Lax- og silungsveiði o.fl.

Fimmtudaginn 06. nóvember 2003, kl. 16:30:34 (1359)

2003-11-06 16:30:34# 130. lþ. 22.6 fundur 111. mál: #A lax- og silungsveiði o.fl.# (staðfesting bráðabirgðalaga) frv. 116/2003, landbrh.
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur, 130. lþ.

[16:30]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka þennan dag og þá fróðlegu umræðu sem hér hefur farið fram, ég tel hana mikilvæga. Það hefði átt að vera skylda hv. þingmanna að vera á miklum fundi sem haldinn var í gær á vegum Stangaveiðifélags Reykjavíkur þar sem dr. Össur Skarphéðinsson stýrði pallborði og fundi. Fræðingarnir tókust á og hagsmunaaðilarnir, formaður laxeldismanna og formaður hinna frjálsu veiðiáa eða veiðiréttareigenda, dýralæknir sjúkdóma og sérfræðingur frá Veiðimálastofnun. Fundurinn var um allt mjög fróðlegur og þar hefði verið gott fyrir þingmenn að vera og undirbúa sig undir rökræður þessa dags. Þá hefðu þær kannski verið með svolítið öðrum hætti.

Hæstv. forseti. Ég vil almennt segja um málið að ég tek undir það sem hér hefur komið fram og hefur verið vitnað til orða minna að Ísland býr við mikla sérstöðu hvað náttúruna varðar, hreinleika hennar og fegurð. Ísland býr einnig við mikla sérstöðu í heilbrigði dýra, hvort heldur eru húsdýr eða fiskar í ám, vötnum og sjó. Þennan líffræðilega fjölbreytileika þarf að sjálfsögðu að virða og varðveita eftir því sem kostur er, ekkert síður en heilbrigðisástandið. Ég hef þessa skýru skoðun og tek undir þessa skoðun sem hefur komið fram hjá hv. þingmönnum.

Það hefur komið fram í umræðunni að þingið er í rauninni sammála um --- og það vitna nefndarálit bæði meiri hluta og minni hluta um --- að fyrir lá að Ísland þurfti, samkvæmt þjóðréttarlegri skuldbindingu sem gengist var undir í EES-samningunum, að innleiða Evróputilskipun 91/67 í íslenska löggjöf. Tilskipunin tekur til skilyrða á sviði heilbrigðis tiltekinna eldisdýra sem hafa áhrif á markaðssetningu fiskeldistegunda og afurða þeirra á EES-svæðinu. Innleiðing þessi hefur óhjákvæmilega kallað eftir lagaabreytingum og aðlögun að samræmdum reglum á EES-svæðinu og hefur það verkefni ekki bara fallið í mitt skaut, heldur ríkisstjórnarinnar og síðustu vikur hefur Alþingi Íslendinga tekið við því verkefni sem löggjafarþing þjóðarinnar.

Hér hefur verið spurt: Hvers vegna var þetta ekki löngu búið? Mér finnst það mjög eðlileg spurning hjá hv. þingmönnum. Í fyrsta lagi höfðum við árum saman undanþágu frá þessu ákvæði og fengum hana alltaf upp tekna að nýju, undanþáguna. En undanþágur hafa þau örlög að þeim tíma hlýtur að ljúka. Sannarlega var það svo að sá landbrh. sem hér stendur batt vonir við að þessi undanþága fengist áfram. Það er rétt að það sýndist undir lok síðasta þings, ekki vorþingsins eða aukaþingsins eftir kosningarnar heldur hins, að heldur drægi úr þeim líkum. Í samstarfi þjóðanna og í kringum Evrópusambandið og EES-samninginn hefur það oft skipt miklu máli þegar mál er komið fyrir þingið, þá hægir á þeim. Þá gera þeir sér grein fyrir því að það er vilji ríkisstjórnarinnar að klára málið og þingið er tekið við.

