Viðbótarsamningar við Norður-Atlantshafssamninginn

Fimmtudaginn 06. nóvember 2003, kl. 17:26:27 (1371)

2003-11-06 17:26:27# 130. lþ. 22.7 fundur 249. mál: #A viðbótarsamningar við Norður-Atlantshafssamninginn# þál., ÖS
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur, 130. lþ.

[17:26]

Össur Skarphéðinsson:

Frú forseti. Ég vil fyrir hönd Samf. lýsa fullu samþykki við þá till. til þál. sem hér liggur fyrir. Mér er það reyndar ljúft og skylt, frú forseti, að lýsa því sérstaklega að það er mér mikil ánægja að sjá það gerast loksins að ríkin þrjú, Eystrasaltsríkin Eistland, Lettland og Litháen, verða tekin inn í Atlantshafsbandalagið.

Ég minnist þess að mörgum sinnum á síðasta áratug kom ég í þennan ræðustól til þess að knýja á um það að íslensk stjórnvöld styddu viðleitni þessara ríkja --- vilji þeirra var þá að fullu fram kominn --- til þess að verða aðilar að Atlantshafsbandalaginu. Reyndar kom margoft fram í máli mínu og félaga minna, jafnaðarmanna, að við töldum að íslensk stjórnvöld og reyndar önnur stjórnvöld í grannlöndunum ættu að styðja, ekki bara við þessa viðleitni þeirra heldur líka að ýta undir möguleikann á því að þessi ríki gætu orðið fullgildir aðilar að Evrópubandalaginu. Hvort tveggja var pólitísks eðlis miklu frekar en varnarlegs, ef svo má að orði kveða. Þessi ríki höfðu verið í skugga Sovétríkjanna sem hrundu nánast með Berlínarmúrnum 1989, hjörðu að vísu eitthvað fram eftir. Það var alveg ljóst að ríkin þrjú töldu að hag sínum og heill væri miklu betur borgið undir væng Atlantshafsbandalagsins og töldu mikla vörn fólgna í þeirri aðild til framtíðar horft. Þá, eins og nú, ber að undirstrika að það sem skiptir öllu máli er auðvitað sjálfsákvörðunarréttur þessara ríkja.

Ég rifja það upp að ekki tóku allir í stjórnarandstöðunni á þeim tíma undir þennan málflutning minn.

Frú forseti. Ég tel að með þeim breytingum sem nú eru að verða með stækkun Atlantshafsbandalagsins séum við kannski komin í það sem kalla má næstsíðasta fasa þess umbreytingaskeiðs sem hófst með falli Berlínarmúrsins og síðar niðurlagningu Sovétríkjanna. Það er auðvitað sögulega skondið að sjá að tólf af þeim ríkjum sem áður voru með einhverjum hætti í skugga Varsjárbandalagsins hafa lýst yfir vilja til að sækja um og eru að verða aðilar að Atlantshafsbandalaginu.

Sömuleiðis var fróðlegt að heyra hjá hæstv. utanrrh. af samþættingunni í kjölfar Reykjavíkurfundarins þegar samstarfsráð bandalagsins og Rússlands var formgert með þeim hætti sem nú er orðið. Það er dálítið gaman um þessar mundir að koma í höfuðstöðvarnar í Brussel og sjá að annar hver maður þar á göngunum er rússneskur generáll.

Svona hafa tímarnir breyst og þetta er ákaflega jákvætt, frú forseti. Íslendingar eiga með öllu afli að taka þátt í þessum breytingum og ýta undir þær. Ég tel sjálfur að eðli NATO, eðli Atlantshafsbandalagsins, sé allverulega breytt frá því sem áður var. Það er þannig í dag að þó að, eins og hæstv. ráðherra segir, það sé í eðli sínu varnarbandalag þeirra ríkja sem aðild eiga að því er það orðið annað og meira í dag. Það sinnir friðargæslu langt út fyrir landamæri þeirra ríkja sem standa að Atlantshafsbandalaginu. Sem ég stend hér, frú forseti, rifjast það upp fyrir mér að hér stóð einu sinni maður sem var formaður stjórnmálaflokks sem nú er aðili að þeim stjórnmálaflokki sem ég veiti forstöðu og lýsti því árið 1993 að hann sæi fyrir sér breytingar á hlutverki Atlantshafsbandalagsins. Það mundi verða friðargæslubandalag og hugsanlega í framtíðinni eins konar friðararmur Sameinuðu þjóðanna. Ekki hefur það nú alveg gerst, frú forseti, en hins vegar hefur mjög horft til friðvænlegrar áttar í heiminum. Í því hefur Atlantshafsbandalagið og sú friðargæsla sem það hefur tekið að sér átt mikinn þátt.

Frú forseti. Ég vil segja það að mér sýnist sem veröldin sé öll önnur en hún var þegar við ræddum þetta stækkunarferli fyrst hér í hinum virðulegu sölum hins háa Alþingis. Ég tel að þau ríki sem áður voru innan Varsjárbandalagsins eða lifðu í skugga þess séu sjálf í reynd að setja endapunktinn á bak við umbreytingaferlið með því að æskja aðildar að Atlantshafsbandalaginu og Evrópusambandinu. Gleymum því ekki, frú forseti, að Evrópusambandið, alveg eins og Atlantshafsbandalagið, var líka á sínum tíma fyrst og fremst sett upp til að stuðla að friði og öryggi í álfunni. Reyndin er sú að aldrei hefur verið friðsælla í okkar heimshluta en núna.

Það eru svo viðsjár uppi í okkar eigin öryggismálum. Hæstv. utanrrh. lýsti því sjálfur fyrr á þessu ári þegar Bandaríkjamenn komu fram með sínar óbilgjörnu óskir í aðdraganda kosninga. Hhæstv. ráðherra ræddi það reyndar síðar því að við fengum ekki að vita um það strax. Þá orðuðu forustumenn ríkisstjórnar það með þeim hætti að ekki væri hægt að gera ráð fyrir að hér yrði um aldur og ævi lið á vegum Atlantshafsbandalagsins eða í krafti hins tvíhliða varnarsamnings sem við höfum gert við Bandaríkin.

Ég er sammála forustumönnum ríkisstjórnar um það. Það er þess vegna sem við í Samf. höfum ítrekað bent á að það er með forsjá sem við horfum til breytinga sem eru að verða á Evrópusambandinu. Það er með tilliti til öryggishagsmuna Íslendinga sem við hljótum að skoða það nánar að Íslendingar sæki um aðild að Evrópusambandinu. Í því eru líka fólgnir öryggishagsmunir, frú forseti.

Það er hins vegar þannig, virðulegi forseti, að allt of sjaldan eru til umræðu þeir þættir sem tengjast Evrópusambandinu.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu. Ég vil þakka hæstv. utanrrh. fyrir að koma loksins með þessa till. til þál. fyrir þingið. Ég rifja það upp að hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson innti eftir því nýlega hvenær menn ætluðu sér að leggja þetta fyrir, nú er það komið og Samf. styður málið algerlega.