Lax- og silungsveiði o.fl.

Fimmtudaginn 06. nóvember 2003, kl. 12:48:14 (1323)

2003-11-06 12:48:14# 130. lþ. 22.6 fundur 111. mál: #A lax- og silungsveiði o.fl.# (staðfesting bráðabirgðalaga) frv. 116/2003, KolH
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur, 130. lþ.

[12:48]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Virðulegi forseti. Hér hefur verið farið yfir helstu atriði þessa máls, bæði í nefndarálitum landbn., meiri hluta og minni hluta, og sömuleiðis hefur hv. formaður umhvn. gert grein fyrir umsögn umhvn.

Það hefur komið fram í ræðum þeirra sem á undan hafa talað að hér er um gífurlega hættu að ræða, þ.e. samfara breytingunum sem hér er verið að gera. Bráðabirgðalögin galopna möguleika sem bjóða ákveðinni hættu heim. Hvaða hættu? Hættunni á erfðablöndun íslenskra laxastofna og þeirra fiska af erlendum stofni sem aldir eru í kvíum hér við land.

Þó að við eigum í lögunum um lax- og silungsveiði ákvæði sem eiga að vera varúðarákvæði og þó að hv. landbn. sé að setja enn frekari reglur eða lagagreinar inn í lögin um varúðarnálgun þessara hluta þá er það grundvallaratriði að landbn. ætlar ekki að banna innflutninginn. Meginreglan á eftir sem áður að vera sú sem hæstv. landbrh. leggur til, að innflutningurinn sé heimill. Í því er hættan fólgin.

Ég fullyrði, frú forseti, að það er engin leið að tryggja að lax af erlendum stofni sleppi ekki úr kvíum. Sleppi hann úr kvíum þá fer hann upp í laxveiðiárnar og fari hann í laxveiðiárnar þá ógnar hann íslensku, náttúrulegu vistkerfi. Ekki bara laxastofnunum sjálfum, heldur öllu lífkerfinu í ánum.

Það er alvarlegt til þess að vita, eins og sagt er í nál. sem liggur á borðum þingmanna, að jafnvel lífríki Þingvallavatns og Mývatns getur stafað alvarleg hætta af innflutningi þessara fiska.

Í mínum huga getur eingöngu tvennt komið í veg fyrir þessa gífurlegu hættu sem við erum að stofna lífríki okkar í með þessum bráðabirgðalögum. Í fyrsta lagi að heimila ekki eldi í sjó, í sjókvíum, nema þá að í þeim sé íslenskur stofn, stofn af sama meiði og þeir stofnar sem lifa í ánum okkar. Það er í raun og veru þetta. Á hinn bóginn, til þess að tryggja hagsmuni okkar og náttúru Íslands, þarf að setja eldið upp á land ef við erum með erlendan stofn í eldi. Ef eldið er úti í sjó þarf að hafa fisk af innlendum stofni.

Í mínum huga er kristaltært, eftir allar þær skýrslur sem við höfum lesið, öll þau álit sem farið hefur verið yfir og allar þær umsagnir sem nefndirnar hafa fengið, að þetta eru einu ráðin. Ég fullyrði, virðulegi forseti, að þrátt fyrir góðan vilja meiri hluta landbn. og góðan vilja hæstv. landbrh. um að gera allar hugsanlegar varúðarráðstafanir þá eru þær ekki nægar.

Hvernig ætla þessir sömu þingmenn að koma í veg fyrir að 100 þús. sýktir laxfiskar sem sluppu úr eldi í Færeyjum í síðustu viku syndi upp að landinu hér fyrir austan og fari upp í árnar okkar? Hvernig ætla þeir að koma í veg fyrir að þessi færeyski sýkti lax valdi slysi í okkar ám? Það er ekki hægt. Það er alveg sama hvaða umferðarmerki þessir hv. þm. setja í hafið. Það er alveg sama hvaða reglugerðir hv. þm. setja eða hvaða varúðarreglur þeir þykjast reisa í lögum, það er ekkert sem getur orðið til bjargar íslenska stofninum eða íslensku ánum þegar slysin hafa átt sér stað. Þetta hefur verið sýnt fram á í Noregi, Skotlandi, Írlandi, Færeyjum og alls staðar þar sem eldi af því tagi sem við erum að heimila við Ísland hefur verið reynt.

Það er alveg ljóst, virðulegi forseti, að umsagnir og álit þeirra þingmanna sem hér hafa verið sett fram eru gerð af góðum hug. Menn eru meðvitaðir um hættuna en vopnin sem menn ætla að beita í þessari baráttu eru deig. Einu vopnin sem hægt er að hugsa sér að geti reist einhverjar girðingar eru fólgin í innflutningsbanni eða því sem ég var að tala um, að banna eldi á fiski af erlendum stofni í sjókvíum.

Mig langar til að fara nokkrum orðum um umsögn umhvn. Alþingis. Hv. formaður umhvn., Sigríður Anna Þórðardóttir, fór yfir hana áðan og gerði grein fyrir þeim þáttum sem helst\-ir eru í þessari umsögn. Segja má að nefndin taki undir með þeim umsagnaraðilum sem töldu nauðsynlegt að fara varlega í að heimila innflutninginn. Nefndin leggur einkum áherslu á að líffræðilegur fjölbreytileiki í íslensku laxastofnunum sé verndaður. Sé verndaður --- hvað þýðir það? Hvernig ætlum við að vernda líffræðilegan fjölbreytileika íslenskra laxastofna?

Annað atriði sem umhvn. gerir að umtalsefni í umsögn sinni er að hún telur okkur heimilt samkvæmt 13. gr. EES-samningsins, að ákvæði þeirrar greinar geri mönnum kleift að setja sérstök verndarákvæði í löggjöf Íslands, í löggjöf einstakra landa. Ef þessi grein í EES-samningnum heimilar okkur úrræði í þessum efnum, þ.e. verndarákvæði, þá verðum við að skoða það af alvöru. Hvernig eru þau verndarákvæði?

Í þriðja lagi gerir nefndin talsvert úr því að þörf sé á að skýra ákvæðið um verndun innlendra laxfiska í lögunum og leggur til að landbn. bæti við ákvæði í frv. sem tryggi enn betur þá vernd sem umhvn. vill að sé viðhöfð gagnvart laxfiskunum.

Svo klykkti hv. þm. Sigríður Anna Þórðardóttir út með því að segja að hún teldi breytingarnar sem meiri hluti landbn. hefur lagt til í sérstöku breytingatillöguskjali nægilegar og tryggja þá vernd sem umhvn. Alþingis var sammála um að tryggja yrði með lögum.

Ég verð að segja, virðulegi forseti, að ég er ósammála þessari niðurstöðu hv. þm. Sigríðar Önnu Þórðardóttur, formanns umhvn. Ég tel þau ákvæði sem hv. landbn. hefur sett í breytingartillögur sínar ekki nægja. Ég tel þetta, eins og ég sagði áðan, deig vopn, umferðarmerki sem við getum ekki fylgt eftir. Laxinn getur örugglega ekki fylgt þeim eftir.

Eina ráðið sem ég sé í þessari klemmu er að banna innflutninginn eða banna eldi erlendra laxfiska eða fiska af erlendum stofni í sjókvíum við landið. Það kann að vera að komið sé að því að við þurfum að viðurkenna að kvíaeldi í sjó á fiski af erlendum stofni sé of áhættusamt fyrir íslenska hagsmuni, sameiginlega hagsmuni íslenskrar þjóðar sem eru fólgnir í þeirri dýrmætu perlu sem íslenskir villtir laxastofnar eru.