Lax- og silungsveiði o.fl.

Fimmtudaginn 06. nóvember 2003, kl. 13:30:22 (1324)

2003-11-06 13:30:22# 130. lþ. 22.6 fundur 111. mál: #A lax- og silungsveiði o.fl.# (staðfesting bráðabirgðalaga) frv. 116/2003, EOK
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur, 130. lþ.

[13:30]

Einar Oddur Kristjánsson:

Herra forseti. Það mál sem hér er til umræðu, þ.e. staðfesting á bráðabirgðalögunum um lax- og silungsveiði, hefur verið landbn. mjög erfitt. Rétt er að við þessar umræður komi fram að sjónarmið landbn. var að ég best veit alveg þverpólitískt og var það einlægur vilji okkar að ef þess væri nokkur kostur vildum við setja þau lög, fortakslaust bann á innflutningi annarra laxategunda. Við töldum fyrir því svo sterk rök að ekki væri hjá því komist. Það var ekki vegna sjúkdómahættu eins og sumir vilja vera láta, þetta mál snýst fyrst og fremst um hættuna í sambandi við erfðamengi, um erfðir. Það er sú hætta sem þetta snýst allt saman um. Landbn. reyndi það, en því miður fundum við ekki leið til að framkvæma þetta vegna EES-samningsins. Lögfræðingar ríkisstjórnarinnar, stjórnvalda, voru ekki tilbúnir til og treystu sér ekki til að verja það, töldu að allt dírektívið væri fallið úr gildi og það stafaði mjög mikil hætta af því, bæði fyrir landbúnaðinn og ekki síður fyrir sjávarútveginn. Þannig að við treystum okkur ekki til þess.

Einnig er rétt, herra forseti, að segja frá því að þegar okkur var ljóst að fortakslaust bann á innflutningi annarra laxategunda var útilokað þá reyndum við að leita annarra leiða. Við reyndum að finna á því flöt hvort ekki mætti banna sjóeldi annarra laxastofna en því miður tókst okkur það ekki heldur. Lögmenn stjórnvalda töldu að það stæðist ekki heldur EES-samninginn.

Í því ljósi verða menn að skoða þær tillögur sem landbn. leggur fram. Það er tilraun okkar til þess að gera þennan innflutning næstum ómögulegan. Við komumst ekki lengra, því miður. Við hefðum viljað komast lengra en við náðum því ekki.

Ég tel, herra forseti, mjög nauðsynlegt að þetta komi fram í umræðunni, þannig að stjórnsýslunni sé það mjög vel ljóst að það er einlægur vilji Alþingis að gera allt sem í valdi löggjafans er til að koma í veg fyrir að erlendir laxastofnar komi hingað og verði hér í sjóeldi. Það er mjög nauðsynlegt að stjórnsýslunni sé þetta ljóst, þannig að hún geti og átti sig á því að það er sannarlega til þess ætlast að þeim lögum og þeim reglugerðum sem sett verða sé fylgt út í ystu æsar. Ég vona sannarlega, herra forseti, að áður en umræðunum lýkur komi hæstv. landbrh. Ég þykist vita að meiningar hans og skoðanir séu nákvæmlega þær sömu og ég tel þær treysta þessa umræðu ef frá hans hendi koma einhverjar slíkar og sömu yfirlýsingar.

Ég tel að þetta mál hafi kennt okkur sem höfum farið í gegnum það í landbn. og öllum þeim vísindamönnum sem við höfum rætt við ber saman um það, að við þurfum alla tíð að vera gríðarlega mikið á varðbergi gagnvart innflutningi á dýrum og við þurfum á hverjum tíma að standa þann vörð og nýta hvert tækifæri til að treysta þær löggjafir sem við höfum til að koma í veg fyrir hann, vegna þess að íslensk náttúra er svo viðkvæm að við verðum að leita allra leiða til að varðveita hana í þeirri mynd sem hún er.