Lax- og silungsveiði o.fl.

Fimmtudaginn 06. nóvember 2003, kl. 12:21:13 (1317)

2003-11-06 12:21:13# 130. lþ. 22.6 fundur 111. mál: #A lax- og silungsveiði o.fl.# (staðfesting bráðabirgðalaga) frv. 116/2003, ÁSJ
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur, 130. lþ.

[12:21]

Árni Steinar Jóhannsson:

Virðulegi forseti. Ég sit í landbn. og er á nál. minni hluta landbn. eins og fram hefur komið. Hv. þm. Lúðvík Bergvinsson hefur farið yfir nál. minni hluta landbn. og sé ég ekki ástæðu til að eyða löngum tíma í að endurtaka það.

Ég vil almennt segja um þetta mál að brtt. meiri hluta landbn. eru allar til bóta að mínu mati og ég tel að við hjá Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði munum styðja þær brtt. við frv. Hins vegar getum við ekki stutt frv. sem slíkt fyrir margra hluta sakir.

Í fyrsta lagi er aðdragandi málsins, að okkar mati, mínu mati, mjög gagnrýniverður. Það hefur margkomið fram að það að setja bráðabirgðalög fyrir svo litla hagsmuni sem raun ber vitni er ekki réttlætanlegt. Það hefur komið fram hér í umræðunni að samkvæmt hagskýrslum erum við að tala um útflutningshagsmuni sem eru að öllum líkindum rétt rúmlega 6 millj. kr. Að setja svo stórt mál í hendur embættismanna í ráðuneytum að útbúa frumvarp til bráðabirgðalaga er allsendis óhæft. Þetta er það stórt mál að um það þarf miklu breiðari og víðari umfjöllun.

Við erum að tala um gríðarlega mikla hagsmuni í efnahagsmálum okkar, svo maður sleppi nú umræðunni um hin raunverulegu umhverfismál. Hagsmunaaðilar sem byggja lífsviðurværi sitt á laxfiskum telja að veltan í greininni í okkar landi sé um 3 milljarðar kr. á ári. Það er leiga á veiðirétti í laxveiðiám landsins og þjónusta við þá ferðamenn sem koma gagngert til þess að veiða hér lax. Hér er því ekki verið að ræða um neitt smámál í efnhagslegu tilliti, hvað þá út frá náttúruverndarsjónarmiðum, sem við getum öll verið sammála um.

Þetta er svo stórt mál að það má segja að stórir landshlutar og heilu sveitirnar byggi grundvöll sinn á því að laxastofnar séu hreinir og að þá megi veiða á þann hátt sem við höfum gert áratugum og öldum saman, þannig að við erum að tala um stórt og mikið mál. Þess vegna er að okkar mati, eða mínu mati, forkastanlegt að beita slíkum aðgerðum sem bráðabirgðalög af því tagi sem hér um ræðir eru.

Við höfum komið með þá hugmynd í umræðuna --- og það kom fram í landbn. --- að hægt væri setja það inn í lagaramma okkar að laxeldi yrði einvörðungu leyft á landi. Ég léði máls á því að það mætti fara þá leið og að það yrði sett inn í lagasetningu okkar að það yrði einvörðungu leyft að stunda laxeldi á landi. En meiri hlutinn vill ekki fara þá leið.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að hafa langt mál um þetta lagafrumvarp. Ég tel að aðdragandinn hafi allur verið hinn óheppilegasti. Ég bendi á nál. minni hluta landbn., sem ég er í einu og öllu sammála. Ég bendi á það sem fram kom í máli mínu hér áðan að þessi atriði, brtt. meiri hlutans eru allar til bóta og þess vegna munum við styðja þær. En ég hefði viljað sjá miklu strangari ákvæði inni í þessari umgjörð allri vegna hagsmuna okkar. Þá er ég aðallega að tala um hvað laxfiskana varðar, hinn efnahagslega þátt. Hina gríðarlegu hagsmuni frá sjónarhóli landeigenda, bændanna og sveitanna. Heilu héruðin grundvallast í raun á þessari auðlindanýtingu. Við getum tekið svæði eins og Vopnafjörð, Húnavatnssýslurnar og Borgarfjörð. Þar byggist undirstaða tekjuöflunar bænda í raun og veru á þessari auðlind, þannig að hér er verið að setja mikið á spil.