Ég taldi á þeim tíma að þó að þetta þing afgreiddi ekki málið og það lægi í nefnd, af því að það var umdeilt, að viðurkenning fengist á því að stjórnvöld ætluðu að uppfylla þessa tilskipun og viljinn væri sá, það þyrfti tíma til þess að vinna það áfram. En á það var ekki hlustað og í júní gerist það að markaðir lokast og okkur er stefnt fyrir dómstóla, þrátt fyrir að málið sé komið fyrir þingið, hafi legið þar og verði að taka það upp aftur. Þess vegna varð það niðurstaðan að bráðabirgðalögin voru sett um þessa tilskipun sem menn eru sammála um að þurfti að uppfylla.

Auðvitað geta menn spurt: Af hverju kom landbrh. ekki með málið á aukaþingið í vor? Ég svara því svo til að trú mín á að við fengjum undanþáguna áfram var eitt atriði sem ég hafði enn í huga, en ekki síður það að ég taldi að með því að málið væri komið fyrir þingið, búið að fara í gegnum ríkisstjórn sem sæti áfram, gæti málið beðið hausts. Niðurstaðan var önnur. Ég held að það sé enginn vafi, þó að hv. þm. geri heldur lítið úr hagsmununum, að hagsmunirnir voru margvíslegir, bæði skaði fyrirtækja og staða Íslands og kannski áhrif þess að koma fyrir dómstóla og fá á sig dóm, og hér væri heilbrigðisástand í perlunni sjálfri, eins og ég hef sagt, ekki metið með þeim hætti að það væri í lagi. Það væri mjög alvarlegur hlutur. Þetta varð því niðurstaða ríkisstjórnarinnar, að setja bráðabirgðalögin og kalla ekki saman þing í haust. Um það má eðlilega deila eins og kemur fram hjá þingmönnum og ýmsir prófessorar og lögfræðingar segja að þetta hafi verið á mörkunum. Takmarkað tilvik, segir prófessor Eiríkur Tómasson og lögfræðingur, Ragnhildur Helgadóttir, kemst að þeirri niðurstöðu að fyrir dómstólum mundi þessi gjörð ríkisstjórnarinnar standast þó að hún segi svo í hinu atriðinu að alltaf geti leikið vafi á því eins og við vitum. Dómstóll er dómstóll. En hverjir ætluðu að fara að kæra það? spyr ég. Þetta var niðurstaða ríkisstjórnarinnar og málið var lagt fram með sterkum rökum fyrir forsetann og hann skrifaði undir þessi bráðabirgðalög og þau blasa nú við. Ég vil svara þessari spurningu með þessum hætti.

Ég vil líka segja um þetta atriði að ég hef aldrei sagt og mun aldrei segja, frekar en starfsmenn mínir í landbrn. að hugsanlegur innflutningur á lifandi laxfiski sé hættulaus. Það segja ekki heldur fiskeldismennirnir. Það hefur enginn sagt. Slíkur innflutningur getur vitaskuld verið hættulegur ef ekki er farið að ströngustu skilyrðum. Það segir sig sjálft að íslenskar laxveiðiár væru í minni hættu, hæstv. forseti, ef ekkert fiskeldi hefði þróast hér, engin fiskeldisdýr væru til staðar í landinu, og bann ríkti á að erlendir veiðimenn kæmu til landsins með tæki sín og tól, sem að vísu er lagður mikill kostnaður í að sótthreinsa í Keflavík. Í veruleikanum verður áhættuþáttum aldrei eytt, en leitast verður við að stjórna þeim svo hugsanlegar áhættur í sambýli manns og náttúru geti talist ásættanlegar.

Þegar ég tók við starfi sem landbrh. árið 1999 var búið að flytja til landsins norskan eldislax. Það var gert 1984 af fyrirtækinu Ísnó hf. en fyrirtækið hóf laxeldi í sjókvíum í Lóni í Kelduhverfi árið 1987. (Gripið fram í: Hver var ráðherrann?) Sú ákvörðun markaði tímamót --- það var hv. dr. Össur Skarphéðinsson, ungur maður sem hafði mikla atvinnu af fiskeldi (Gripið fram í: Og er enn ungur.) og er enn ungur. Þetta var nýr framandi stofn af erlendum uppruna sem var fluttur inn í íslenska náttúru sem grunnur að nýjum atvinnuvegi, einkum fyrir landsbyggðina. Fiskeldi með Kollafjarðarstofni eða blönduðum íslenskum stofnum var þá á útleið.

