Lax- og silungsveiði o.fl.

Fimmtudaginn 06. nóvember 2003, kl. 12:14:24 (1316)

2003-11-06 12:14:24# 130. lþ. 22.6 fundur 111. mál: #A lax- og silungsveiði o.fl.# (staðfesting bráðabirgðalaga) frv. 116/2003, SAÞ
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur, 130. lþ.

[12:14]

Sigríður A. Þórðardóttir:

Herra forseti. Við umfjöllun þessa máls óskaði landbn. eftir áliti umhvn. á þeim þáttum sem snúa sérstaklega að umhverfissjónarmiðum. Ég ætla að gera grein fyrir áliti umhvn. sem er fskj. með áliti meiri hluta landbn.

,,Það mál sem við erum að ræða hér var einnig lagt fram á 128. löggjafarþingi en var ekki afgreitt þá. Með frumvarpinu voru lagðar til breytingar á lögum um að lögfesta ákvæði tilskipunar um skilyrði á sviði heilbrigðis eldisdýra og 1. júlí sl. voru samþykkt bráðabirgðalög þar sem ákvæði frumvarpsins voru lögtekin og frumvarpið nú lagt fram til að staðfesta bráðabirgðalögin. Það er um að ræða breytingar á lögum um innflutning dýra, um lax- og silungsveiði, um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim. Með bráðabirgðalögunum var gerð breyting á framangreindum lögum þannig að innflutningsbanni á eldisdýrum og lifandi laxfiski og öðrum fiski er lifir í fersku vatni var aflétt en innflutningur þeirra skyldi háður reglum sem landbúnaðarráðherra setur. Að auki var bætt við ákvæði sem heimilar takmarkanir á inn- og útflutningi ef sjúkdómahætta er fyrir hendi.

Frumvarp þetta er einkum samið með tilliti til viðskiptahagsmuna Íslands og þeirra þjóðréttarlegu skuldbindinga sem tengjast þeim sem og sjúkdómavörnum. Við umfjöllun málsins, bæði á 128. löggjafarþingi og yfirstandandi þingi, hafa hins vegar margir aðilar látið í ljósi áhyggjur af áhrifum þess að innflutningsbanni á fiski, einkum laxi, sé aflétt. Auk þess sem bent hefur verið á að sjúkdómar geti borist með viðkomandi innfluttri tegund og herjað í framhaldinu á innlendar tegundir hefur verið bent á fleiri áhættuþætti. Fagstofnanir hafa bent á hættuna á því að framandi eldisdýr geti sloppið inn á skilgreint eldissvæði og blandast þeim innlendu stofnum sem þar eru fyrir. Það hafi í för með sér erfðablöndun og erfðaeiginleikar innlendra stofna geti af þessum sökum glatast og þar með stofnar sem eru aðlagaðir aðstæðum í umhverfi sínu í gegnum náttúruval. Við þetta geti líffræðilegur fjölbreytileiki tapast og ef til vill mikilvægir nytjastofnar. Sömu aðilar hafa einnig bent á hættuna á því að framandi lífverur geti raskað því lífkerfi sem fyrir er. Nefndin tekur undir það að nauðsynlegt sé að fara varlega í að heimila innflutninginn. Leggur hún einkum áherslu á að líffræðilegur fjölbreytileiki í íslenskum laxfiskum sé verndaður. Þá vill nefndin taka fram að í þeim gögnum sem nefndunum hafa borist koma fram upplýsingar um að ráðherra umhverfismála í framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur einnig lagt á það ríka áherslu að líffræðileg fjölbreytni sé varðveitt. Því sé mikilvægt að fyllstu varúðar sé gætt þegar tegundir eru fluttar á milli svæða til að draga úr hættunni á að tegundir með mismunandi erfðaeiginleika blandist hver annarri.

Í nefndarstarfinu í umhvn. var rætt um þýðingu ákvæðis 13. gr. EES-samningsins fyrir innflutningsbannið og hvort hægt væri að lögfesta ákvæði um vernd íslenskra laxfiska á grundvelli 2. mgr. 1. gr. umræddrar tilskipunar en þar segir að hún hafi ekki áhrif á reglur um verndun tegunda samkvæmt landslögum eða EB-rétti. Að mati nefndarinnar heimila framangreind ákvæði að sérstök verndarákvæði séu í löggjöf einstakra landa. Jafnframt má minna á að Ísland er aðili að Ríó-samningnum um líffræðilega fjölbreytni og Bernarsamningnum um verndun villtra plantna og dýra og lífsvæða í Evrópu og er skuldbundið til að hlíta ákvæðum þeirra. Ýmis ákvæði eru í gildandi lögum um lax- og silungsveiði, lögum um innflutning dýra og náttúruverndarlögum sem eru til þess fallin að vernda staðbundna laxfiska hér á landi. Telur nefndin ástæðu til að árétta þau enn frekar.

Fyrir liggur að Ísland hefur skuldbundið sig til að innleiða tilskipun 91/67/EBE í íslenska löggjöf. Var það gert með bráðabirgðalögunum sem frumvarpi þessu er ætlað að staðfesta. Vegna þjóðréttarlegra skuldbindinga Íslands lítur nefndin svo á að ekki verði komist hjá því að innleiða tilskipunina hér á landi. Vegna þeirra hagsmuna sem eru í húfi telur hún þó að þörf sé á skýrara ákvæði um verndun innlendra laxfiska. Nefndin leggur því til að landbúnaðarnefnd bæti við ákvæði í frumvarpið sem tryggi enn betur þá vernd.``

Það var í raun og veru mjög góð samstaða í umhvn. við vinnu þessa álits og nefndin var einróma í áliti sínu. Ég verð að segja, hæstv. forseti, að landbn., undir forustu hv. þm. Drífu Hjartardóttur, hefur farið mjög vandlega yfir alla þætti þessa máls og lagt í það mjög mikla vinnu þrátt fyrir það að tíminn sé naumur. Ég tel að brtt. þær sem meiri hlutinn leggur til að gerðar verði á frv. komi fyllilega til móts við þá gagnrýni sem fram hefur komið við umfjöllun málsins og þar hafi verið komið til móts við óskir um að tryggja enn betur innlenda laxastofna og vernd þeirra.

Að lokum vil ég þakka formanni landbn. og nefndinni allri fyrir mjög vönduð vinnubrögð í þessu vandasama máli.