Lax- og silungsveiði o.fl.

Fimmtudaginn 06. nóvember 2003, kl. 15:45:15 (1345)

2003-11-06 15:45:15# 130. lþ. 22.6 fundur 111. mál: #A lax- og silungsveiði o.fl.# (staðfesting bráðabirgðalaga) frv. 116/2003, JGunn
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur, 130. lþ.

[15:45]

Jón Gunnarsson:

Herra forseti. Margt hefur verið sagt hér í dag um þau bráðabirgðalög sem við erum að fjalla um og ég tek undir það sem fulltrúar minni hluta landbn. hafa sagt hér um þau. Hér kom annar nýr hv. þm., Helgi Hjörvar, fyrr í dag í umræðuna og velti fyrir sér þessu formi og hvernig stæði á því að hlutir væru framkvæmdir með þeim hætti sem hér um ræðir og verð ég í sjálfu sér að taka undir með honum í eftirfarandi spurningu: Hvernig geta svona hlutir gerst?

Ef við skoðum nál. meiri hluta landbn. þá segir þar um það frv. sem síðan var gert að lögum með bráðabirgðalögum, með leyfi forseta:

,,Frumvarpið var fyrst lagt fram á síðustu dögum 128. löggjafarþings og taldi nefndin frumvarpið mjög umdeilt, viðamikið og þarfnast ítarlegrar skoðunar og vandaðrar þinglegrar meðferðar. Eftir að hafa átt fundi með nokkrum hagsmunaaðilum taldi nefndin ekki unnt að ljúka málinu á síðustu dögum þingsins án þess að veita hagsmunaaðilum færi á að vinna ítarlegar umsagnir um málið og senda nefndinni.``

Ég endurtek að hér er um nál. meiri hluta landbn. að ræða.

Hvernig má það vera að þingnefnd sem með málið fer segir: ,,Þetta frv. getur ekki orðið að lögum. Við þurfum að skoða þetta mál miklu betur.``? Þetta segir þingnefndin sem fer með málið fyrir hönd löggjafans, fyrir hönd Alþingis og er síðan send heim vegna þess að þingi er frestað.

Hæstv. landbrh. situr uppi með það að þingnefndin treysti sér ekki til að mæla með því að frv. verði að lögum. En í fjarveru þingnefndar og í fjarveru þingsins gerir hann akkúrat það sama frv. og hér um ræðir og meiri hluti landbn. lýsir hér í sínu áliti, að lögum einn og sér. Er ekki í raun verið að segja, herra forseti, að engu máli skipti hvað þinginu finnst, að engu máli skipti hvað fagnefndinni finnst. ,,Ég er ráðherra. Ég þarf að setja þessi lög. Ég hef ekki gert það í tíma. Ég er kominn í vandræði og mér er slétt sama hvað þinginu finnst. Mér er slétt sama hvað fagnefndinni finnst. Þetta frv. sem ég lagði fyrir nefndina og nefndin segir að sé ekki tækt og geti ekki orðið að lögum, það skal verða að lögum, og hér með skrifa ég undir það og þetta eru lög.``

Síðan komum við til þings og við stöndum frammi fyrir gerðum hlut og stjórnarliðarnir segja í raun það sama núna: ,,Þessi lög, eins og ráðherrann setti þau í sumar, eru ólög. Við getum ekki staðfest þessi lög.`` Enda sjáum við það í brtt. meiri hluta landbn. að þar eru sex breytingar við þau lög sem ráðherrann einn og sér setti í sumar.

Það hefur oft og tíðum verið hálfundarleg umræða um þessi lög og um þá hagsmuni sem hér eru í húfi. Ég hef oft og tíðum hlustað á hæstvirtan ráðherra lýsa því í umræðu í fjölmiðlum, blaðaviðtölum, sjónvarpi og á Alþingi að hættan sé nánast engin, að það sé nánast engin hætta á því að lax sleppi úr kvíum fyrir austan ... (Landbrh.: Ekki snúa út úr. Ekki ljúga.) að það væri ákaflega lítil hætta á því að lax (Landbrh.: Ekki ljúga.) mundi sleppa úr kvíum á Austfjörðum vegna þess að hæstv. ráðherra væri sá ráðherra sem sett hefði ströngustu reglur í heimi (Landbrh.: Rétt.) og það væri þannig gengið frá kvíunum á Austfjörðum (Gripið fram í.) að það væri nánast ... (Forseti hringir.) ja, hvað eigum við að segja, hæstv. ráðherra, nákvæmlega hvernig þú orðaðir þetta. Þú hefur orðað þetta með svo skemmtilegum hætti oft og tíðum að ...

