Lax- og silungsveiði o.fl.

Fimmtudaginn 06. nóvember 2003, kl. 14:00:23 (1326)

2003-11-06 14:00:23# 130. lþ. 22.6 fundur 111. mál: #A lax- og silungsveiði o.fl.# (staðfesting bráðabirgðalaga) frv. 116/2003, ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur, 130. lþ.

[14:00]

Þuríður Backman:

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að taka undir það sem segir í nál. minni hluta landbn. Ég þakka góða framsögu talsmanns minni hlutans, hv. þm. Lúðvíks Bergvinssonar, sem fór mjög vel og ítarlega yfir hið góða nál. minni hlutans. Eins var ég ánægð með þau atriði sem komu fram í ræðu hv. þm. Árna Steinars Jóhannssonar varðandi málið.

Ég vil einnig þakka landbn. og meiri hluta landbn. fyrir þá vinnu sem hún hefur lagt í þetta mál og fyrir þær breytingar sem meiri hluti landbn. leggur fram í þeirri viðleitni að reyna að bjarga málum. Nefndin taldi í upphafi að í þessari stöðu væri hægt að lagfæra bráðabirgðalögin og breyta þeim þannig að þau mundu halda gagnvart erfðamengun erlendra laxastofna við strendur Íslands.

Málið hlýtur að hafa verið nefndinni mjög erfitt, eins og fram kom í máli hv. þm. Einars Odds Kristjánssonar, hv. 9. þm. Norðvest., sem lýsti því yfir hvað þetta mál hafi verið landbn. erfitt og að í nefndinni hafi verið þverpólitísk samstaða um bann við innflutningi á erlendum laxategundum. Ég tel að þannig sé hugur okkar allra. Það er þverpólitísk samstaða um að vernda íslenska laxastofninn.

Þannig var staðið að málum af hálfu hv. landbrh. og ráðuneytis að afgreiðsla málsins var trössuð og áminningarbréfum frá EES ekki sinnt. Því var heldur ekki sinnt að setja í íslenska löggjöf ákvæði um verndun íslenskra laxastofnsins eða annarra tegunda eins og hér hefur verið bent á. Þetta hefði þurft að gera og í framhaldinu að ganga frá lagasetningu samkvæmt þessari tilskipun Evrópusambandsins án þess að stofna öllu íslenska lífríkinu í voða.

Þessi tilskipun er viðskiptalegs eðlis. Verndun lífríkisins er ofar þessari tilskipun. Þau sjónarmið eru sterkari og auðvitað átti að standa vörð um verndarsjónarmið sem eru okkur mikilvægari en þau viðskiptasjónarmið sem hér er verið að verja. Þá hefðum við getað innleitt tilskipunina án þess að lenda í þeim vandræðum sem við stöndum frammi fyrir í dag. Þrátt fyrir góðan vilja meiri hluta landbn., með þeim brtt. sem hún gerir, eru lögin ekki skotheld. Það er á valdi ráðherra að veita undanþágur. Honum er gert að standa vörð um íslenskar tegundir en svo lengi sem það er ekki bundið í lögum að vernda lífríkið, meðan verndun íslenska laxastofnsins og annarra tegunda er ekki tryggð með upptalningu í lögum eða reglugerð, þá halda þessi ákvæði ekki. Tilvísun til afgreiðslu hæstv. landbrh. getur aldrei verið skotheld.

Þessi trassaskapur við afgreiðslu málsins og það að hafa ekki notað sumarþingið til þess að afgreiða þetta mál finnst mér mjög ámælisvert. Ég tel einnig ámælisvert að beita bráðabirgðalögum vegna hagsmuna sem eru ekki meiri en þessir, þar sem við erum að fórna meiri hagsmunum fyrir minni. Ég vil ekki gera lítið úr mikilvægi þessa atvinnuvegar, þ.e. hrogna- og seiðaeldis, hér á landi. Hann þarf að styrkja enn frekar. Það er mikilvæg atvinnugrein. Ég trúi því að hún geti orðið enn sterkari í framtíðinni ef við stöndum vel að henni. Ég held því samt fram að með bráðabirgðalöggjöfinni höfum við fórnað meiri hagsmunum fyrir minni.

Ég vil í þessu sambandi, frú forseti, láta koma fram að ég tel að þessi tiltölulega unga atvinnugrein, þ.e. eldi á seiðum, gæti orðið miklu sterkari hér á landi ef hún fengi að búa við sömu rekstrarskilyrði og eru í samkeppnislöndunum. Ég legg til, frú forseti, að staða þessara greina verði skoðuð gaumgæfilega og leitað ráða til þess að styrkja þær. Eldið þarf að geta þróast í áframeldi hér við land. Það gengur ekki að byggja eingöngu á útflutningi seiða og hrogna heldur þarf að styrkja atvinnugreinina eða búa henni það umhverfi að hún sé samkeppnishæf, t.d. við sams konar starfsemi í Skotlandi. Vert væri að athuga hvort ekki sé hægt sé að stunda eldið hér áfram. Það hlýtur alltaf að vera meiri virðisauki af áframeldi en útflutningi á seiðum.

