Lax- og silungsveiði o.fl.

Fimmtudaginn 06. nóvember 2003, kl. 13:34:38 (1325)

2003-11-06 13:34:38# 130. lþ. 22.6 fundur 111. mál: #A lax- og silungsveiði o.fl.# (staðfesting bráðabirgðalaga) frv. 116/2003, RG
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur, 130. lþ.

[13:34]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Hæstv. landbrh. hefur setið hér og hlýtt á umræðuna í morgun og ég er ekki undrandi á því og tel það raunar sjálfsagt miðað við stöðu málsins að hann sé hér og hlýði á umræðuna. En það sem kemur mér mjög á óvart er að hæstv. umhvrh. hafi ekki verið viðstödd umræðuna vegna þess að í ljós hefur komið að við erum með svo stórt mál í höndunum og svo þýðingarmikið að tekið sé á því eins og öll tæki og lög gera okkur heimilt og alþjóðasamningar, að ég hefði talið að við hefðum þurft að vera með umhvrh. hér til að fylgjast með, þannig að tryggt væri að því sem ekki næst í þessari atrennu verði fylgt eftir í umhvrn.

(Forseti (JóhS): Óskar hv. þm. eftir því að umræddir ráðherrar verði kallaðir til fundarins?)

Ég ætla ekki að kalla þá til í minni ræðu, en ég ítreka undrun mína á þessu. Ég ætla ekki að bíða með ræðu mína þar til umhvrh. væri umhvrh. væri hugsanlega komin og hlýt að búast við að landbrh. sé í húsinu og hljóti að birtast hér innan tíðar.

Allir sem um málið hafa fjallað í nefndum Alþingis eru sammála um að ekki er hægt að staðfesta bráðabirgðalögin sem voru sett í sumar óbreytt. Allir sem hafa komið að málunum í umhvn. og í landbn. hafa gert sér grein fyrir því við umfjöllun að bráðabirgðalögin, fyrir utan setningu þeirra og það sem maður hefur að segja um hana, eru óásættanleg eins og þau birtust. Þessi staðreynd hlýtur að vera þvílíkur álitshnekkir fyrir ráðherra landbúnaðarmála, a.m.k. man ég vart annað eins. Ég man ekki eftir að ráðherra hafi lent í þeirri stöðu sem hæstv. landbrh. er í núna með þessi bráðabirgðalög --- ég kem síðar að þeim atriðum, að þau skyldu yfirleitt hafa verið sett og síðan hinu að úr því hann fór út í þá vafasömu aðgerð að setja bráðabirgðalög í svona máli, að þingið skuli bregðast við með þeim hætti sem það gerir og draga fram hvernig unnið var að málinu í landbrn.

Fram kom hjá hv. þm. Einari Oddi Kristjánssyni að meiri hlutinn í landbn. hafi ekki treyst sér til að setja ákvæði sem treystu enn fremur vernd villtra laxa. En hann sagði skýrum orðum að það hefði meiri hlutinn kosið, hefði leitað allra leiða til þess að hafa verndina eins mikla og unnt væri. Ég er sammála og trúi því, af því það er mjög sérstakt og einstakt það meirihlutaálit sem hér hefur verið kynnt undir formennsku Drífu Hjartardóttur.

Það hlýtur líka að vera einlægur vilji Alþingis að ef ekki er unnt að vinna brtt. við það mál sem hér er til umfjöllunar, þá verði að flytja frumvarp um lagasetningu á umhverfissviði sem tryggir enn betur þetta mál. Það er skoðun mín.

Þess vegna nefni ég þetta í umræðunni að landbn. óskaði eftir því við umhvn. að hún mundi senda frá sér álit til landbn. á þeim þætti frv. sem snýr sérstaklega að umhverfissjónarmiðum. Þegar það rann upp fyrir okkur í umhvn. við þá yfirferð sem okkur var unnt að gera á tveimur fundum í nefndinni, sem var auðvitað allt of naumur tími ef við ætluðum að fara mjög djúpt ofan í málið, að undirstofnanir umhvrn. sem ættu að ráðleggja öllum ráðherrum ríkisstjórnarinnar þegar álitamál koma upp og varða umhverfissviðið og hefðu auðvitað átt að ráðleggja landbrn. hvaða leiðir væru færar með verndarákvæði undir þessum kringumstæðum og verndarákvæði sem er svo þýðingarmikið að finna og hrinda í framkvæmd, voru ekki spurð. Þau gáfu okkur upplýsingar um hvað þyrfti að koma í lögin til að hægt væri að vernda villta laxa hjá okkur. Þegar svo var komið kölluðum við eftir því við umhvrn. hvort ráðuneytið sjálft hefði komið að undirbúningi frv. Að sjálfsögðu gat það vel verið að umhvrn. hefði með einhverjum hætti komið að undirbúningi frv. þó það væri ótrúlegt miðað við hvernig það leit út í höndunum á okkur sem vorum að vinna við það.

