rúmir 6,4 milljarðar árið 2002.`` Segir hér á þessu blaði.

,,Ársverk í greininni eru nú um 280 og munu aukast mikið á næstu árum. Með rekstri Sæsilfurs í Mjóafirði hafa skapast 30 ný störf. Með aukinni vinnslu í Neskaupstað gætu 50 störf bæst við. Í Berufirði hefur Salar Islandia hafið starfsemi og mun veita 15--18 störf þegar eldið er hafið af krafti. Með slátrun og vinnslu aukast störfin hjá fyrirtækinu um 15--70. Áform Reyðarlax var frestað sl. vor. Áætla að hefja eldi næsta vor (2004).

Í fyrirtækjunum tveimur, Stofnfiski og Fiskeldi Eyjafjarðar, starfa um 60 háskólamenntaðir sérfræðingar og fiskeldismenn. Fyrirtækin tvö skila 700 millj. kr. Aðrir sem þjóna fiskeldi með einhverjum hætti eru: Fóðurfyrirtækin, netagerðir, þjónustubirgjar, t.d. Vaki-DNG, Póls o.fl., sölu- og markaðsfyrirtæki, eftirlitsstofnanir, dýralæknir og aðrar stofnanir eins og t.d. Hólaskóli o.fl.

Áætluð slátrun á næstu árum í laxeldi er fyrir árið 2004 5.600 tonn, árið 2005 10.500 tonn og árið 2006 12.500--14.500 tonn. Þetta er miðað við hraða uppbyggingu hjá Salar Islandia.

Herra forseti. Ég hef gert grein fyrir áliti meiri hluta landbn.