Lax- og silungsveiði o.fl.

Fimmtudaginn 06. nóvember 2003, kl. 12:09:54 (1313)

2003-11-06 12:09:54# 130. lþ. 22.6 fundur 111. mál: #A lax- og silungsveiði o.fl.# (staðfesting bráðabirgðalaga) frv. 116/2003, Frsm. minni hluta LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur, 130. lþ.

[12:09]

Frsm. minni hluta landbn. (Lúðvík Bergvinsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það þarf kannski ekki að koma á óvart þótt hv. þingmaður dragi í fljótu bragði þessar ályktanir af álitsgerð okkar enda kom hún seint fram, bara rétt fyrir fundinn. Ef hv. þm. hefði hins vegar haft ágætan tíma til að lesa það álit sem við hér leggjum fram drögum við það fram með mjög skýrum hætti að þeir hagsmunir sem voru í húfi, þ.e. þessir útflutningshagsmunir sem alfarið var byggt á, rúmar 6 millj., réttlæti ekki setningu bráðabirgðalaga.

Í öðru lagi vísum við til þess hvaða vilji kom fram í nál. og í umræðum við breytingu á stjórnarskránni árið 1991. Af þessum tveimur meginsjónarmiðum drögum við þá ályktun að þetta standist ekki. Við vitnum til annarra þátta en gerum þá ekki að meginsjónarmiðum í niðurstöðu okkar. Ég vænti þess að hv. þingmaður geti gefið sér betra tóm til að lesa það álit sem við hér leggjum fyrir og ég skil vel að hv. þingmanni hafi ekki gefist það þar sem því var ekki dreift fyrr en kl. hálfellefu.