Þann 3. nóvember barst okkur í umhvn. svohljóðandi bréf, með leyfi forseta:

,,Ráðuneytið vísar til fyrirspurnar umhverfisnefndar Alþingis um það hvort ráðuneytið hefði komið að undirbúningi frumvarps til laga um breytingu á lögum, nr. 76/1970, um lax- og silungsveiði. Ráðuneytið hafði ekki aðkomu að málinu, en tilskipun 91/67 EBE, um skilyrði á sviði heilbrigðis eldisdýra og afurða þeirra sem verið er að lögleiða með frumvarpinu, fellur ekki undir umhverfisráðuneytið.``

Það fellur ekki undir umhvrn. Þá vitum við það að ef ráðherra í ríkisstjórn hyggst setja lög sem hugsanlega stangast á við stefnu Íslands í umhverfismálum, þá dugir að vísa til þess að eldisdýr og afurðir þeirra falla ekki undir umhvrn. Og þá spyr maður ekki umhvrn. Og þá leitar maður ekki til þeirra undirstofnana sem gerst þekkja alþjóðasamningana sem við erum aðilar að, Bernarsamningnum, og gerst þekkja lögin um villt dýr sem við höfum sett á Alþingi og tók ein sex ár að setja og minnist ég þess að það voru ráðherrar jafnaðarmanna sem unnu það þrekvirki annars vegar að vinna það að við yrðum aðilar að Bernarsamningnum og hins vegar að lög um villt dýr yrðu sett á Alþingi. Þeir aðilar sem þekktu best þau lagaákvæði og hver þeirra væri unnt að nýta eða samningana sem gæfu okkur heimildir til að vernda og með hvaða hætti væri hægt að setja lög, t.d. lög um villt dýr eða önnur lög, þeir sem helst hefðu getað ráðlagt í þessum málum voru ekki spurðir.

Við hljótum í framhaldi af þessu máli að velta fyrir okkur stöðu umhvrn. í stjórnsýslunni vegna þess að ég býst við að flest okkar sem núna fjöllum um þetta mál höfum reiknað með að með því að setja á laggirnar umhverfisráðuneyti sem er eitt yngsta ráðuneytið á Íslandi værum við að tryggja það að alltaf væri hægt að treysta því að til væru tæki í álitamálum til að kveða upp úr um hvað er hægt að gera vegna slíkra álitamála. En nú blasir við að það ráðuneyti sem mest veit um málið er ekki spurt. Og ráðuneytið sjálft tekur ekki upp málið af því það segir að tilskipunin sem fjallar um þetta, heilbrigði eldisdýra og afurða þeirra, falli ekki undir umhvrn. Þetta hlýtur að vera eitthvað sem við í framtíðinni munum verulega skoða og biðja um skýringar á hvers vegna það gerist að þarna myndist hyldýpisgjá í stjórnsýslunni, í ráðuneytinu, á milli tveggja ólíkra ráðuneyta sem ættu að vinna saman.

[13:45]

Umhvn. Alþingis sendi frá sér álit til landbn. Vissulega met ég það sem þar var tekið til greina, þótt við í Samfylkingunni lítum svo á að þarna hefði þurft að ganga lengra og viljum skoða það að ganga lengra. En ég ætla, með leyfi forseta, að lesa kafla úr áliti umhvn.