(Forseti (BÁ): Ekki tveggja manna tal.)

Ég bið forseta velvirðingar á því að vera ekki vanari þingsköpum en raunin er.

Hæstv. landbrh. hefur orðað þetta þannig að ekki er hægt að skilja annað en að búið sé að hnýta flesta þá hnúta þannig að minni líkur séu á því að lax sleppi úr kvíum á Íslandi en annars staðar í heiminum því að oft þegar talað hefur verið um lax sem sloppið hefur úr kvíum í Noregi og Færeyjum þá hefur hæstv. ráðherra ekki talið jafnmikla hættu á að þetta gerðist á Íslandi.

Því brá mér í brún þegar ég las svar hæstv. landbrh. við fyrirspurn hv. þm. Magnúsar Þórs Hafsteinssonar um laxeldi á Austfjörðum. Þetta svar var lagt fram á þinginu fyrir nokkrum dögum. Það er þingskjal 237 og 180. mál.

Spurningar hv. þm. voru eftirfarandi, með leyfi forseta:

1. Hversu mörg laxaseiði hafa verið sett út í sjókvíar í Mjóafirði og Berufirði frá því að eldi hófst á þessum stöðum?

2. Hversu mörgum löxum hefur verið slátrað og hve margir laxar eru nú taldir vera í kvíunum?

Svar hæstv. ráðherra er bæði vandað og yfirgripsmikið. Ég geri þó ekki ráð fyrir því að hæstv. ráðherra hafi farið ofan í kvíarnar og talið laxana sem eftir voru þar (Gripið fram í: Það er ekki útilokað.) en í svarinu koma fram eftirfarandi upplýsingar:

Að Sæsilfur í Mjóafirði hafi sett út laxaseiði í staðsetningu A á árinu 2001 319 þús. fiska og að þeir hafi slátrað upp úr kvíunum rúmlega 214 þús. fiskum. Með því að nota bara gömlu barnaskólastærðfræðina, þ.e. hvað fór inn og hvað var tekið út, þá kemur í ljós að afföll af þessum fiskum hafa verið tæplega 105 þús. fiskar, eða 33% af því sem sett var ofan í kvína.

Ég man til þess, þegar ég hugsa til baka, að það varð eitthvert slys og það drapst talsvert mikið af fiski sem var síðan urðaður í Mjóafirði og það getur vel verið að það sé skýringin á þessum afföllum. En samkvæmt svari hæstv. ráðherra voru á sama stað á árinu 2002 sett út 1 millj. 313 þús. seiði. Það er búið að slátra tæplega 47 þús. seiðum og eftir í kvíunum, samkvæmt því svari sem hér liggur fyrir, eru 913 þús. fiskar. Það eru horfnir rúmlega 353 þús. fiskar úr þessum kvíum síðan á árinu 2002. Það er sáralítið búið að slátra. Það er búið að slátra innan við 50 þús. fiskum. En það eru 353 þús. fiskar horfnir.

Á árinu 2003 voru settir út, samkvæmt sama svari, --- og það er á þessu ári, það var bara í sumar --- þá eru settir út í þessar kvíar 1. millj. 421 þús. fiskar. Það er stutt síðan það var gert þannig að það getur nú ekki mikið hafa horfið af þeim fiski. En samkvæmt svari hæstv. ráðherra eru 1 millj. 155 þús. fiskar eftir. Það er ekki búið að slátra einum fiski upp úr þessum kvíum af því sem sett var út á árinu 2003 en 266 þús. fiskar hafa horfið.