Sannleikurinn er sá að þessi norsk/íslenski stofn sem við nefnum svo í dag er talinn besti fiskeldisstofn í heimi og það er mikið hagsmunamál fiskeldismannanna, ekki síður hvað varðar hinar frjálsu veiðiár, að menn standi á bremsunni og séu ekki í óþarfa innflutningi. Þess vegna fagna þeir öllum þeim tækjum og tólum sem hægt er að hafa til þess að bremsa af ef það kæmi til. Þeirra hagsmunamál er að halda þessum hreina laxeldisstofni hér sem afurð til útflutnings á hrognum og sviljum og til notkunar í þeim fáu fjörðum sem landbrh. hefur gefið leyfi fyrir að þessi atvinna megi fara fram.

Það má segja að Alþingi hafi lagt heilmikið á sig til þess að rækta þennan stofn. Árið 1991, í tíð þáv. landbrh., hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar, var gerður samningur um að 15 millj. kr. á ári í fimm ár skyldu lagðar í það að rækta þennan stofn upp, 75 millj. kr. Síðar varð þetta ríkisfyrirtæki og hlutur ríkisins seldur út til bisnessmanna til þess að efla fiskeldi sem atvinnugrein. Ég er ekkert viss um að menn hafi talið að einhvern tíma ætti fiskurinn að fara ofan í sjóinn. Menn héldu kannski að það væri hægt að reka fiskeldi sem strandeldi.

Ég stóð frammi fyrir þessu öllu þegar ég varð ráðherra og við blasti nýr sóknartími í fiskeldi, vilji athafnamanna til að fara í laxeldi í sjó og ekki síður góður árangur og væntingar í eldi bleikju sem og sjávarfiska. Það var uppi áhugi á Hvalfirði, Faxaflóa og fleiri stöðum. Þegar óskir komu fram um heimildir til að ala lax af norskum uppruna í sjókvíum við strendur landsins ákvað ég að skipa nefnd til að fara yfir sambýli villtrar náttúru og fiskeldis. Farið var yfir lagalega stöðu fiskeldis, sögu þess og hugsanlega framtíðarstaðsetningu þess. Í ljós kom m.a. að laxeldi í sjókvíum hafði ekki einungis verið stundað í Lóni í Kelduhverfi, heldur víða um landið, svo sem í Eyjafirði og á Austfjörðum. Þá kom einnig í ljós að löggjöfin hafði verið fátækleg og ekki gefið yfirvöldum svigrúm til að hafa afgerandi áhrif á mótun atvinnugreinarinnar. Í þessa vinnu var ráðist og lögunum breytt og Alþingi kom að þessum málum á öllum sviðum og tók þátt í þessari vinnu og þakka ég það.

[16:45]

Ekki er leyfilegt að hefja fiskeldi án starfsleyfis frá Umhverfisstofnun og rekstrarleyfis frá veiðimálastjóra. Því fer fjarri að allt hugsanlegt eldi geti hlotið starfsleyfi en í því ferli er m.a. hægt að horfa til erfða- og vistfræðilegra þátta. Öll fiskeldisstarfsemi krefst einnig rekstrarleyfis, en í því ferli er m.a. lagt mat á hættuna á sjúkdómum, erfðablöndun og neikvæðum vistfræðilegum áhrifum. Starfsleyfi er forsenda rekstrararleyfis og hægt er að svipta menn rekstrarleyfi, t.d. vegna ítrekaðra slysasleppinga.

