Lax- og silungsveiði o.fl.

Fimmtudaginn 06. nóvember 2003, kl. 15:39:50 (1342)

2003-11-06 15:39:50# 130. lþ. 22.6 fundur 111. mál: #A lax- og silungsveiði o.fl.# (staðfesting bráðabirgðalaga) frv. 116/2003, SKK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur, 130. lþ.

[15:39]

Sigurður Kári Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg rétt sem hv. þm. segir að ríkisstjórninni er falin mikil ábyrgð með setningu bráðabirgðalaga. En það verður ekki séð af ummælum þeirra sérfræðinga sem minni hluti nefndarinnar vísar til að hæstv. ríkisstjórn hafi ekki staðið undir þeirri ábyrgð. Það kemur einfaldlega fram í greinargerð eða lögfræðilegri álitsgerð Ragnhildar Helgadóttur lektors að hún telji ólíklegt að dómstólar mundu komast að þeirri niðurstöðu að setning bráðabirgðalaganna mundi ekki standast.

Það er rétt að vísað er til þess í greinargerðinni að Eiríkur Tómasson prófessor hafi talið að um takmarkatilvik hafi verið að ræða. Hins vegar kemur ekkert fram, hvorki í greinargerðinni né í öðrum gögnum málsins, að sá ágæti prófessor telji að með setningu bráðabirgðalaganna hafi ríkisstjórnin farið á svig við reglur stjórnarskrárinnar. Það geta verið mörg takmarkatilvik við setningu laga. En það er ekki hægt að fullyrða hér að eitthvað sé að lagasetningunni ef það liggur ekki neitt, ekki einn stafkrókur fyrir um það að skilyrði stjórnarskrárinnar hafi ekki verið uppfyllt. Á meðan svo er ekki þá getum við ekki talið að eitthvað sé athugavert við setningu laganna.