Lax- og silungsveiði o.fl.

Fimmtudaginn 06. nóvember 2003, kl. 16:09:03 (1354)

2003-11-06 16:09:03# 130. lþ. 22.6 fundur 111. mál: #A lax- og silungsveiði o.fl.# (staðfesting bráðabirgðalaga) frv. 116/2003, Frsm. minni hluta LB
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur, 130. lþ.

[16:09]

Frsm. minni hluta landbn. (Lúðvík Bergvinsson):

Virðulegi forseti. Ég átti von á því í dag að þessi umræða sem hér færi fram mundi á einhvern hátt skýra það hvers vegna haldið var á málum eins og raun ber vitni. Ég átti von á því að hér kæmu fram skýringar á þeim vinnubrögðum sem áttu sér stað í sumar og að hér kæmu fram einhverjar röksemdir fyrir því að sú leið var farin sem farin var.

Hér hefur, virðulegi forseti, ekki nokkuð komið fram af því tagi sem gæti skýrt það hátterni sem hæstv. ríkisstjórn sýndi af sér þegar hún setti þau bráðabirgðalög sem sett voru í sumar. Það er loks nú, þegar klukkan er farin að ganga fimm, sem hæstv. landbrh. kemur inn í umræðuna og leggur þá fram nokkrar spurningar sem gengu mestan part út á það hver maðurinn væri. Hann hafði ekki annað innlegg í umræðuna. Svo mátti skilja hv. formann landbn. þannig að þessir 700 þús. týndu fiskar væru spriklandi og lifandi í kvíunum í Mjóafirði. Það var einasta svarið sem kom fram frá hv. formanni landbn.

Ég verð að segja það alveg eins og er, virðulegi forseti, að ég átti von á miklu markvissari og rökfastari umræðu frá stjórnarliðum, en hér hefur nánast ekki neitt komið fram. Það er helst reyndar að þeir sendu hv. þm. Sigurð Kára Kristjánsson í þessa umræðu og það sem hv. þm. reyndi að draga fram var að þeir sérfræðingar sem komu til leiks hjá hv. landbn. hefðu lýst yfir einhverri skýrri niðurstöðu í viðhorfum sínum sem sett voru fram. Hvorugur þeirra sérfræðinga sem komu fyrir nefndina treysti sér til að fullyrða um það hvernig þetta mál færi. Annar laug því að þetta væri takmarkað tilvik hvað varðaði stjórnarskrána. Hinn sagði að það væri ekki hægt að fullyrða neitt svo að ekki mætti draga það í efa.

Við reyndum í andsvari áðan að draga fram hvort einhvers staðar einhvern tíma í réttarsögunni hefði komið upp tilvik þar sem bráðabirgðalög voru sett þar sem hagsmunir, sem voru í húfi eftir hlutlægt mat og lög sem hafa gilt í fjóra mánuði rúma, voru upp á 6 millj. kr. En þegar skoðaður er útflutningur til Skotlands og Írlands --- það átti að setja bann á innflutning þangað --- er upphæðin um það bil 28 millj. á öllu þessu ári þannig að þessar tölur þurfa á engan hátt að koma á óvart. Þess vegna eru engin fordæmi fyrir því að bráðabirgðalög hafi verið sett af jafnlitlu tilefni. Og af þeim sökum að dómstólar hafa ekki hingað til fellt úr gildi mat bráðabirgðalöggjafans á því hvort það er brýn nauðsyn eða ekki treystu þessir sérfræðingar sér ekki til þess að fullyrða að svo yrði nú. Þeir sögðu einfaldlega að þetta væri afmarkað tilvik. Þegar svo farið er ofan í það --- reyndar með góðri aðstoð bókasafnsins á virðulegu Alþingi, og ég þakka þeim sérstaklega fyrir þá vinnu sem þeir lögðu á sig --- kemur á daginn að það er hvergi og enginn samjöfnuður úr sögunni sem hægt er að bera við það tilvik sem hér um ræðir. Þess vegna er ekki hægt að bera þetta saman við nein fordæmi. Það er sá veruleiki sem við blasir. Og ef við samþykkjum þetta mat bráðabirgðalöggjafans erum við í reynd að segja að ríkisstjórnin geti sett hvaða lög sem er á meðan þingið ekki situr. Það er algerlega óásættanlegt og það sættir minni hlutinn á Alþingi sig ekki við. Vel má vera að einstaka þingmenn meiri hlutans séu kátir með þetta og tilbúnir að bakka það upp hvar sem er og hvenær sem er að menn setji hvaða lög sem er en við erum ekki tilbúin til þess að standa að því.

Ég fór yfir það í ræðu minni í morgun þar sem ég gerði grein fyrir áliti minni hluta landbn. að við teldum að sú leið sem ríkisstjórnin ákvað að fara, þ.e. að heimila innflutning en beita síðan sjúkdómavörnum og reglum þar að lútandi sem tæknilegum viðskiptahindrunum fyrir innflutningi, væri ekki sú leið sem rétt væri að fara heldur væri miklum mun skynsamlegra að fara leið sem byggði á umhverfissjónarmiðum, sem hefðu að markmiði að vernda lífríki og íslenska náttúru. Það kom stuðningur við það sjónarmið frá ráðherra umhverfismála ESB og það hefur komið stuðningur við það sjónarmið frá Stefáni Má Stefánssyni prófessor í lagadeild Háskóla Íslands.

