Lax- og silungsveiði o.fl.

Fimmtudaginn 06. nóvember 2003, kl. 15:41:28 (1343)

2003-11-06 15:41:28# 130. lþ. 22.6 fundur 111. mál: #A lax- og silungsveiði o.fl.# (staðfesting bráðabirgðalaga) frv. 116/2003, Frsm. minni hluta LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur, 130. lþ.

[15:41]

Frsm. minni hluta landbn. (Lúðvík Bergvinsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir með hv. þm. Bryndísi Hlöðversdóttur og hrósa hv. þm. Sigurði Kára Kristjánssyni fyrir að treysta sér til að koma í þessa umræðu. Það er miklu meira en hæstv. ráðherrar hafa gert hingað til og aðrir óbreyttir þingmenn ef undan er skilin hv. þm. Drífa Hjartardóttir sem hefur reynt að standa hér vaktina eins og kostur er.

Það er heldur ekki verra fyrir okkur á hinu háa Alþingi að fá í umræðuna mann sem er nýkominn úr baráttu í dómssölum með lagasverðið bjarta að vopni með það að markmiði að eyða allri réttaróvissu sem upp kann að koma. Ég veit ekki hvort hv. þm. er starfandi lögmaður. Hann var það a.m.k. þangað til nýverið. Ég þori ekki að fullyrða um það. Ekki er heldur langt síðan hv. þm. kom úr skóla þannig að minni hans ætti að vera ferskt í þessum efnum öllum saman. Ég hef því bara eina spurningu til hv. þm. og ætla að láta stóryrðin sem féllu sem vind um eyru þjóta. Hún er þessi: Er hliðstæða þess í réttarsögunni þegar sett hafa verið bráðabirgðalög að þeir hagsmunir sem hér eru í húfi hafi verið uppi á borðinu, þ.e. að vernda þá hagsmuni? Er til hliðstæða þessa? Er einhvers staðar hægt að finna sambærilegt tilvik þar sem hagsmunir sem með hlutlægu mati reynast vera 6 millj. hafa réttlætt það að gripið sé til bráðabirgðalaga. Ég held að hv. þm. sé kannski sá eini hér inni sem gæti gefið okkur fordæmi hvað þetta varðar. Það er ætíð þannig þegar vísað er til fordæma að aðeins er verið að fjalla um eitthvert fyrrverandi tilvik sem liðið er og erfitt er að bera þau saman. (Forseti hringir.) En það væri ósköp gaman fyrir okkur hin, virðulegi forseti, ef hv. þm. gæti nefnt okkur fordæmi þeirra laga sem hér um ræðir.