Hér stendur að það mál sem um ræðir og er núna bráðabirgðalög var einnig lagt fram á 128. löggjafarþingi, sem er þingið sl. vetur, en var ekki afgreitt þá. Það átti að lögfesta ákvæði tilskipunar þeirrar sem ég hef þegar getið um, um skilyrði á sviði heilbrigðis eldisdýra. Þess vegna ákvað hæstv. landbrh. að setja bráðabirgðalög í sumar. Um er að ræða breytingar á lögum nr. 54/1990, um innflutning dýra, nr. 76/1970, um lax- og silungsveiði, og nr. 25/1993, um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim. Með bráðabirgðalögunum var gerð breyting á framangreindum lögum þannig að innflutningsbanni á eldisdýrum og lifandi laxfiski og öðrum fiski er lifir í fersku vatni var aflétt en innflutningur þeirra skyldi háður reglum sem landbúnaðarráðherra setur. Að auki var bætt við ákvæði sem heimilar takmarkanir á inn- og útflutningi ef sjúkdómahætta er fyrir hendi.

Hér var verið að taka á frelsinu og hér var verið að taka á sjúkdómunum. Hér var ekki verið að skoða erfðabreytingar og hættuna á þeim þætti.

Ég vil vekja sérstaklega athygli á því sem hér segir í áliti umhvn. til landbn:

,,Frumvarp þetta er einkum samið með tilliti til viðskiptahagsmuna Íslands og þeirra þjóðréttarlegu skuldbindinga sem tengjast þeim sem og sjúkdómavörnum. Við umfjöllun málsins, bæði á 128. löggjafarþingi og yfirstandandi þingi, hafa hins vegar margir aðilar látið í ljósi áhyggjur af áhrifum þess að innflutningsbanni á fiski, einkum laxi, sé aflétt. Auk þess sem bent hefur verið á að sjúkdómar geti borist með viðkomandi innfluttri tegund og herjað í framhaldinu á innlendar tegundir hefur verið bent á fleiri áhættuþætti.``

Hér er öll umhvn. Alþingis að benda á það að landbrn. hefur leyft sér að líta fyrst og fremst á þetta stóra mál sem viðskipti, viðskiptahagsmuni. Það er verið að bregðast við viðskiptahagsmunum og ég ætla ekki einu sinni að taka mér í munn fjárhæðirnar sem hafa verið settar fram. Fyrst og fremst viðskiptahagsmunir, segja allir flokkar á Alþingi í áliti sínu til landbn.

Enn fremur segir hér:

,,Fagstofnanir hafa bent á hættuna á því að framandi eldisdýr geti sloppið inn á skilgreint eldissvæði og blandast þeim innlendu stofnum sem þar eru fyrir.``

Þetta er stóra málið. Blöndunin sem getur orðið þegar við opnum upp á gátt okkar dyr í þessum efnum og sem ekkert var tekið á í bráðabirgðalögum hæstv. landbrh.

Það er bent á það að þetta geti haft í för með sér:

,,Erfðablöndun og erfðaeiginleikar innlendra stofna geti af þessum sökum glatast og þar með stofnar sem eru aðlagaðir aðstæðum í umhverfi sínu í gegnum náttúruval. Við þetta geti líffræðilegur fjölbreytileiki tapast og ef til vill mikilvægir nytjastofnar.``

Enn kem ég að því að við erum aðilar að samningi um líffræðilega fjölbreytni þannig að Ísland hefur sett slíka vernd algjörlega í öndvegi með því að gerast aðili að alþjóðasamningum sem um þetta fjalla.

Nefndin tekur undir að nauðsynlegt sé að fara varlega í að heimila innflutninginn. Leggur hún einkum áherslu á að líffræðilegur fjölbreytileiki í íslenskum laxfiskum sé verndaður. Þá vill nefndin taka fram að í þeim gögnum sem nefndunum hafa borist koma fram upplýsingar um að ráðherra umhverfismála í framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hafi einnig lagt á það ríka áherslu að líffræðileg fjölbreytni sé varðveitt. Þess vegna er litið til þess að ef líffræðilegri fjölbreytni í einu landi er ógnað gengur vernd í heimalandinu framar tilskipunum Evrópusambandsins.

Það er svo mikilvægt að við horfum á þetta, það segi ég sem stóð að því að EES-samningurinn yrði til hér og Ísland yrði aðili að EES-samningnum og hef oft nefnt það að ég sat yfir honum heilt sumar í hléi Alþingis og kafaði ofan í einstaka hluta hans. Hann er auðvitað fullur af fyrirvörum, fullur af bókunum einstakra landa um hagsmuni sem þau eru að varðveita og eru ekki tilbúin að gefa eftir þó að þau séu aðilar að meginatriðum EES-samningsins.

