Lax- og silungsveiði o.fl.

Fimmtudaginn 06. nóvember 2003, kl. 16:26:49 (1357)

2003-11-06 16:26:49# 130. lþ. 22.6 fundur 111. mál: #A lax- og silungsveiði o.fl.# (staðfesting bráðabirgðalaga) frv. 116/2003, umhvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur, 130. lþ.

[16:26]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hér talar hv. þm. um umhverfisþáttinn sem er auðvitað fyrir hendi í þessu máli en ég vil benda honum á umfjöllun umhvn. Alþingis um málið. Nefndin fór yfir það, fékk til sín fulltrúa stofnana og sérfræðinga og allir í umhvn. sameinuðust í áliti sínu. Meiri hluti og minni hluti sameinuðust í álitinu. Í álitinu segir að þrátt fyrir þau verndarákvæði sem fyrir eru telji nefndin að landbn. Alþingis eigi að setja inn frekari verndarákvæði. Það gerir landbn. Hún klofnar reyndar í málinu en inn eru sett verndarákvæði sem heimila ráðherra að banna innflutning og það eigi að byggjast á vísindalegum grunni. Ég tel því eðlilega að málum staðið varðandi innleiðingu þessarar tilskipunar.

Varðandi reglugerðina er um nokkuð flókið og viðamikið mál að ræða. Við höfum rætt það við formann nefndarinnar að reyna að hasta þessu starfi en ég á ekki von á að það klárist á næstunni. Það er það mikið mál að klára reglugerð sem lýtur að svo fjölbreyttum þáttum sem þarna um ræðir. Ég á því ekki von á að það starf klárist alveg á næstunni, því miður.