Lax- og silungsveiði o.fl.

Fimmtudaginn 06. nóvember 2003, kl. 16:05:37 (1350)

2003-11-06 16:05:37# 130. lþ. 22.6 fundur 111. mál: #A lax- og silungsveiði o.fl.# (staðfesting bráðabirgðalaga) frv. 116/2003, Frsm. meiri hluta DrH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur, 130. lþ.

[16:05]

Frsm. meiri hluta landbn. (Drífa Hjartardóttir) (andsvar):

Virðulegi forseti. Vegna þess að fiskeldi í Mjóafirði bar hér á góma vil ég ekki að þeir sem á okkur hlýða haldi að þar sé allt í miklum ólestri. Það vill þannig til að hv. fjárln. Alþingis fór í Mjóafjörð á haustdögum og heimsótti einmitt fiskeldismenn þar. Við skoðuðum þar allt sem að því lýtur og hittum sveitarstjórnarmenn og það var ekki annað að sjá en að þar væri öll umhirða, eftirlit og aðbúnaður með miklum sóma. (BH: Hvar er hann ...?) Þar sáum við marga laxa spriklandi og stökkvandi í kvíunum og eins og við vitum hefur þetta skapað heilmörg störf í Mjóafirði og í fyrsta skipti í mörg ár er verið að byggja þar íbúðarhús. Það er mikið í húfi, bæði fyrir sveitarfélagið Mjóafjörð og þá sem að þessu fiskeldi standa, að vel takist til.