Óheimilt er með öllu að flytja laxfiska úr eldisstöð í náttúrulegt veiðivatn. Það er bannað að nota kynbættan eldislax til annars en fiskeldis. Enn fremur hefur sá sem hér stendur víðtækar heimildir til að takmarka eða banna fiskeldi, hafbeit eða ákveðnar eldisaðferðir í einstaka fjörðum, flóum eða landsvæðum sem teljast sérlega viðkvæm fyrir slíkri starfsemi. Slíkar ákvarðanir taka mið af því markmiði að vernda og hlífa villtum laxfiskastofnum við erfðablöndun, fisksjúkdómum og neikvæðum vistfræðiáhrifum. Þessa heimild laganna hef ég nýtt mér í auglýsingu nr. 226/2001 og takmarkað eldi frjórra laxa í sjókvíum við fáa langa og djúpa firði fyrir austan og vestan, fjarri bestu laxveiðiánum. Ég vildi ekki að eldiskví væri til staðar í árósum bestu veiðiánna.

Þingmönnum til upplýsingar er hér teikning af því hvernig landinu er nánast lokað fyrir fiskeldi. Þetta eru örfáir firðir á Austfjörðum fjarri bestu laxveiðiánum og síðan á Vestfjörðum. Suðurströndin er að vísu auð en ég hygg að engum detti í hug, á hinni sendnu suðurströnd, að fara í kvíaeldi nema þá væri undir Heimakletti, sem menn fengu leyfi til á sínum tíma en hafa horfið frá. Sáttin snýr að því að menn hafa fengið örfáa djúpa firði til að nota undir fiskeldið. Það strangt hefur verið farið að þessu.

Hæstv. forseti. Að loka heilu landsvæðunum fyrir fiskeldi hefur vakið heimsathygli. Það hefur vakið heimsathygli hversu mikla varkárni við höfum sýnt þrátt fyrir að vísindamenn greini á um þá erfðablöndun sem rætt er um. Það kom glöggt fram í gær. Þar kom líka fram, t.d. með hinar frjálsu fiskveiðiár, að erfðablöndunin á fiski sem villist og fer upp í aðra á en sína eigin getur verið til gagns í ánni. Þar kemur nýr stofn, blandast og styrkir fiskinn. Þetta þekkjum við glöggt úr búfræðinni, t.d. þegar menn kaupa hrút úr næstu sveit í kynbótabúið sitt. En við viljum ekki að eldisfiskurinn sé á flandri í hafinu. Þess vegna var þetta takmarkað með þessum hætti.

Að gera kröfur um að eitt af hverjum 10 seiðum skuli merkt í fiskeldi þykir afar athyglisvert. Að slátra eldisfiski áður en hann verður kynþroska er mikilvægt, en nú mun aðeins 1% fisks í Mjóafirði frjór við slátrun og eru það nánast eingöngu hængar. Um allt sjókvíaeldi gilda gríðarlega strangar reglur um allt svið starfseminnar, í búnaði, frágangi, og umgengni allri.

Mitt hlutskipti hefur verið, að hafna í stórum stíl beiðnum um innflutning á dýrum, þar með talið fiskum. Þannig verður það ábyggilega hjá landbrh. um alla framtíð. Það er íslenskri náttúru mjög mikilvægt og þetta hef ég gert samkvæmt lögum frá Alþingi til að vernda íslenska náttúru og heilbrigði dýrastofna á láði og legi.

Herra forseti. Ég vil minnast á það sem fram kom í ræðu hv. þm. Jóns Gunnarssonar. Ég hef ekki farið yfir þann útreikning sem hann var með en eitt er víst, að eini skaðinn sem orðið hefur á fiskeldi í Mjóafirði voru marglyttur sem komu þar upp og drápu fisk í stórum stíl í fyrra. Ég hygg að allir harmi það. Ég kom þar austur í sumar þegar þeir voru að búa sig undir að verjast marglyttunni, íslenskir vísindamenn og þessir athafnamenn. Auðvitað sá ég hve rammlega þeir höfðu byggt upp fiskeldi sitt. Það liggur fyrir og er ekki enn véfengt að enginn fiskur hefur enn sloppið út úr þessu kvíaeldi. Fiskeldismenn vilja fá að byggja það þannig upp að það standist og fiskar sleppi ekki út. Það er mjög mikilvægt.

