Lax- og silungsveiði o.fl.

Fimmtudaginn 06. nóvember 2003, kl. 16:57:48 (1362)

2003-11-06 16:57:48# 130. lþ. 22.6 fundur 111. mál: #A lax- og silungsveiði o.fl.# (staðfesting bráðabirgðalaga) frv. 116/2003, Frsm. minni hluta LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur, 130. lþ.

[16:57]

Frsm. minni hluta landbn. (Lúðvík Bergvinsson) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hinar þjóðréttarlegu skuldbindingar sem hæstv. landbrh. vísar til höfðu legið fyrir í eitt og hálft ár. Þær komu ekki óvænt upp. Ekkert í þeim gerði það að verkum að grípa þyrfti til bráðabirgðalaga á þessum tímapunkti. Það eru allir meðvitaðir um. Við vitum einnig að þó að málið hefði dregist þar til þing kom saman 1. okóber þá hefði það ekki breytt neinu.

Hið eina óvænta sem kom upp og hið eina sem skýrir að gripið var til þess óyndisúrræðis í sumar af jafnlitlu tilefni og raun ber vitni var að hæstv. landbrh. lá undir þrýstingi frá tveimur fyrirtækjum sem leiddi til þess að gripið var til þessara aðgerða.

Hæstv. landbrh. og ríkisstjórnin í heild sinni skirrtist ekki við að ganga á ystu nöf, að mínu mati fram af bjargbrún, hvað varðaði umgengni við 28. gr. stjórnarskrárinnar.

Ég vil ítreka það sem hér hefur komið fram, virðulegi forseti, að ég harma að hæstv. landbrh. hafi ekki vandað sig betur í verkum sínum í sumar.