Lax- og silungsveiði o.fl.

Fimmtudaginn 06. nóvember 2003, kl. 14:16:09 (1327)

2003-11-06 14:16:09# 130. lþ. 22.6 fundur 111. mál: #A lax- og silungsveiði o.fl.# (staðfesting bráðabirgðalaga) frv. 116/2003, GAK
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur, 130. lþ.

[14:16]

Guðjón A. Kristjánsson:

Virðulegur forseti. Það mál sem við höfum verið að ræða er allsérstakt eins og reyndar hefur greinilega komið fram í máli manna í dag og hv. alþingismenn sem setu eiga í landbn. hafa réttilega gert grein fyrir.

Mér sýnist á tillögum meiri hluta nefndarinnar sem settar eru fram í brtt. og gerð er grein fyrir í meirihlutaálitinu, að meiri hlutinn sé með tiltölulega jákvæða viðleitni til að hjálpa hæstv. landbrh., manninum með gullhjartað, til að koma þessum hlutum þó til betri vegar en ella hefði verið. Og auðvitað getum við alþingismenn hvar í flokki sem við stöndum ekki annað en verið sammála því að það sé þó betra að lagfæra vond verk en láta þau standa eins og þau eru í pottinn búin.

Ég held ég nánast láti þetta nægja um meirihlutaálitið eins og það kemur frá nefndinni og tel reyndar eins og ég sagði áðan að meiri hluti nefndarinnar sé í raun og veru að lagfæra málið miðað við þá stöðu sem hæstv. landbrh. og ríkisstjórnin kom því í. Miðað við þær aðstæður sem málið er komið í verði að taka þann vilja fyrir verkið.

Hitt er alveg ljóst, virðulegi forseti, að verið er að ganga mjög nærri því ákvæði sem er til heimilda fyrir ríkisstjórn að móta sérbráðabirgðalagaákvæði og verið er að fara þar á ystu nöf eins og réttilega hefur verið dregið fram í ágætum ræðum 1. frsm. minni hlutans, hv. þm. Lúðvíks Bergvinssonar, og kemur fram í ábendingum hans í nefndaráliti. Það að ganga til bráðabirgðalagasetningar í sumar á þann hátt sem gert var af þessu tilefni verður náttúrlega að teljast fáheyrt og vafasamt að það hafi nokkurn lagalegan grundvöll til að standa á.

Hins vegar verð ég að segja, virðulegi forseti, að ég álít það nú samt sem áður mikla bjartsýni hjá hv. þm. Rannveigu Guðmundsdóttur, að þetta víti til varnaðar verði endalok bráðabirgðalagasetningar. Ég hef ekki þá trú, virðulegi forseti, að ekki verði oftar gripið til hennar þegar ríkisstjórninni sýnist svo bera við og kannski þá af meira lagalega réttu tilefni en hér er gert. Ég veit að hv. þm., formaður landbn., er að sumu leyti sammála okkur öllum um að hér er auðvitað verið að fara á ystu nöf þó að þau séu vissulega að skera hv. landbrh., manninn með gullhjartað, niður úr snörunni að þessu leyti til og vin íslenskra laxastofna umfram allt, eins og hæstv. ráðherra lýsti yfir á fundi sem ég var á með honum í gærkvöldi, þar sem honum tókst ágætlega upp á köflum í sínu gamla fari um að hann væri besti vinur íslenskrar náttúru og allt um það, virðulegi forseti.

Hins vegar er það staða íslensku laxveiðiánna og laxastofnanna í okkar náttúrulega umhverfi sem er auðvitað langmesta áhyggjuefnið í öllu þessu máli. Þar er annars vegar verið að tala um laxeldi í sjó þar sem verið er að nota aðfluttan stofn þó að hann hafi verið ræktaður hér á landi um árabil, þ.e. norskur laxastofn sem notaður er til eldis í sjó í kvíum á Austurlandi. Því miður er það svo að í laxeldi sleppur alltaf eitthvað af löxum, mismunandi mikið og hefur þá tilhneigingu eðlilega að leita í ferskvatn og blandast íslensku laxastofnunum okkar. Laxastofnar í íslenskum ám eru ekki mjög stórir. Ég held að stærstu árnar okkar gefi um þrjú þúsund laxa í veiði á ári og ætli við séum ekki að veiða, eins og fram hefur komið, um 35--36 þúsund laxa að meðaltali á ári í íslenskum ám, sem þýðir þá sennilega að í árnar sé að ganga á milli 100--150 þúsund laxar ef við veiðum um 25--30% af því sem í árnar gengur. Það er ekki ólíkleg stærð.