Margt væri hægt að segja um þessi bráðabirgðalög. Ég vil t.d. nefna þær breytingartillögur sem gerðar eru við frv. Ég vildi nefna brtt. við 2. gr. og með leyfi forseta ætla ég að lesa 2. gr. eins og hún er í frv.:

,,Við 76. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:

Við inn- og útflutning eldisdýra er heimil notkun erlendra flutningstækja, svo sem brunnbáta, og búnaðar sem tengdur er þeim, enda skal flutningurinn háður skilyrðum reglugerðar sem landbúnaðarráðherra setur.``

Í brtt. er lögð til svohljóðandi breyting:

,,Við 76. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:

Notkun flutningstækja og búnaðar sem tengdur er þeim skal háð skilyrðum reglugerðar sem landbúnaðarráðherra setur.``

Það er alveg ljóst að vilji þingsins verður að koma fram í þessu máli. Ég hef talað gegn því að leyfður verði innflutningur á flutningstækjum og brunnbátum, þar sem hægt er að framleiða þetta hér á landi. Ég tel að við ættum ekki að taka óþarfa áhættu með innflutningi á brunnbátum þar sem það mun auka hættu á sýkingum. Erfitt er að sótthreinsa þessi tæki og ganga svo frá að berist ekki smit á milli.

Eins vil ég benda á 5. brtt. á þskj. 291. Hún er svohljóðandi, með leyfi forseta:

,,Við 4. gr. bætist ný málsgrein, svohljóðandi:

Landbúnaðarráðherra er heimilt, að fengnu vísindalegu áliti Veiðimálastofnunar, að takmarka eða banna innflutning á lifandi laxfiskum, óháð þroskastigi, þar með töldum hrognum og sviljum, ef ljóst má vera að aðrar verndar- og friðunaraðgerðir sem kveðið er á um í lögum og stjórnvaldsfyrirmælum dugi ekki til að koma í veg fyrir erfðablöndun slíkra laxfiska við staðbundna náttúrulega stofna sem ógnað gæti líffræðilegri fjölbreytni og stefnt náttúrulegu stofnunum í hættu.``

Frú forseti. Ég vildi benda á að þessi ákvæði 4. gr. þyrftu ekki að vera hér til staðar ef við hefðum verið búin að vinna heimavinnuna og komið þessu í lög. Verndarákvæði um laxfiska ættu að vera það skýr að það þyrfti ekki að fara þessar leiðir sem hér er verið að leggja til. Ég virði hins vegar meiri hluta landbn. fyrir að reyna að sporna við erfðablöndun með þessum hætti.

Frú forseti. Ég veit ekki hvort ég ætti að hafa mál mitt mikið lengra. Við erum bundin af alþjóðlegum sáttmálum sem við höfum undirgengist, eins og Ríó-sáttmálanum. Við getum styrkt stöðu okkar með því að setja skýrari verndunarákvæði í lagagrunn okkar. Þessi tilskipun sem verið er að lögleiða er fyrst og fremst viðskiptalegs eðlis. Ég vænti þess að fljótlega komi hér fram á þingi frv. sem styrkir okkur hvað varðar verndun líffræðilegrar fjölbreytni, m.a. laxastofna. Ég vænti þess að slíkt frv. komi frá ríkisstjórn og ekki muni þurfa hjálp okkar í stjórnarandstöðunni við að koma með það lagafrumvarp.

En setning bráðabirgðalaganna hefur skapað mjög alvarlegt fordæmi, að það sé metið svo að bráðabirgðalög megi setja til að vernda hagsmuni einstakra fyrirtækja af þeirri stærðargráðu sem hér um ræðir. Þrátt fyrir að það séu góð fyrirtæki og við viljum að þau eflist þá vekur þetta hjá manni ugg um að þannig verði bráðabirgðalög nýtt, til að gæta hagsmuna einstakra fyrirtækja og kalla ekki saman þing þótt það sé starfandi. Tilefni til frekari bráðabirgðalaga gætu verið ærin ef menn vildu fara þessa leið. Fordæmið sem hér er gefið er því mjög alvarlegt að mínu mati.

Ég held að flest hafi komið fram af því sem ég vildi undirstrika í máli þingmanna sem hér hafa talað fyrir nefndarálitinu og eins og þeirra hv. þm. sem lýst hafa yfir ugg yfir hugsanlegri erfðablöndun með tilkomu þessa frv., erfðablöndun inn í íslenska náttúru.

Mér finnst skoðunarvert í þessu samhengi að allt sjókvíaeldi eigi að fara í mat á umhverfisáhrifum. Áhættan er það mikil og skilyrðin það misjöfn. Eins ætti að skoða alvarlega hvort allt eldi með innfluttar og erlendar tegundir, hvort sem er fyrir saltvatn eða ferskvatn, eigi ekki skilyrðislaust að vera í landkvíum en ekki sjókvíum. Þetta eru ákvæði sem mundu styrkja mjög verndunarsjónarmið gagnvart íslenskum tegundum.