Viðbótarsamningar við Norður-Atlantshafssamninginn

Fimmtudaginn 06. nóvember 2003, kl. 17:42:44 (1374)

2003-11-06 17:42:44# 130. lþ. 22.7 fundur 249. mál: #A viðbótarsamningar við Norður-Atlantshafssamninginn# þál., EKH
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur, 130. lþ.

[17:42]

Einar Karl Haraldsson:

Hæstv. forseti. Staðfesting sjö viðbótarsamninga við Norður-Atlantshafssamninginn er staðfesting á miklum pólitískum tíðindum sem hafa orðið í álfunni og eru mikið fagnaðarefni og til þess fallin að stuðla að friði og öryggi í heimshluta okkar. Ég stend hér upp aðallega til að vekja athygli á þeirri staðeynd að þessi sjö ríki sem nú verða tekin inn í Norður-Atlantshafssamninginn hafa öll talið sig þurfa tvöfalda aðlögun að Evrópusamrunanum, þ.e. bæði þátttöku í NATO og Evrópusambandinu. Ástæða er fyrir okkur að hugleiða hvers vegna þau ríki telja sig þurfa aðlögun og þátttöku í báðum þessum samtökum.

Í því sambandi var athyglisvert að hlusta á Alyson J.K. Bailes, forstöðumann SIPRI, alþjóðlegu friðarrannsóknarstofnunarinnar í Stokkhólmi, sem var hér á fundi 25. júní sl. Þar gerði hún að umræðuefni þær áherslubreytingar sem hefðu orðið innan NATO. Hún sagði að meiri háttar og líklega óafturkræf skref hefðu verið tekin burt frá gagnkvæmum varnarskuldbindingum innan NATO.

Á árinu 2002 hefðu verið teknar ákvarðanir og stefna mótuð þar sem aðaláherslan í vopnaviðbúnaði og öðrum athöfnum sambandsins væri nú af afskiptum af hættuástandi utan NATO-svæðisins og þetta er m.a. að kröfu Bandaríkjanna. Hún sagði svo orðrétt, með leyfi forseta:

,,Það lítur út fyrir að hlutverk NATO sé að breytast frá því að vera aflstöð pólitískrar samstöðu og sameiginlegrar stefnu í það að vera verkfærakassi sem hægt er að grípa til tóla úr þegar pólitísk skilyrði til þess að nota þau hafa verið sköpuð annars staðar.``

,,Annars staðar`` er í þessu tilfelli innan Evrópusambandsins og stjórnar Bandaríkjanna, þ.e. að þar fari fram samráð í öryggismálum og stefnumótun sem síðan er framfylgt á vettvangi NATO. Þetta telur hún einmitt ástæðuna fyrir því að nýju ríkin svokölluðu telja sig þurfa tvöfalda aðlögun.

Á margan hátt er það umhugsunarefni fyrir okkur, eins og hv. þm. Össur Skarphéðinsson nefndi áðan, hvort aðild að Evrópusambandinu mundi ekki einmitt tryggja okkur betur en nú er gert aðild að sameiginlegu borði þar sem til umræðu er samræming í utanríkisstefnu og öryggismálum í okkar álfu.

Kannski er mikilvægasta hlutverkið sem NATO gegnir um þessar mundir að halda góðu samstarfi við Rússland og Bandaríkin á vettvangi sínum. Það er e.t.v. besta öryggistryggingin sem okkur býðst um þessar mundir. Hv. þm. Össur Skarphéðinsson nefndi einmitt sérstaklega rússnesku generálana sem ganga um sali í höfuðstöðvum NATO um þessar mundir. Það held ég að skipti ekki litlu máli.

Engu að síður er ástæða til að grennslast fyrir um það hjá hæstv. utanrrh. hvort hann kannist við þá lýsingu á áherslubreytingum innan NATO sem ég vitnaði til hér áðan, að meiri háttar og líklega óafturkræf skref hefðu verið tekin burt frá gagnkvæmum varnarskuldbindingum.