Orri Vigfússon hafði samband við mig í gær, staddur á fundi í Dublin, og greindi frá því að írska þingið hefði verið að samþykkja áætlun um að gera heildarúttekt á stöðu eldismála þar í landi vegna eyðileggingar á lífríkinu. Þjóðirnar í kringum okkur, að mér er sagt, eru að gera nákvæmlega það sama vegna þess að uppi eru gríðarlega miklar áhyggjur og menn standa frammi fyrir eyðileggingu sem þeir sáu ekki fyrir. Það er verið að nota hundruð millj. kr. og milljarða kr. í að kortleggja þessa eyðileggingu í löndunum í kringum okkur, um allt norðanvert Atlantshafið.

Það er svo merkilegt með okkur Íslendinga að það er eins og við þurfum ævinlega, ekki bara í þessu máli heldur í svo mörgum öðrum, að gera sömu mistök og aðrir hafa gert kannski fyrir 10, 15, 20 árum. Það er mjög algengt í þessu landi. Við vöðum áfram. Umsóknir um eldispláss, menn eru svo óþolinmóðir að það má ekki skoða neitt. Það má ekki velta fyrir sér neinni heildarmynd í þessu sambandi. Og að hlaupa upp til handa og fóta, eins og gert var í sumar, með rökstuðningi um gríðarlega þjóðhagslega hagsmuni upp á 6 millj. kr. Hver er tilbúinn að kaupa svona vinnubrögð? 6 millj. kr., sem verður að teljast mjög lítilvægt til bráðabirgðalagasetningar. (Gripið fram í.)

Hvers vegna er ekki dregin upp heildarmynd og menn setja niður fyrir sér, ef það er á hinn bóginn rétt að í efnahagslegu tilliti séum við árlega með umsetningu upp á kannski 3 milljarða kr.? Þannig standa þessi mál. Og fullyrðingar um að það sé hægt að halda þessum fiski inni í kvíunum eru rangar. Það koma tölur alls staðar að, bara núna á dögunum, ég held að það hafi verið í fyrradag sem tugþúsundir laxa sluppu í Færeyjum, þannig að þetta heldur hvergi. Þannig standa þessi mál. Síðan segja menn að þetta skipti engu máli. Þeir sem eru í greininni segja mér núna að hér á landi, bara eftir síðasta slys, sé lax að koma inn á hreiðrin, þ.e. eldislaxar, uppi í ánum, þó að þetta hafi e.t.v. verið tiltölulega lítið slys miðað við það sem gerist.

Að fara fram með þessum hætti og skoða ekki hlutina heildstætt og gefa sér tíma, það er ekki hægt að skrifa upp á það, alls ekki. Þessi flumbrugangur byggist á kröfunni um afmarkaðan þátt. Hv. landbn. og umhvn. hafa ekki tekið málið heildstætt fyrir, þ.e. lífríkið á breiðum grunni. Það er ekki gert. Þetta er gert út frá hagsmunum, út frá því að 6 millj. kr. útflutningur var að komast í strand. Það á ekki að vinna svona á hinu háa Alþingi og í nefndum þingsins. Við eigum ekki að vera á handahlaupum undan vandræðum einhvers afmarkaðs hóps, í þessu tilfelli 6 millj. kr. útflutnings. Það er algjörlega óásættanlegt og þarf að fara ofan í þetta með allt öðrum hætti.

Virðulegi forseti. Hv. þm. Lúðvík Bergvinsson gerði mjög vel grein fyrir áliti minni hluta nefndarinnar og ég ætla ekkert að fara ofan í það frekar en vil árétta að brtt. meiri hlutans eru til bóta en vinnubrögðin við málið allt eru forkastanleg. Við þurfum miklu meiri tíma, miklu meiri yfirferð og betri kortlagningu til að afgreiða mál af því tagi sem hér um ræðir.