Lax- og silungsveiði o.fl.

Fimmtudaginn 06. nóvember 2003, kl. 14:41:18 (1329)

2003-11-06 14:41:18# 130. lþ. 22.6 fundur 111. mál: #A lax- og silungsveiði o.fl.# (staðfesting bráðabirgðalaga) frv. 116/2003, Frsm. meiri hluta DrH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur, 130. lþ.

[14:41]

Frsm. meiri hluta landbn. (Drífa Hjartardóttir) (andsvar):

Virðulegi forseti. Vegna þess að ég hef ítrekað komið hér upp og varið það að það séu ekki aðeins 6 millj. kr. hagsmunir sem í húfi eru, þá vil ég taka fram aftur að samkvæmt upplýsingum frá Stofnfiski vilja þeir meina að vegna markaðslokunar í sumar hafi það kostað þá a.m.k. 50 millj. kr. Og meira en það því að í samhengi setningar bráðabirgðalaganna verður einnig að horfa til þess að viðskiptasamningar og langtímaáætlanir á grundvelli þeirra lentu í uppnámi vegna þeirrar lokunar sem varð til þess að við uppfylltum ekki þjóðréttarlegar skuldbindingar okkar.

Áætluð velta Stofnfisks og Fiskeldis Eyjafjarðar á næstu þremur árum eru 700--1.000 millj. kr. Við fengum skeyti áðan frá Guðbergi Rúnarssyni í Landssamtökum fiskeldisstöðva. Þar kemur fram að flutt hafi verið út til Noregs fyrir 51,5 milljónir og 6,5 milljónir til Evrópu. Samkvæmt tollnúmerum eru þetta 58 milljónir Önnur sala er áframseld hrogn frá Írlandi um 7 milljónir og þjónustusamningurinn vegna hrognasölu í Bretlandi er metinn á 7--8 milljónir. Rétt er að benda á að aðeins ein sending náði inn til Bretlands sem opnaðist strax eftir að bráðabirgðalögin voru sett, síðan lokaðist markaðurinn aftur en opnaðist aftur núna fyrir þremur vikum og bráðabirgðalögin og þessi eina sending inn á Bretlandsmarkað kom þó í veg fyrir það að þjónustusamningarnir færu í uppnám.