Þegar löggjöfin er skoðuð fær maður ekki betur séð en það séu í dag skýrar heimildir í náttúruverndarlögum til að setja reglugerð um innflutning dýra. Sú heimild hefur verið í lögum allt frá árinu 1999 og það er ekki aðeins að um heimild sé að ræða heldur segir í ákvæðinu að reglugerð skuli sett. Lögin eru orðin fjögurra ára gömul. Ég óskaði eftir því við hæstv. umhvrh. að hún sæti hér og hlýddi á þessa umræðu sem hún varð við og ber að þakka fyrir það en ég vildi beina þeirri spurningu til hæstv. umhvrh. hvernig á því standi að þessar reglur hafa ekki verið settar, ekki síst vegna alvarleika þessa máls og vegna þess að sú bráðabirgðalagasetning sem ráðist var í í sumar og það frv. sem hér liggur fyrir hefur að mati flestra sérfræðinga á þessu sviði verið talið ógn við lífríki og náttúru Íslands. Hvers vegna voru umhvrn. og hæstv. umhvrh. ekki með í ráðum við undirbúning þessa máls?

[16:15]

Við gagnrýndum málið harðlega í morgun og veltum fyrir okkur hvort ágreiningur væri innan stjórnsýslunnar um hvar ætti að vista þennan málaflokk. Hæstv. landbrh. hefur ekki komið í pontu til að tjá sig um þetta tiltekna mál en forvitnast aðeins um hverjir skipi þingsæti hverju sinni. Ég spyr hins vegar hæstv. umhvrh. hvernig á því stendur að hún var ekki höfð með í ráðum og hvort hún hafi beitt sér í því skyni að hafa áhrif á þá niðurstöðu sem við stöndum frammi fyrir í dag. Ég held að í þessu tilviki hafi það verið hennar hlutverk að standa vörð um náttúruna. Mér leikur því forvitni á að vita hvernig stóð á því að hæstv. ráðherra kom ekki að setningu þessara laga.

Reyndar hefur, virðulegi forseti, fátt nýtt komið fram í umræðunni, eins og ég sagði í upphafi máls míns, annað en það sem stjórnarandstæðingar hafa sett fram. Stjórnarandstaðan hefur talað einni röddu í þessu máli og hefur mjög skýra afstöðu. En áður en þessari umræðu lýkur verðum við að fá svör við þessu. Á sama hátt verður hæstv. landbrh., sem situr í hliðarherbergi, að svara því hvernig á því stóð að hann fór þess ekki á leit við forseta þingsins að þingið yrði kallað saman í sumar til að ræða þessi mál. Við stjórnarskrárbreytinguna 1991 gengu allir út frá því sem vísu að svo yrði gert.

Hæstv. ráðherra sem fylgist vandlega með öllum tæknibreytingum hefur orðið var við hinar miklu framfarir í samgöngumálum sem gera það að verkum að það tekur ekki langan tíma að kalla þingið saman. Í þessu tilviki hefði það verið hægur vandi. Ég held að hæstv. ráðherra verði að skýra þetta, ella sitjum við eftir þessa umræðu án þess að hafa fengið svör við okkar helstu spurningum.

Á sama hátt verður hæstv. ráðherra að gera grein fyrir því hvernig þetta mál, þ.e. lögleiðing þessarar tilskipunar, gat velkst um í ráðuneytinu í fimm ár, þ.e. frá því að ákvörðun er tekin í sameiginlegu EES-nefndinni um að þetta mál félli undir samningin 1998 til dagsins í dag og ekki síst frá því í maí 2002 þegar tilkynning kemur um að Ísland fái ekki frekari undanþágur. Í reynd hefur ráðuneytið verið með þetta mál á sínum herðum í eitt og hálft ár. Við hljótum að spyrja: Hvers vegna er valin sú leið að setja bráðabirgðalög á miðju sumri þegar verkefnið hefur legið fyrir allan þennan tíma, þegar fyrir liggur að Alþingi treysti sér ekki til þess að taka á málinu í marsmánuði og þegar fyrir liggur að hæstv. ráðherra lagði málið ekki fyrir á Alþingi eftir kosningar? Við köllum eftir svörum við þessum spurningum. Það er kannski þá fyrst að þau svör hafa fengist sem við getum farið að rökræða þessi mál.

Það hefur að mörgu leyti verið óþægilegt að hér hefur nánast farið fram eintal stjórnarandstöðunnar og ekki komið fram nein rök sem hægt er að taka mark á sem réttlætt geta þessa aðgerð. Reyndar hefur enginn úr hæstv. ríkisstjórn tekið til máls um þetta málefni í dag þrátt fyrir að ríkisstjórnin hafi sett það fram. Þrátt fyrir að hv. þm. Drífa Hjartardóttir, formaður landbn., hafi gert sitt í að setja kút og kork á hæstv. landbrh. svo að hann sykki ekki í málinu þá var það ekki hún sem setti þessi bráðabirgðalög. Það var að frumkvæði ríkisstjórnarinnar sem lögin voru sett og það er lágmarksvirðing við þingið að ríkisstjórnin og fulltrúar hennar útskýri hvers vegna þessi leið var valin. Þá á ég við að það verði rökstutt hvers vegna þessi leið var valin. Það er lykilatriði og reyndar ekki ósanngjörn krafa að ætlast til þess af ráðherrum að þeir skýri mál sitt. Mér sýnist á viðbrögðum bæði hæstv. landbrh. og hæstv. umhvrh. að við munum fá einhver svör við þessa umræðu.