Ef enginn fiskur sleppur úr þessum kvíum þá hefur allur þessi fiskur drepist í kvíunum. Ég er að tala um að á árunum 2001, 2002 og 2003, hafi 724 þús. fiskar drepist (Gripið fram í: Eða sloppið.) eða synt út úr kvíunum. Við vitum ekki hvort er. Þetta eru 724 þús. fiskar. Ef þessi fiskur er hálft kíló þá erum við að tala um yfir 300 tonn af laxi sem ekki er hægt að gera grein fyrir nema hann hafi drepist í kvíunum, verið tekinn þaðan, vigtaður upp úr þeim og urðaður í Mjóafirði. Er Mjóifjörður að verða laxagrafreitur eða hvað? (Landbrh.: Ekki gera lítið úr þessu.)

Þetta er alvarlegt mál, hæstv. ráðherra. (Gripið fram í.) Maður skoðar þessar tölur, þetta svar, herra forseti, sem lagt er fram hér á þingskjali frá hæstv. ráðherra og þar kemur fram að afföllin af laxi sem settur var út í Mjóafjörð séu yfir 700 þús. fiskar. En í svari hæstv. ráðherra er ekki reynt að gera neina grein fyrir því hvað hefur orðið af þessum fiski. Ef það er raunin að þessi fiskur er að drepast í kvíunum þá hlýtur að þurfa að fjarlægja hann úr kvíunum. Ekki fellur hann í gegnum möskvann því að ef hann getur það þá hlýtur hann að synda út. Menn hljóta á hverjum degi í Mjóafirði að vera að bera tugi, hundruð kílóa af dauðum laxi upp úr firðinum til að urða einhvers staðar á landi. (Gripið fram í.)

Ef við berum þetta saman við þau svör sem bárust við spurningum hv. þm. Magnúsar Þórs Hafsteinssonar um eldið í Berufirði þá kemur í ljós að þar voru sett út í kvíar á tveggja ára tímabili 384 þús. seiði, 19 þús. seiði virðast vera horfin, þ.e. 5% afföll.

Herra forseti. Ég neita að trúa því að það geti verið ásættanlegt fyrir okkur sem erum á hinu háa Alþingi að eiga von á því að hægt sé að flytja inn lax af erlendum uppruna og setja hann í kvíar, þar sem það er leyft hringinn í kringum landið, ef þessi er raunin af hinum ströngu reglum hæstv. landbrh., þ.e. ef raunin er sú að nánast þriðji hver fiskur hverfur. Annaðhvort drepst hann í kvíunum eða hann syndir út úr kvíunum.

Mér finnst full ástæða til að ræða þetta í þessari umræðu vegna þess að við höfum öll heyrt það sem hlustað höfum á þessa umræðu að í raun sé moldin að rjúka í logninu, það séu afskaplega litlar líkur á því að fiskur hverfi úr þessum kvíum hér á Íslandi, það séu bara ákaflega litlar líkur á því.

Ég held að full nauðsyn sé á því nú í ljósi þess svars sem ég hef vitnað í að það verði skoðað hvort þetta geti í raun verið. Ég trúi því varla að það geti verið að nánast þriðji hver fiskur hafi horfið úr þessum kvíum fyrir austan. Eldið getur ekki verið arðbært ef þessi fiskur hefur drepist og það getur ekki verið arðbært eldi ef þessi fiskur hefur synt í burtu með öllum þeim hættum sem því fylgja fyrir íslenska laxinn.

Niðurstaða allra þeirra sem skoðað hafa það hvort lax sleppi úr kvíum er sú að hann geri það alltaf, það hljóti alltaf að koma einhver tilvik þar sem lax sleppi úr kvíum. Að mínu viti, herra forseti, er það ekkert annað en forheimska að neita því. Þessi staðreynd liggur fyrir.

Það er lán okkar allra að enginn nýtti sér í raun lögin þegar þau voru sett í sumar til að flytja inn fisk með erlendu erfðaefni til að setja niður í íslenska firði. Það lán eigum við ekki hæstv. landbrh. að þakka.