Til samanburðar erum við að ala 2,5 milljónir laxa núna austur í Mjóafirði og Berufirði. Við sjáum því að stærð íslensku laxastofnanna í fjölda er auðvitað bara örlítið brot af öllum þeim fjölda laxa sem við erum með í eldi og þar af leiðandi er áhættan auðvitað mikil ef menn verða fyrir þeim óhöppum sem því miður gerast annað slagið og dæmi eru um, að missa mikið af laxi úr kvíum. Þetta er það sem snýr almennt að laxeldinu.

Hins vegar varðandi það að við getum ekki stoppað innflutning á seiðum eða erfðaefni úr öðrum laxastofnum til landsins, þá finnst mér allt benda til þess og hafa verið færð fyrir því rök í dag og m.a. í nefndarálitum, að það getum við, einfaldlega út frá því sem við teljum að við séum að gera, þ.e. að vernda okkar hreinu laxveiðiár og hina hreinu náttúru að því leyti til sem íslenskir laxastofnar eru og við eigum að geta komið í veg fyrir það á þeim grunni að stöðva innflutning. (Gripið fram í.) Gamalt vín á nýjum belgjum, hæstv. landbrh.

Þannig er nú það. Menn hafa auðvitað horft til þess að við viljum viðhalda sérstöðu okkar í íslenskri náttúru og standa að því sem best. Þau bráðabirgðalög sem sett voru í sumar voru hálfgerð fljótaskrift á því að standa vörð um það eins og réttilega hefur komið fram í dag.

Það er, virðulegi forseti, að mjög mörgu að hyggja þegar við tölum um íslenska náttúru og íslensku árnar og hvað við viljum vernda í því sambandi. Stofnarnir eru mjög mismunandi stórir í ánum og í sumum ám er alls ekki hægt að halda því fram að um stóra og sterka stofna sé að ræða sem við höfum verið að rækta upp í ám á undanförnum árum að þessu leyti. Hinn villti lax er okkur því mikils virði og það uppbyggingarstarf er mikils virði sem unnið hefur verið á undanförnum árum. Menn geta því ekki leyft sér mikla áhættu, en vissulega fylgir mikil áhætta laxeldinu. Það kemur greinilega fram m.a. í nefndarálitinu ...

(Forseti (JóhS): Forseti vill biðja hv. þm. að sýna ræðumanninum virðingu og hafa hljóð í salnum.)

Ef röddin í mér væri alveg eðlileg, virðulegi forseti, má mundi ég geta talað svo hátt að það skipti ekki máli þó aðrir væru að tala, en hún er ekki alveg í lagi. Ég sé að hæstv. landbrh. sest hérna nærri mér, þannig að ég þarf kannski ekki að hafa mjög hátt til að hann heyri orð mín. En það er kannski sérstaklega til hans sem ég vil beina tilmælum mínum á næstunni en þau eru í rauninni bara viðvörunarorð um það að hæstv. ráðherra gæti sem allra mestrar varúðar í því hvernig með þær heimildir er farið varðandi innflutning og annað erfðaefni sem hér hefur verið um að ræða um í þessu máli. Og að hæstv. ráðherra standi einnig verulega á bremsunum og leyfi ekki að svo komnu máli frekara laxeldi en orðið er í íslenskum fjörðum. Ég held að við ættum að sjá til og öðlast reynslu af þeim skrefum sem við þegar erum búin að stíga. Þau eru þegar umdeild, virðulegi forseti, og ég held að best fari á því að við reynum að stöðva þar við eins og frekast er kostur.

Laxeldið er vissulega atvinnuvegur sem getur gefið af sér miklar tekjur en við erum bara að taka mjög mikla áhættu að þessu leyti. Og þess vegna er það sem við a.m.k. í Frjálsl. tókum þá afstöðu, þó að við séum mjög hlynnt því að stunda fiskeldi, laxeldi og eldi á sjávarfiskum hér við land, þá höfum við lagst gegn því að nota norskan stofn við laxeldi hér á landi. Við teljum einfaldlega að þar séum við að taka of mikla áhættu miðað við reynsluna af því hversu mikið sleppur úr laxeldi víðast hvar annars staðar og nefnd eru dæmi í áliti minni hlutans þar sem segir, með leyfi forseta:

,,Talið er að um 600.000 laxar hafi sloppið úr sjókvíum við Færeyjar á síðasta ári.``

Allt þetta mál er því mjög stórt og viðamikið.

Ég tek undir það sem segir í áliti minni hlutans að það hefði verið eðlilegt að þingið hefði verið kallað saman í sumar ef menn töldu sig þurfa að setja þessi lög, en ég tel hins vegar að bent hafi verið á að það hafi ekki verið nauðsynlegt.