Viðbótarsamningar við Norður-Atlantshafssamninginn

Fimmtudaginn 06. nóvember 2003, kl. 17:18:00 (1370)

2003-11-06 17:18:00# 130. lþ. 22.7 fundur 249. mál: #A viðbótarsamningar við Norður-Atlantshafssamninginn# þál., utanrrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur, 130. lþ.

[17:18]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Frú forseti. Með þáltill. þessari er leitað heimildar Alþingis til að fullgilda sjö viðbótarsamninga við Norður-Atlantshafssamninginn um aðild Búlgaríu, Eistlands, Lettlands, Litháens, Rúmeníu, Slóvakíu og Slóveníu sem gerðir voru 26. mars 2003.

Samkvæmt I. gr. samninganna skal framkvæmdastjóri Norður-Atlantshafsbandalagsins bjóða ríkisstjórnum ríkjanna sjö að gerast aðilar að Norður-Atlantshafssamningnum þegar viðbótarsamningarnir hafa öðlast gildi. Kveðið er á um að ríkin verði aðilar að Norður-Atlantshafssamningnum þann dag sem þau afhenda ríkisstjórn Bandaríkjanna aðildarskjöl sín.

Í II. gr. viðbótarsamninganna er kveðið á um að þeir öðlist gildi þegar allir aðilar Norður-Atlantshafssamningsins hafa tilkynnt ríkisstjórn Bandaríkjanna um samþykki sitt á þeim.

Atlantshafsbandalagið hefur frá upphafi verið eina öryggisstofnun Evrópu sem hefur haft bolmagn til að tryggja öryggi í álfunni og takast á við þær ógnir og hættur sem steðjuðu að á hverjum tíma. Ásókn nýrra aðildarríkja í Atlantshafsbandalagið undirstrikar gildi þess og áframhaldandi mikilvægi. Stefnt er að því að aðildarríkjunum fjölgi nú í einu vetfangi úr 19 í 26.

Þau ríki sem nú ganga til liðs við bandalagið hafa unnið að því hörðum höndum að gerast aðilar og lagt á það mikla áherslu á umliðnum árum. Íslensk stjórnvöld hafa ætíð stutt stækkun bandalagsins og þann rétt fullvalda ríkja til að velja sjálf hvaða stofnanir þau kjósa aðild að til að tryggja hagsmuni sína. Við höfum lagt okkur fram við að styðja þann einarða ásetning Eystrasaltsríkjanna, Eistlands, Lettlands og Litháens, að gerast aðilar að bandalaginu.

Stækkun Atlantshafsbandalagsins er fyrst og fremst ætlað að tryggja stöðugleika og öryggi í Evrópu. Jafnframt því að bjóða nýjum ríkjum aðild að bandalaginu hefur samstarf við ríki utan þess verið eflt jafnt og þétt með friðarsamstarfinu og Evró-Atlantshafssamstarfsráðinu. Þrátt fyrir að ekkert ríki utan bandalags geti haft áhrif á ákvarðanir um fjölgun aðildarríkja hélst vaxandi áhersla á samskiptin við Rússland í hendur við áform um frekari stækkun. Mörgum er kunnugt um að Rússar voru lengi andvígir stækkun bandalagsins og þó einkum og sér í lagi útvíkkun þess til Eystrasaltsríkjanna. Nú hafa efasemdarraddir þeirra þagnað og er víst að þar skiptir mestu stórbætt og nánara samstarf við Rússland innan NATO-Rússlandsráðsins sem grunnur var lagður að á fundi bandalagsins í Reykjavík vorið 2002. Það er einstaklega ánægjulegt að verða vitni að því hversu náið og gott samstarf er orðið milli Atlantshafsbandalagsins og Rússlands sem menn hefðu ekki spáð fyrir aðeins nokkrum árum.

Þó að sú stækkun sem nú stendur fyrir dyrum sé sú umfangsmesta í sögu bandalagsins var leiðin vörðuð með aðild fyrstu fyrrum aðildarríkja Varsjárbandalagsins, þ.e. Póllands, Tékklands og Ungverjalands, árið 1999. Á leiðtogafundi Atlantshafsbandalagsins í Prag haustið 2002 var enn á ný tekin ákvörðun um stækkun í samræmi við þá stefnu bandalagsins að það stæði opið öllum lýðræðisríkjum í Evrópu. Öll ríkin sjö hafa frá árinu 1999 tekið þátt í svonefndri aðgerðaáætlun bandalagsins til undirbúnings aðildar ásamt Makedóníu og Albaníu, og á fundinum í Reykjavík var Króatíu jafnframt boðið að slást í hóp umsóknarríkja.

Aðgerðaáætlunin er til þess gerð að aðstoða umsóknarríkin við undirbúning aðildar. Lögð er rík áhersla á að ríkin geti sýnt fram á að ýmsar pólitískar, efnahagslegar og hernaðarlegar umbætur hafi farið fram. Miklu varðar einnig að leyst hafi verið úr útistandandi ágreiningsmálum við nágrannaríki og ekki sé troðið á réttindum minnihlutahópa í ríkjunum. Atlantshafsbandalagið og aðildarríki þess hafa lagt sig fram við að aðstoða ríkin með ýmsum hætti í því umbótastarfi sem nú stendur yfir. Þó ber að undirstrika að þegar ákvörðun var tekin um stækkun bandalagsins var sú ákvörðun fyrst og fremst pólitísk og tekin í ljósi þess öryggisumhverfis sem við blasti.

Þrátt fyrir að Atlantshafsbandalagið hafi nú um sinn fyrst og fremst sinnt friðargæslu og átakavörnum utan aðildarríkja, m.a. á Balkanskaga og nú síðast í Afganistan, er bandalagið enn sem fyrr fyrst og fremst varnarbandalag þeirra ríkja sem að því eiga aðild. Sameiginlegar varnarskuldbindingar bandalagsins eru ein helsta ástæða þess að ríkin sjö sækjast eftir aðild.

Forsenda aðildarríkjanna sjö, eins og annarra aðildarríkja, er að sjálfsögðu sú að þau geti lagt af mörkum til verkefna bandalagsins. Meðfram stækkun hefur bandalagið unnið að því að verða betur í stakk búið til að mæta nýjum ógnum sem steðja að. Þannig mun stækkun verða til þess að bandalagið getur betur en áður beitt sér í baráttunni gegn alþjóðlegri hryðjuverkastarfsemi og útbreiðslu gereyðingarvopna. Með aðild ríkjanna sjö getum við þannig betur tryggt frið og öryggi á öllu Evrópu-Atlantshafssvæðinu og tekist betur á við utanaðkomandi ógnir.

Það má geta þess að lokum að ellefu aðildarríki hafa þegar staðfest viðbótarsamningana en áætlað er að ferlinu verði lokið fyrir leiðtogafund bandalagsins næsta sumar.

Ég vil að lokinni þessari umræðu, frú forseti, leggja það til að þessari þáltill. verði vísað til hv. utanrmn.