Lax- og silungsveiði o.fl.

Fimmtudaginn 06. nóvember 2003, kl. 12:37:19 (1321)

2003-11-06 12:37:19# 130. lþ. 22.6 fundur 111. mál: #A lax- og silungsveiði o.fl.# (staðfesting bráðabirgðalaga) frv. 116/2003, ÁSJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur, 130. lþ.

[12:37]

Árni Steinar Jóhannsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég geri mér grein fyrir því að það eru gríðarlegir hagsmunir í húfi á báða bóga og þess vegna er málið svo vandmeðfarið. Þess vegna áttum við að leggja í það miklu meiri vinnu en var gert og taka hlutina í víðara samhengi.

Ég benti á lausnir sem ég hefði getað sætt mig við, eins og t.d. landeldi sem við gátum vel sett inn í lagatexta okkar hvað varðar laxfiskana o.s.frv. Það er enginn að tala um að girða fyrir möguleika á útflutningi á eldisfiski, alls ekki. Það er bara spurningin um hvernig að þessu öllu er staðið. Það er númer eitt, tvö og þrjú í þessu máli öllu. Það er það sem menn eru að fjalla um í nágrannalöndunum, hvers konar umgjörð eigi að vera um þennan atvinnurekstur. Það er ekki spurningin um að ætla ekki að nýta sér þá möguleika sem þar eru fyrir hendi. Það á heldur ekki að fara fram með þeim hætti að menn nýti sér möguleika sem gefa örfá missiri eða örfá ár en tapi síðan af langtímahagsmunum og gróða. Um þetta snýst umræðan, virðulegi forseti.