Auðvitað geta slys átt sér stað. Ég hef aldrei útilokað það. Slysið sem varð í haust þegar þrjú þúsund fiskar sluppu út á Neskaupstað þegar þeir voru færðir til slátrunar í sjókví var hræðilegt slys og ég hef gagnrýnt það. Þannig verður það ekki áfram af hálfu fiskeldismannanna, þeir munu héðan í frá setja fiskinn beint á land.

Ég mun hins vegar fara yfir þær tölur sem hv. þm. nefndi og vitna til marglyttunnar sem kom upp.

Ágætu þingmenn. Ég vil að lokum þakka þessa umræðu. Ég tók þátt í þessari umræðu við 1. umr. þegar ég flutti málið. Þá flutti ég líka langa og ítarlega ræðu. Ég hef aldrei skorast undan því að taka þátt í rökræðum um þetta mál. Mér er það mikið mál, eins og ég hygg flestum þingmönnum, að reyna að búa til þannig aðstæður að áhættan gagnvart hinum frjálsu veiðiám, þeirri auðlind, sé lágmörkuð um leið og við gefum fiskeldi á Íslandi tækifæri til að þróast. Við erum á sumum sviðum mjög framarlega. Ég hygg að við séum fremstir í bleikjueldi í veröldinni. Við erum að ná miklum tökum á lúðueldi og allt það sem menn hafa verið að gera í Mjóafirði og Berufirði lofar góðu um framtíðina. Það er gott að eiga þingið að til að fara yfir þessi mál og áminna landbrh. um það.

Ég geri mér grein fyrir því að hér hefur margt verið sagt í dag, margt satt og rétt og einnig margt sem orkaði tvímælis. Margt sneri að þeirri pólitísku íþrótt að finna ríkisstjórn allt til foráttu. Það er hlutverkið. Margt sýndi að þingmenn skilja það sem þeir vilja og útbúa farvegi fyrir skilning sinn. Við því er ekkert að segja.

Ég vil að lokum þakka hv. alþingismönnum þessa umræðu og þakka landbn. sérstaklega hennar vinnu. Hún kemur fram með nokkrar brtt. Sex þeirra eru auðvitað fegrunaraðgerðir og til lagfæringa og tek ég undir það allt saman. Þingið hefur miklu hlutverki að gegna í mínum huga. Það er mikill öryggisventill og ég þakka það. Nefndin kemur og með mikið öryggisákvæði inn í málið. Ég fagna því. Ég fagna öllu sem er til bóta í þessu máli og þakka það. Eins þakka ég umhvn. hvernig hún hefur komið að þessu máli. Um það er ekkert nema gott að segja. Mér finnst þetta prýðilegt, hafi ég sjálfur sett á mig beltið, axlaböndin og snærisspottann, að vera nú kominn með kút og kork til viðbótar, eins og komið hefur fram í þessari umræðu. Þá sjá hv. þm. að málið er komið í nokkuð örugga höfn og íslenskum hagsmunum vel borgið.

Ég fullyrði að ég vil standa faglega að þessu máli og standa vörð um íslenska náttúru, íslenskt heilbrigði og íslenska stofna, hvort sem þeir eru á láði eða legi, að þeir megi verða komandi kynslóðum arður og atvinna í framtíðinni.

Fiskeldið hefur verið gagnrýnt og menn sett hornin í það en ég veit að þeim er við það vinna er það jafnmikið verkefni að halda því heilbrigðu, láta það heppnast og byggja það upp af rökvísi eins og fram kom á þeim góða fundi sem við áttum saman, ég og hv. þm. Össur Skarphéðinsson, með Stangaveiðifélagi Reykjavíkur í gær. Sá fundur verður mér eftirminnilegur fyrir margar sakir og saknaði ég þess að allur þingheimur skyldi ekki sækja þennan fund sem gott námskeið í þessu verkefni.