Lax- og silungsveiði o.fl.

Fimmtudaginn 06. nóvember 2003, kl. 16:03:24 (1349)

2003-11-06 16:03:24# 130. lþ. 22.6 fundur 111. mál: #A lax- og silungsveiði o.fl.# (staðfesting bráðabirgðalaga) frv. 116/2003, JGunn (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur, 130. lþ.

[16:03]

Jón Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Mér er það nokkuð ljóst að ég hef farið í hinar fínu taugar hæstv. landbrh. (Landbrh.: Nei, nei.) með þeim tölum sem ég fór hér með. Ef við sem kjörin erum á þjóðþing Íslendinga getum ekki tekið tölur sem fram koma í þingskjölum og farið með þær úr ræðustóli Alþingis án þess að hæstv. ráðherrar sem telja að sér vegið með þeim tölum lýsi okkur já-menn og nei-menn, að við segjum bæði já og nei í sama málinu, er öðruvísi unnið á Alþingi en ég hélt þegar ég bauð mig fram til starfa hér.

Við eigum og hljótum að geta rætt staðreyndir. Staðreyndir þær sem ég fór hér með upp úr svari hæstv. landbrh. hljóta að vera réttar. Ég trúi ekki öðru en að hæstv. ráðherra hafi passað sig á því að vanda svar sitt við fyrirspurn hv. þm. Magnúsar Þórs Hafsteinssonar og að mér sé óhætt að trúa þeim tölum sem þar koma fram og treysta. Ef þær eru ekki réttar er það ekki á ábyrgð þess sem hér stendur heldur á ábyrgð þess hæstv. ráðherra sem svarið veitti.

Við hljótum að geta rætt þetta mál í alvöru. Við hljótum að geta rætt þetta mál þannig að við skoðum staðreyndirnar sem fyrir liggja alveg án þess að við látum tilfinningarnar hlaupa með okkur í gönur. Þetta mál er ósköp einfalt. Ef einhver vafi leikur á því hvort innflutt erfðaefni eða innfluttur lax geti mengað á einhvern hátt eða stefnt í voða íslenska laxastofninum eigum við að stíga mjög létt til jarðar og gera allt sem í okkar valdi stendur til að koma í veg fyrir að ganga á hlut íslenska laxins.