Svo er komið með bráðabirgðalög hingað og sagt: Skilja ekki þeir sem voru forsvarsmenn þess að ganga í EES og vera aðilar að samningnum að það þurfi að lögleiða tilskipanir? Þannig hefur umræðan í þingsalnum verið um þessi mál.

Nefndin segir líka að það sé mikilvægt að skoða ákvæði 13. gr. EES-samningsins fyrir innflutningsbannið og hvort hægt væri að lögfesta ákvæði um vernd íslenskra laxfiska á grundvelli 2. mgr. 1. gr. umræddrar tilskipunar en þar segir að hún hafi ekki áhrif á reglur um verndun tegunda samkvæmt landslögum eða EB-rétti.

Við erum með ákvæði í EES-samningnum sem segir tilskipunin hafi ekki áhrif á reglur um verndun tegunda samkvæmt landslögum eða EB-rétti og við höfum umsagnir ráðherra umhverfismála í framkvæmdastjórn Evrópusambandsins sem hefur lagt ríka áherslu á líffræðilega fjölbreytni. Svo kemur ráðherrann og segir: Það verður að sjálfsögðu að lögfesta tilskipanir Evrópusambandsins.

Nefndin segir að að mati hennar heimili framangreind ákvæði að sérstök verndarákvæði séu í löggjöf einstakra landa. Þess vegna erum við þeirrar skoðunar að við verðum að setja sterk verndarákvæði í löggjöf á umhverfissviði til að tryggja þessa miklu hagsmuni. Þess vegna segi ég, um leið og ég hrósa formanni landbn. fyrir þá vinnu sem hefur verið unnin og vek athygli á því að þetta álit sem ég er hér að lesa upp úr er þverpólitískt álit allra flokka á þinginu undir stjórn Sigríðar Önnu Þórðardóttur, að ég met það mjög mikils hvernig haldið var á málinu í landbn. þó að við viljum ganga lengra af því að meiri hlutinn taldi sig ekki geta gengið lengra en raun ber vitni.

Virðulegi forseti. Í umræðu um rjúpuna í fyrradag ræddum við um það að umhvrh. ætlaði að banna veiðar á rjúpu í þrjú ár og allmargir þingmenn voru að flytja tillögu um að gripið yrði til einhverra annarra ráða en að banna veiði á rjúpu. Þá spurði hæstv. landbrh. þingheim eitthvað á þá leið hvernig stór hluti þingsins ætlaðist til að umhvrh. verði ekki rjúpuna. Hann fór fögrum orðum um að rjúpan væri auðlind sem við vildum eiga og njóta, og ráðherrann lagði áherslu á að stundarhagsmunir mættu ekki ráða ferð varðandi rjúpuna.

Ég brást auðvitað við og fór hér í ræðustól og sagði að ég hefði setið úti í sal og prófað að setja orðið ,,lax`` í staðinn fyrir ,,rjúpu``. Þá hefði önnur ræða komið í ljós heldur en sú sem við höfum hlustað á hér þegar mælt var fyrir þessum lögum miðað við þau vinnubrögð sem við verðum vitni að og erum nú að reyna að lagfæra með einhverjum hætti til þess að reyna að sópa yfir skömm ráðherrans í málinu.

Ég verð að viðurkenna það að mér finnst að í málflutningnum um rjúpuna, verandi svo núna að fjalla um þetta frv. um laxinn, komi upp háðuleg staða fyrir landbrh., ég ætla ekki að taka dýpra í árinni. Orðin sem ég viðhafði eru nú staðfest í nál., m.a. áliti meiri hluta landbn., en vart hefur ráðherra í annan tíma, eins og hér hefur komið fram, verið sneyptur með viðlíka hætti fyrir verk sín, hvað þá þegar bráðabirgðalög --- með því hvaða yfirbragð er á því að setja þau --- eiga í hlut.

