Lax- og silungsveiði o.fl.

Fimmtudaginn 06. nóvember 2003, kl. 16:22:48 (1355)

2003-11-06 16:22:48# 130. lþ. 22.6 fundur 111. mál: #A lax- og silungsveiði o.fl.# (staðfesting bráðabirgðalaga) frv. 116/2003, umhvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur, 130. lþ.

[16:22]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hér er látið í það skína að þetta mál sé með óeðlilegum hætti til komið. Vegna þeirra spurninga sem hér hafa verið bornar upp vil ég taka fram að við erum að vinna í reglugerðinni sem hér er spurt um. Það er búið að vinna mest í gróðurhluta hennar, ekki dýrahlutanum. Það er svokölluð sérfræðinganefnd sem vinnur það en það er einmitt sama nefnd og gefur umsagnir til landbrh. þegar til innflutnings á dýrum kemur.

Ég beitti mér ekki fyrir þeirri niðurstöðu sem hér er orðin. Hún er unnin í landbn. Ég tel hins vegar að niðurstaðan sé mjög góð vegna þess að þrátt fyrir þau verndarákvæði sem við höfum í lögum er landbrh. veitt heimild til að banna innflutning á laxi telji hann vísindaleg rök fyrir því. Þau vísindalegu rök eiga að koma fram hjá Veiðimálastofnun, þeirri stofnun í stjórnkerfi okkar sem hefur mesta fagþekkingu á málinu. Ég tel að hér sé um nýja vernd að ræða miðað við þá vernd sem við höfum þegar í dag. Mér finnst þetta ágæt niðurstaða og tel að Veiðimálastofnun og landbrh., sem ber ábyrgð á lögunum um lax og silung, hafi öll tök á að banna innflutning á laxi ef það þarf. Hér er ekki um neitt óeðlilegt að ræða. Allar heimildir eru fyrir hendi til að banna innflutninginn.