Lax- og silungsveiði o.fl.

Fimmtudaginn 06. nóvember 2003, kl. 16:53:19 (1360)

2003-11-06 16:53:19# 130. lþ. 22.6 fundur 111. mál: #A lax- og silungsveiði o.fl.# (staðfesting bráðabirgðalaga) frv. 116/2003, Frsm. minni hluta LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur, 130. lþ.

[16:53]

Frsm. minni hluta landbn. (Lúðvík Bergvinsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er mér sérstök ánægja að fá í annað sinn á tveimur dögum að hlýða á sömu ræðu hæstv. ráðherra. Ég sat þann fund sem hæstv. ráðherra vitnaði til í gær. Þar flutti hann nokkurn veginn sömu ræðu að undanskildu því --- það ber að telja hæstv. ráðherra til tekna --- sem hann viðurkenndi nú í ræðu sinni, að bráðabirgðalagasetningin hefði fyrst og fremst komið til af því að þrýstingur myndaðist frá fyrirtækjum í útflutningi á að gripið yrði til þessara aðgerða. Eina röksemdin fyrir setningu bráðabirgðalaganna var fjárhagslegs eðlis og hæstv. ráðherra stóð ekki í lappirnar þegar þrýstingur kom á hann á miðju sumri að setja þau lög sem við nú ræðum.

Virðulegi forseti. Bráðabirgðalögin sem sett voru í sumar eiga sér enga hliðstæðu í réttarsögunni og eiga sér enga hliðstæðu í þingsögunni. Menn hafa aldrei sett slík lög af jafnlitlu tilefni og raun ber vitni. Af þeim sökum er ekkert fordæmi fyrir lagasetningu af þessu tagi til að styðjast við. Það hefur verið leitt fram með mjög skýrum hætti að þessir fjárhagslegu hagsmunir reyndust mjög litlir og réttlættu á engan hátt að til þessarar bráðabirgðalagasetningar yrði gripið.

Ég vil því segja, virðulegi forseti, að það var ærlegt af hæstv. ráðherra að koma og gera skýrt og skilmerkilega grein fyrir því hvers vegna þessi bráðabirgðalög voru sett.