Lax- og silungsveiði o.fl.

Fimmtudaginn 06. nóvember 2003, kl. 12:32:42 (1318)

2003-11-06 12:32:42# 130. lþ. 22.6 fundur 111. mál: #A lax- og silungsveiði o.fl.# (staðfesting bráðabirgðalaga) frv. 116/2003, Frsm. meiri hluta DrH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur, 130. lþ.

[12:32]

Frsm. meiri hluta landbn. (Drífa Hjartardóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er ekki sanngjarnt að nefna 6 millj. í þessu sambandi, að lögin hafi snúist um það, vegna þess að markaðirnir lokuðust. Í minnisblaðinu sem ég vitnaði í áðan kemur það fram að hjá Stofnfiski varð það tjón sem varð vegna markaðslokunarinnar í sumar a.m.k. 50 millj. kr. (LB: Rökstyddu það, þú getur ekki bara slett einhverju fram.) --- Hv. þm. Lúðvík Bergvinsson, ég er í andsvari við hv. þm. Árna Steinar Jóhannsson en ekki við aðra. --- Það kemur fram í minnisblaðinu að það er ekki sanngjarnt að leggja þetta út frá því að það séu aðeins 6 millj. vegna þess að allar útflutningsleiðir lokuðust.

Ég er alveg sammála hv. þm. Árna Steinari Jóhannssyni með að við verðum að halda laxastofnunum okkar hreinum og ég held að við séum að vinna að því í þessu frv. (LB: Ertu búin ...?) með því að koma með þessar brtt. Ég er því vel kunnug hversu miklir hagsmunir eru í húfi fyrir sveitir landsins að árnar okkar séu hreinar því að veiðihlunnindi skipta miklu máli, það eru miklar tekjur sem koma inn í sveitirnar af veiðihlunnindum. (LB: Af hverju ertu þá að setja ...?) --- Hæstv. forseti, er ekki hægt að þagga niður í þessum ólátabelg hérna í salnum? --- Ég held að það séu allir sammála um það og það kom fram í viðtölum hjá hv. landbn. að allir eru sammála því að við eigum að vernda laxastofnana okkar og þar voru fiskeldismennirnir líka hjartanlega sammála öðrum. Það fer ekkert á milli mála. Það eru allir sem vilja halda í hreinleika laxastofnsins.