Virðulegi forseti. Það hefur sem betur fer dregið úr setningu bráðabirgðalaga og það er öllum til sóma. Þau lög sem átti að staðfesta en fá útreið hér í þingsal verða væntanlega endalok bráðabirgðalagasetningar. Nú eigum við að sameinast um að lengja starfstíma Alþingis þannig að pressu létti af lagasetningu á vorin svo að ekki verði oftar tilefni til eða hægt að finna sér tilefni til svona vinnubragða og setningar bráðabirgðalaga. Þessi lagasetning á að verða víti til varnaðar og endalok slíkra vinnubragða. Hér eftir ætlumst við til að ef það gerist þá sé það almannaheill eða -vá sem krefst skyndilagasetningar. En í raun og veru ætlumst við til þess að ef almannaheill eða vá krefjist aðgerða þá verði þingið kallað saman. Vegna þess að það er alltaf verið að tala um, og kom mjög vel fram í orðum Lúðvíks Bergvinssonar, talsmanns okkar í þessu máli, að það er fyrir löngu síðan búið að taka ákvörðun um að þingið starfi allt árið. En staðreyndin er sú að þingnefndir koma bara saman á sumrin ef stjórnarandstaðan óskar eftir því í tilefni af einhverjum málum sem koma upp. Stjórnarliðið, ríkisstjórnin, hefur aldrei nýtt sér það, sama á hverju gengur, að kveðja okkur til þings til þess að við komum hér og ræðum málin og setjum þau lög sem hugsanlega þarf að setja.

Virðulegi forseti. Í nál. minni hlutans er dregið mjög vel fram hve illa hefur verið haldið á því í landbrn. að lögleiða tilskipun Evrópusambandsins sem hér er gerð að umtalsefni. Fyrst og fremst hafa viðskiptahagsmunir verið hafðir að leiðarljósi og í engu haft áhrif á náttúrulega stofna hérlendis þrátt fyrir allar ábendingar og mikla fjölmiðlaumræðu um málið í sumar. Eingöngu hafi verið litið til fjárhagslegra hagsmuna eða einhverra annarra hagsmuna tiltekinna fyrirtækja í fiskeldi.

Ég ætla ekkert að fara ofan í það sem segir hér í nál. minni hlutans sem Lúðvík Bergvinsson fór svo vel yfir og kom fram þegar við vorum að gera þessar breytingar og kom á sínum tíma fram í máli Ólafs G. Einarssonar. En mér finnst að það sem stendur hér á bls. 3 --- og ég ætla ekki að lesa --- í nál. minni hlutans dragi mjög vel fram hve illa var haldið á þessum málum. Við hljótum að gera kröfu um það að menn læri af þessum vinnubrögðum og að það verði girt fyrir að svona verði á málum haldið í framtíðinni.

Aðeins í lokin --- og birtist nú hæstv. landbrh. til að hlýða á orð okkar --- á bls. 5 í minnihlutaálitinu:

,,Í minnisblaði Náttúrufræðistofnunar til umhverfisnefndar Alþingis segir að með bráðabirgðalögunum hafi verið heimilaður innflutningur á lifandi fiski, krabbadýrum og lindýrum, sem áður var bannaður, en landbúnaðarráðherra gat veitt undanþágur að fengnum umsögnum frá Umhverfisstofnun og Náttúrufræðistofnun Íslands ásamt meðmælum yfirdýralæknis. Þetta þýðir að á meðan umhverfisráðherra hefur ekki sett reglugerð um innflutning dýra, eins og honum ber að gera samkvæmt lögum, er innflutningur á ,,lifandi fiski, krabbadýrum og lindýrum`` heimill án leyfa og ekki þarf neinar umsagnir eða meðmæli. Bráðabirgðalögin galopna þannig fyrir óheftan innflutning á lífverum sem geta skaðað lífríki í fersku vatni á Íslandi.``

Þegar maður les þessar setningar, og þetta verða mín lokorð, virðulegi forseti, er það með öllu óskiljanlegt að þessir tveir þingmenn Framsfl. sem eiga sæti í ríkisstjórn Íslands í landbúnaðarráðuneytinu annars vegar og í umhverfisráðuneytinu hins vegar, hafi ekki sest niður til að ræða þetta stórmál sem kom upp í sumar, áður en bráðabirgðalög voru sett, og að þeir skuli ekki hafa leitað saman allra leiða til að forðast slys í náttúru Íslands. Ég harma það og verða það mín lokaorð, virðulegi forseti.