Lax- og silungsveiði o.fl.

Fimmtudaginn 06. nóvember 2003, kl. 17:04:22 (1366)

2003-11-06 17:04:22# 130. lþ. 22.6 fundur 111. mál: #A lax- og silungsveiði o.fl.# (staðfesting bráðabirgðalaga) frv. 116/2003, landbrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur, 130. lþ.

[17:04]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta er rétt hjá hv. þm. Hver samtíð á sinn tíðaranda. Ég hygg að það hafi verið viðhorf margra að strandeldi gæti gengið. Það fór hér kollhnís, því miður. Það heppnaðist ekki, gekk ekki. Það er ekki talið í fiskeldi samkeppnisfært í veröldinni þannig að þá fóru menn að horfa á nýjar leiðir og þess vegna fara menn með nýja tækni og nýja staðla til að byggja eftir ofan í þessa firði.

Við stöndum frammi fyrir því, eins og ég rakti í ræðu minni í dag, að við höfum flutt þennan norska stofn inn. Hann er erlendur stofn. Við erum í fiskeldi o.s.frv. En það er alveg ljóst að í því sem hér er verið að lögfesta er fólgin mikil varúðarregla og miklir möguleikar til þess að vernda Ísland fyrir sjúkdómum og svo skiptir máli öryggisákvæðið sem hér er sett inn um erfðablöndunina. Hv. þm. segir: ,,Við viljum ekki innflutning.`` Ég hygg að staðan sé sú hjá t.d. fiskeldismönnunum að þeir trúa á þennan norsk-íslenska stofn sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon kynbætti. Hann er ræktunarmaður. Þeir trúa á þann stofn og þeir ætla svo sem ekkert að vera að flytja inn annan stofn. Ég er ekkert viss um að neinn annar ætli að flytja inn neinn annan stofn því að eins og ég rakti í ræðu minni þá er þetta einn heilbrigðasti laxeldisstofn í veröldinni og það eru þeirra hagsmunir að ekki komi sjúkdómar í hann.

Ég vil að lokum þakka hv. þingmönnum umræðuna og málefnalega niðurstöðu og ég vil segja á mörgum sviðum þá samstöðu sem hér er skapast um þetta mál.